Lyfjalög

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 19:51:22 (7306)

     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir afdráttarlausa yfirlýsingu hans um það að ekki eigi að taka of bókstaflega ákvæði 22. gr. um að læknir megi ekki standa að lyfjabúð. En hæstv. ráðherra lýsti því yfir að þar sem ekki væri grundvöllur að rekstri lyfjabúðar þá væri lækni heimilt að annast lyfjadreifingu en þar hagar yfirleitt þannig til að viðkomandi læknir er sá eini sem mun ávísa út úr þeirri lyfjabúð.
    En ég hafði líka í mínu máli ekki síður áhyggjur af öðru en lyfjadreifingunni, það var stöðu læknisins. Og því vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé skylt að veita öðrum lyfsöluleyfi ef einhver kemur og telur sér hag í því að bæta lyfsölu, við einhverja aðra starfsemi þó ekki sé grundvöllur til að reka hana sjálfstætt. Yrði þá ekki að veita slíkum aðila leyfi og yrði þá ekki um leið að svipta heilsugæslulækninn leyfinu? Eða gæti hann haldið áfram að reka sína lyfjaþjónustu?