Lyfjalög

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 18:09:49 (7299)

     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Búið er að fara svo ítarlega yfir efni þessa frv. og vítt og breitt um allt sviðið að ég þarf ekki að taka mjög langan tíma í þessum ræðustól. Ég vil byrja á því að fagna því að frv. til lyfjalaga hefur komið fram og tel að nauðsynlegt sé að fara vel yfir lög um innflutning, lyfjadreifingu og sölu ef vera kynni að það hefði í för með sér lækkandi verð á lyfjum í framtíðinni þá tel ég það af hinu góða. En þetta frv. er þannig að ég get ekki séð að það muni nást einhver samstaða um að afgreiða það sem lög á þessu þingi því það er að mörgu leyti mjög gallað. Meginmarkmið frv. er frelsi í lyfjadreifingu og sölu sem á að lækka lyfjaverðið. Frelsið og um leið helstu breytingar frv. felast í auknu frelsi til að opna apótek, heimild dýralækna til lyfjasölu og apótekum verður heimilað að ákveða verð á lausasölulyfjum, auglýsa þau villt og galið og stunda heimsendingarþjónustu. Allt þetta á að leiða til þess að verð á lyfjum lækki. Það væri vissulega af hinu góða ef sú væri raunin á. Hins vegar hafa í umræðunni hér og í skrifum ýmissa sérfræðinga um þetta frv. komið fram verulegar efasemdir um að þær breytingar sem frv. felur í sér muni leiða til lækkunar á lyfjaverði. Einnig hefur komið fram og það finnst mér mjög alvarlegur hlutur að frelsi til þess að opna lyfjaverslanir muni þýða fjölgun lyfjaverslana í þéttbýli á kostnað dreifbýlis og muni jafnvel þýða það að lyf verði seld hærra verði í dreifbýlinu en í þéttbýlinu.
    Allt þetta eru atriði sem við þurfum að fara mjög vel yfir og ég tek undir það sem hv. þm. Pálmi Jónsson sagði áðan um hættuna á mismunun þeirra sem búa á þéttbýlissvæðinu og svo í dreifbýlinu til þess að nálgast lyfin og einnig á kostnað þeirra. En það eru nokkur atriði í greinum þessa frv. sem ég vildi fara yfir og spyrja ráðherra nánar út í og þá fyrst og fremst ef ég byrja á 2. gr. þar sem er fjallað um Lyfjaeftirlit ríkisins sem á að vera sjálfstæð stofnun sem lyfjafræðingur veitir forstöðu. Þar stendur: ,,Tryggja skal Lyfjaeftirliti ríkisins hæfilegt starfslið . . .  `` Mér finnst þetta ákaflega loðið og hefði viljað heyra hugmyndir ráðherra um það hvað er ,,hæfilegt starfslið Lyfjaeftirlits ríkisins`` vegna þess að hlutverk þess er mjög víðtækt. Einnig hvers vegna Lyfjaeftirlit ríkisins á að fylgjast með lyfjaverði innan lands og gera reglulegan samanburð á innlendu lyfjaverði og lyfjaverði í helstu nágrannalöndum fyrir lyfjagreiðslunefnd. Hvers vegna er þetta ekki hlutverk lyfjagreiðslunefndar?
    Síðan kemur í III. kafla sem er um lyfjaskrár og ég fer aðeins lauslega yfir þetta því við eigum auðvitað eftir að fara yfir frv. mjög ítarlega í heilbr.- og trn. og fá þangað bæði umsagnir og menn til viðtals til þess að fara yfir frv. með okkur og munum örugglega leggja í það mjög mikla vinnu því það skiptir afar miklu máli að lög sem þessi verði góð þegar þau hljóta samþykki Alþingis.
    En í III. kafla er fjallað um lyfjaskrár og 6. gr. finnst mér afar einkennileg. Þar er bara sagt: ,,Ísland er aðili að evrópsku lyfjaskránni`` --- þetta er staðreynd sem er ekki endilega þörf á að hafa í lagatexta. Síðan kemur í lagatexta --- ,,Gildir hin enska útgáfa lyfjaskrárinnar hér á landi.``
    Hvers vegna þarf það að vera bundið í lagatexta að hér skuli gilda ensk útgáfa á lyfjaskrá? Mér finnst þetta afar einkennilegt að hafa svona ákvæði inni.
