Lyfjalög

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 17:53:46 (7296)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég les þessi orð hv. þm. þannig að hún hafi ekki í orðum sínum áðan verið að kynna stefnu flokksins síns. Það finnst mér góð tíðindi og ég vona það að um þá afstöðu, sem hún kynnti áðan, standi hún ein í sínum flokki.
    Um heimalestur eða ekki heimalestur vil ég ekkert segja annað en það að síðan í ágúst hefur legið fyrir hvaða skuldbindingar við undirgöngumst m.a. á þessu sviði við aðild okkar að Evrópsku efnahagssvæði og að flytja það mál nú eins og það væri nýtt lýsir ókunnugleika.
    Í þriðja lagi varðandi orð hv. þm. um Harald Guðmundsson, þá er þar hvert orð satt. En það er aðeins einn maður sem hv. þm. er þekkt fyrir að hafa látið í ljós opinberlega álit sitt á hvað hefði falleg augu. Það var Ceausescu, fyrrv. einvaldur í Rúmeníu en ekki Haraldur Guðmundsson og hv. þm. ætti kannski að skoðast um sviðið hjá þeim aðila sem hann dáði svo mikið hvernig heilbrigðiskerfinu var háttað í því landi.