Lyfjalög

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 19:53:39 (7307)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt núgildandi kerfi getur apótekari, sem vill reka apótek þar sem læknir eða sveitarfélag sér um reksturinn, krafist þess að fá að reka lyfsöluna þar. Og þá er náttúrlega takmarkinu náð sem er þjónusta við dreifbýlið því þá er hún komin í héraðið. Engu að síður heldur læknirinn þeim rétti að geta keypt lyf í heildsölu til stofureksturs síns á svæðinu þannig að sá réttur verður ekki frá honum tekinn því hann hefur þann rétt líka þó hann starfi í mesta þéttbýlinu.
    Það hefur verið gripið til sérstakra aðgerða, eins og hv. þm. vita, til að tryggja mönnun í mesta dreifbýlinu, tryggja mönnun á heilsugæslulæknisstöðum í mesta dreifbýlinu, það hefur tekist. Það hefur ekki tekist með því að veita læknunum aðgang að lyfsölu heldur með því að reyna að bæta starfskjör þeirra með sérstökum aðgerðum. Og nú háttar þannig til að það er ekkert læknislaust heilsugæsluumdæmi til á landinu og hefur ekki verið um nokkuð langt skeið. Þetta hefur verið tryggt, ekki með aðgangi lækna að lyfjasölu, því að þeir fullyrða það sjálfir og hafa gert við mig þar sem ég hef rætt við þá, þar sem læknar stunda lyfjasöluna, að þeir hafi lítið út úr því annað en fyrirhöfnina. Það hefur hins vegar verið gert með því að bæta aðstöðu þeirra með sérstökum hætti með góðum stuðningi fjárln. og því verður haldið áfram til að tryggja það eins og hingað til að allar þessar stöður heilsugæslulækna, líka í hinu mesta dreifbýli, verði mannaðar.