    Þá er annað ákvæði í þessari sömu grein: ,,Ísland er aðili að Pharmaceutical Inspection Convention (PIC). Ensk útgáfa GMP --- Leiðbeiningar um góða framleiðsluhætti í lyfjagerð með viðaukum, svo og aðrar leiðbeiningar sem settar eru af þessum aðilum, skulu gilda hér á landi.``
    Ef Ísland er ekki lengur aðili að evrópsku lyfjaskránni og síðan að PIC og GMP þá þýðir það að það mun þurfa lagabreytingu til til þess að breyta þessu sem eru bara venjulegar staðreyndir. Við erum aðilar að samningum og er það sjaldnast fest með þessum hætti í lagagreinum.
    Þá er hér V. kaflinn þar sem talað er um ávísun lyfja, lyfseðla og afgreiðslu þeirra og merkingu lyfja --- og ég vona að hæstv. heilbrrh. heyri til mín --- en þar er sagt: ,,Landlæknir hefur eftirlit með lyfjaávísunum lækna og afhendingu lyfjafræðinga á lyfjum í neyðartilfellum.``
    Mér finnst þetta afar gott ef það getur gerst að landlæknisembættið geti haft mjög strangt eftirlit með lyfjaávísunum lækna. Við þekkjum öll dæmi þar sem hefur verið um það að ræða að læknar hafa vísað ótæpilega á lyf. Fyrir stuttu síðan var á dagskrá hjá Bylgjunni að ég held, viðtal við ungan mann og reyndar upptaka þar sem hann fór í heimsókn til læknis og bað um róandi lyf, svefnlyf og eitthvað fleira og fékk ávísun á það allt, bara eftir sinni eigin beiðni en án þess að það væri farið neitt nákvæmlega út í það af hvaða þörfum, af hverju hann þyrfti að fá þessi sterku lyf. Ég veit dæmi þess að það hefur verið haft samband við landlæknisembættið út af störfum lækna og ávísun á róandi lyf en manni hefur fundist oft og tíðum vera heldur lítið gert í því að laga þá hluti.
    Síðan er í 13. gr.: Ráðherra setur reglugerð um gerð lyfseðla og ávísun lyfja, afgreiðslu þeirra og merkingu. Í reglugerð þessari skal m.a. kveða á um eftirfarandi atriði:`` --- Síðan er það talið upp: Gerð lyfseðla, ávísun lyfja, hvort lyf megi einungis afhenda gegn lyfseðli, hve mikið magn og hve oft gegn sama lyfseðli.
    Ég vildi gjarnan vita í samráði við hvern hæstv. heilbrrh. ætlar að setja þessa reglugerð. Það er ekkert í greininni sem segir það að ráðherra þurfi að hafa nokkurt einasta samráð. Nú er ég ekki að segja að núv. hæstv. heilbrrh. ætli ekki að hafa samráð við einhvern t.d. læknismenntaðan einstakling um þessa reglugerð hvernig hún verður, en það gæti farið svo að einhvern tímann veldist í ráðherrastól, í heilbrrn., maður sem ekki hefði hug á því að hafa neitt slíkt samráð og þá getur hann samkvæmt 13. gr. sett reglugerðina án nokkurs samráðs. Ég hefði gjarnan viljað heyra það hvort ráðherra telur ekki, úr því það er verið að setja inn í lög að við séum aðilar að evrópsku lyfjaskránni og PIC o.fl. og skulum hafa enska útgáfu að lyfjaskrá, að það sé enn frekar ástæða til þess að hafa í 13. gr. ákvæði um að ráðherra skuli setja reglugerð í samráði við einhverja þá aðila sem hafa þekkingu til að bera.
    Síðan er í 21. gr. um stofnun lyfjabúða og lyfsöluleyfi. Þar rak ég mig á nokkuð sem ég get illa sætt mig við að sé með þeim hætti sem fram kemur í frv. en það er: ,,Fyrir lyfsöluleyfi skal greiða gjald sem ákveðið er af fjármálaráðherra.`` Ekki einu sinni í samráði við heilbrrn. eða hæstv. heilbr.- og trmrh. hverju sinni, heldur skal fjmrh. hafa fullt vald til þess að ákveða hvað skuli greiða fyrir lyfsöluleyfi. Þó hlýtur sérþekkingin á þessum sviðum að vera í heilbr.- og trmrn. og því eðlilegt að þessi lyfsöluleyfi eða gjaldið skuli ákveðið í samráði við heilbr.- og trmrh. eða ráðuneytið eða að heilbr.- og trmrh. ákveðið þetta gjald hverju sinni.
    Þá er í 22. gr.: ,,Hvert lyfsöluleyfi takmarkast við rekstur einnar lyfjabúðar og ber lyfsöluleyfishafi sjálfur faglega ábyrgð á rekstri lyfjabúðarinnar. Lyfsöluleyfishafa er heimilt að sækja um leyfi til að reka útibú frá lyfjabúð sinni í sveitarfélögum þar sem lyfjabúðir eru ekki reknar.`` Mig langar til að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. hvort það sé með svipuðum hætti og er í dag. Ef ég tek bara dæmi úr minni heimabyggð, þá er apótek starfrækt á Selfossi en flestir Eyrbekkingar og Stokkseyringar sækja sín lyf í kaupfélagið þangað sem fimmrútan kemur með pappakassa þar sem lyfin eru í þartilgerðum bréfpokum merkt hverjum einstaklingi sem á að fá lyfin og jafnvel hægt að taka þau út í reikning kaupfélagsins. Er þetta það fyrirkomulag sem ráðherrann sér fyrir sér á útibúum þessara apóteka? Ef ekki þá fagna ég því ef strangari kröfur verða gerðar í framtíðinni en þær sem eru gerðar í dag að lyfjafræðingur afgreiði lyfið í bréfpokann en sendi það síðan í einhverja verslun út í sveitarfélag og þar sér afgreiðslufólk um afgreiðslu til neytenda. Ég lít á þetta sem útibú, að vísu í pappakassa en útibú samt.
    Þá er í 23. gr.: ,,Lyfsöluleyfi fellur niður:
    1. ef leyfishafi er sviptur lyfjafræðingsleyfi sínu eða verslunarleyfi,
    2. ef leyfishafi brýtur á einn eða annan máta ákvæði þessara eða annarra laga,`` o.s.frv.
    Hver er það sem fellir niður lyfsöluleyfið eða metur hvort leyfishafi hefur brotið af sér? Það er ekkert um það í þessari grein hver skuli fella niður lyfsöluleyfið eða hafa úrskurðarvald um það hvort leyfishafi hafi brotið af sér og við hvað skal miðað.
  ,,3. í lok þess árs sem leyfishafi verður 70 ára. Heimilt er að framlengja leyfi um eitt ár í senn eftir þann

tíma, að fenginni umsögn landlæknis.``
    Þarna finnst mér eðlilegt að það gildi sömu reglur og eru varðandi ríkisstarfsmenn um starfsaldur.
    Þá er það 27. gr.: ,,Starfsmenn lyfjabúða eru bundnir þagnarskyldu um alla vitneskju eða grun sem þeir í starfi sínu öðlast um sjúkdóma eða önnur einkamál.``
    Þetta getur verið afar erfitt í framkvæmd ef útibúin eru starfrækt með þeim hætti sem ég lýsti áðan, þá getur það verið afar erfitt að fara fram á þessa þagnarskyldu.
    Eins er það um afgreiðslu lyfja: ,,Lyfjafræðingar eða aðstoðarlyfjafræðingar skulu bera ábyrgð á afgreiðslu lyfseðils og hafa með höndum lokaeftirlit að rétt sé afgreitt samkvæmt lyfjaávísun eða eiturbeiðni.``
    Ég tel það afar hæpið að slíkt eftirlit eigi sér stað í dag þegar lyfin eru afgreidd í útibúum kaupfélaga eða annarra verslana úti í sveitarfélögunum.
    Síðan er það 37. gr.: ,,Á hverju deildaskiptu sjúkrahúsi skal starfa þriggja til fimm manna lyfjanefnd sem er ráðgefandi um lyfjaval sjúkrahússins.`` Það getur vel verið, það þekki ég ekki, að það sé gert í dag, það séu starfandi lyfjanefndir inni á sjúkrahúsunum en ef ekki þá vildi ég gjarnan vita hvort laun þeirrar nefndar skulu greiðast af framlögum til sjúkrahúsanna og ef svo er í dag þá er ágætt að vita það.
    Þá er það lyfjaverðið og það er 40. gr.: ,,Hámarksverð á lyfseðilsskyldum lyfjum og dýralyfjum skal ákveðið af lyfjagreiðslunefnd. Í nefndinni eiga sæti fimm menn sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar nefndinni formann. Þegar fjallað er um hámarksverð á lyfjum taka sæti í nefndinni tveir fulltrúar, annar skipaður af samtökum lyfsala og hinn af samtökum lyfjaheildsala.``
    Þarna hefði ég gjarnan viljað sjá að það væri nánar kveðið á um það hverjir það eru sem á að skipa í nefndina eða hvaða skilyrðum þeir eiga að fullnægja vegna þess að ég óttast að þetta verði pólitískt skipuð nefnd sem fjalli um hámarksverð á lyfseðilsskyldum lyfjum og dýralyfjum eftir þeirri pólitísku stefnu sem er rekin hverju sinni en slíkt má ekki viðgangast við sölu lyfja að það sé pólitísk stefna ráðherra hverju sinni sem ráði þar ákvörðun um lyfjaverð.
    Þá er í grg. með frv., athugasemdir við lagafrv., á bls. 13:
    ,,Ætla verður að auknu frelsi í lyfjasölu fylgi fjölgun útsölustaða og þar með greiðari aðgangur að lyfjum, sem að öðru jöfnu leiðir til hærri heildarkostnaðar. Á móti kemur aukin kostnaðarvitund þeirra sem nota lyf ef hlutfallsgreiðslur verða teknar upp auk þess sem vænta má aukinnar samkeppni.``
    Í þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar áður þá finnst mér að það sé í raun og veru búið að afsanna það að nákvæmlega þessi atriði geti haft í för með sér lækkun á verði lyfja. Það hefur komið fram bæði hér í ræðum hv. þm. og eins í þeim skrifum sem ég hef séð í dagblöðum undanfarið, þá hefur þetta verið hrakið, einmitt þetta, fjölgun útsölustaða og það að hækka kostnaðarhlutdeild sjúklings að það hafi endilega í för með sér lækkun á lyfjaverði.
    Á bls. 15 er sagt frá því að frv. feli það í sér að það verði fækkað allverulega þeim ákvæðum laga sem mæla fyrir um setningu reglugerða en þess í stað sett almenn heimild til að setja í reglugerðir nánari ákvæði um framkvæmd þeirra.
    Þarna er sem sagt verið að taka í burtu það ákvæði þar sem mælt er fast fyrir setningu reglugerðar en sett svona almenn heimild. Sjálfsagt er það gert til að geta tekið inn þær EES-tilskipanir eða reglugerðir sem koma til með að birtast á næstu mánuðum eða árum ef EES-samningurinn verður samþykktur.
    Þá langaði mig til þess að spyrja ráðherra aðeins um 25. gr. þar sem ég rakst á það að það hafa verið gerðar athugasemdir, Apótekarafélag Íslands hefur gert athugasemdir við það að þurfa að senda frá sér upplýsingar um sölu lyfja á tölvutæku formi og hafa fundið því aðallega til foráttu að þessum upplýsingum fylgi kennitala sjúklings og númer þess læknis sem lyfseðilinn skrifar. Félagið lítur svo á að þær upplýsingar séu trúnaðarmál sjúklings og læknis annars vegar og sjúklings og apóteks hins vegar. Felur 25. gr. það í sér að það verður að gefa upp þessar upplýsingar sem Apótekarafélag Íslands hefur mótmælt?
    Að lokum vil ég aðeins nefna umsögn um frv. til lyfjalaga sem kemur frá fjmrn., fjárlagaskrifstofu. Þetta er skylda sem þarf að uppfylla, með hverju frv. á að fylgja umsögn frá fjmrn., fjárlagaskrifstofu. Það verð ég hins vegar að segja að aftur og aftur verður maður fyrir gífurlegum vonbrigðum með það hversu fljótfærnislegar þessar umsagnir fjárlagaskrifstofu fjmrn. eru unnar. Þessi til að mynda er svona samantekt á greinargerð frv. og athugasemdum við það. Það er ekkert um það hvað þetta muni þýða inn í framtíðina, það er ekkert um það ef frv. verður samþykkt hvort þetta geti til lengri tíma litið þýtt eitthvert tekjutap fyrir ríkið. Þetta er nánast bara endursögn á greinargerðinni í heldur styttra formi. Heldur er þetta nú burðugra heldur en sú umsögn sem var með frv. sem við vorum að fara yfir um daginn þar sem umsögnin var upp á að mig minnir þrjár línur, heldur er þetta þó burðugra en í raun segir það ekkert meira vegna þess að maður er engu nær eftir þessa umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. Þetta eru vinnubrögð sem við þurfum að búa við. Hér kemur inn hvert frv. á fætur öðru frá þessari hæstv. ríkisstjórn og umsagnirnar eru allar með þessum hætti. Mér finnst þetta til skammar og það er til lítils að setja reglur sem bindur fjmrn. eða hvert ráðuneyti til að láta slíka umsögn fylgja frv. ef akkúrat ekkert er á henni að græða. Akkúrat ekki neitt. Það eina sem maður veit nákvæmlega um þetta er að þeir eru sjálfsagt sammála því að fjmrn. eigi

að ákveða eitt og sér gjaldtöku. Þeir eru sjálfsagt sammála því. En þeir segja t.d.: ,,Mikilvæg forsenda þess að frjálsræði í lyfjasölu skili sér í minni útgjöldum er að verð lyfja hafi áhrif á ákvarðanir lyfjanotenda.`` Hafið þið bara heyrt annað eins? Það er ekkert verið að tala um áhrif lyfsins eða lækningarmátt þess. Nei, ekki aldeilis. Það er að frjálsræði í lyfjasölunni skili sér í minni útgjöldum að verð lyfja hafi áhrif á ákvarðanir lyfjanotenda eða á hvaða lyf læknirinn ávísar. Þetta er speki sem kemur frá fjmrn. Umsögn fjmrn. um þann kostnað sem þetta frv. hefði hugsanlega í för með sér eða hvað það þýðir inn í framtíðina. Á þessu eigum við svo sjálfsagt að byggja ef frv. verður að lögum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár, á þessari umsögn. Mér finnst hún bara vera til skammar fyrir þá deild sem sendir hana frá sér.
    Virðulegi forseti. Það var ýmislegt sem ég hefði viljað fara yfir nánar í skrifum um þetta frv., bæði af hálfu apótekara, lyfsala og eins annarra sem um þetta frv. hafa fjallað en það hefur verið gert mjög rækilega hér. Ég vil geta þess að ég hélt þegar störfum þingsins var breytt á þann máta að starfsemin var færð í eina deild þá ætti það að þýða skilvirkari og betri störf þingsins og ég tók það einhvern veginn í mig að 1. umr. væri gróf yfirferð yfir hvert frv. og síðan tækju nefndir þau til umfjöllunar en aðalumræða færi fram eftir þá umfjöllun því nefndir mundu auðvitað kynna sér hvert frv. mjög vel og kalla til álit sérfróðra manna. En það hefur ekki orðið og það er eins með þetta frv. og svo mörg, mörg önnur að 1., 2. og 3. umr. eru allar orðnar aðalumræður um þau mál sem við erum að fjalla um hverju sinni. Ég held að maður hljóti að komast að þeirri niðurstöðu eftir störf þingsins í vetur og að það hafi jafnvel verið skilvirkara þegar við störfuðum í tveimur deildum.