Atvinnuleysistryggingar

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 20:49:17 (7326)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Lögin um atvinnuleysistryggingar eru að stofni til frá árinu 1981 og eru nr. 64. Á árunum 1981--1992 hefur lögunum verið breytt átta sinnum. Með lögum nr. 96 frá 1990 var gefin út samfelld útgáfa laganna með þeim breytingum sem gerðar hefðu verið fram að þeim tíma. Síðan hefur lögunum verið breytt tvisvar.
    Ört vaxandi atvinnuleysi síðustu mánaða og missira hefur leitt í ljós ýmsa vankanta á gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar. Þá var með lögfestingu tryggingagjalds frá og með 1. jan. 1991 skv. lögum nr. 113 1990 fjölgað þeim sem greiddu til Atvinnuleysistryggingasjóðs án þess að réttindum til greiðslna úr sjóðnum væri breytt. Ég ákvað því að skipa vinnuhóp sem falið var að endurskoða ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar. Í vinnuhópnum átti sæti Jón H. Magnússon, lögfræðingur hjá Vinnuveitendasambandi Íslands, Lára V. Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, Margrét Tómasdóttir, deildarstjóri Atvinnuleysistryggingasjóðs, Pétur Sigurðsson, formaður stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og Dögg Pálsdóttir skrifstofustjóri, sem jafnframt var formaður nefndarinnar. Nefndin hefur skilað lagafrumvarpi því sem hér er mælt fyrir og er það lagt fyrir Alþingi í þeirri mynd sem hv. nefnd gekk frá frumvarpinu.
    Helstu nýmæli frumvarpsins eru:
    1. Réttur til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði verður ekki lengur bundinn við aðild að stéttarfélagi.
    2. Sjálfstætt starfandi, sem skilað hafa tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði áður en þeir hættu sjálfstæðri starfsemi, öðlast rétt til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði með sama hætti og launamenn, enda uppfylli þeir skilyrði reglna sem heilbr.- og trmrh. setur að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og séu atvinnulausir og séu í atvinnuleit. Drög reglna um skilyrði sjálfstætt starfandi eru fskj. með frv. þessu. Sýna þau hvaða áform eru uppi í þessu sambandi þó auðvitað séu drög þessi ekki endanleg.
    3. Hámarksaldur vegna greiðslu atvinnuleysisbóta er færður úr 71 ári í 70 ár. Jafnframt eru sett inn ákvæði um það að ef atvinnulaus nýtur einnig elli- eða örorkulífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins þá skuli samanlagðar bætur frá Atvinnuleysistryggingasjóði og Tryggingastofnun aldrei nema hærri fjárhæð en hámarksbótum atvinnuleysistrygginga.
    4. Reglur um missi bótaréttar þeirra sem segja upp starfi sínu án gildra ástæðna og verða atvinnulausir af þeim sökum verða hertar og sá tími sem bótaréttur fellur niður af þessum sökum er lengdur. Sömuleiðir eru reglur um heimild atvinnulausra til að neita starfi og ákveðið hvaða afleiðingar neitun hefur á bótarétt. Þá eru viðurlög við að afla sér bóta með röngum eða villandi upplýsingum hert mjög verulega og heimilt að endurkrefja viðkomandi um allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem fengin hefur verið úr Atvinnuleysistryggingasjóði með sviksamlegum hætti.
    5. Reglur eru settar um biðtíma vegna atvinnuleysisbóta ef mánaðartekjur viðkomandi síðustu tvo mánuði áður en atvinnuleysi hófst voru hærri en sem nemur tvöföldum atvinnuleysisbótum.
    6. Atvinnulausir geta komist undan 16 vikna biðtímanum milli bótatímabila með því að sækja og ljúka námskeiðum, sem sérstaklega eru ætluð atvinnulausum, í a.m.k. átta vikur.

    Efnislega eru breytingar þær sem gerðar eru með frv. þessu að lögum um atvinnuleysistryggingar af tvennum toga. Annars vegar er tekið á því hverjir eiga rétt á atvinnuleysistryggingabótum og hins vegar er hert á ýmsum ákvæðum er varða framkvæmd laganna. Ég vil í máli mínu hér á eftir víkja nokkuð nánar að þessum þáttum.
    Lítum þá fyrst á ákvæði um rétt til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Um árabil hefur aðild að stéttarfélagi verið skilyrði bótaréttar úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Árið 1988 skipaði þáv. heilbr.- og trmrh. nefnd sem falið var að endurskoða lög og reglur um atvinnuleysistryggingar hér á landi. Nefndin skilaði áliti í nóvemberlok 1989. Í nefndinni endurspegluðust mismunandi viðhorf til þess hversu langt skyldi ganga í tillögum til breytinga að því er varðar aðild að atvinnuleysistryggingum. Fulltrúar Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna í nefndinni vildu fella niður skilyrði um stéttarfélagsaðild. Fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Atvinnuleysistryggingasjóður voru á hinn bóginn á móti slíkri rýmkun bótaréttar. Ekki náðist samstaða í þáv. ríkisstjórn um að leggja fram frumvarp sem gerði ráð fyrir niðurfellingu skilyrðisins um stéttarfélagaaðild. Á þessum tíma hafði íslenskum stjórnvöldum samt sem áður nýverið borist athugasemd frá sérfræðinganefnd Evrópuráðsins varðandi framkvæmd Íslands á ákvæði félagsmálasáttmála Evrópu um að allir menn skulu eiga jafnan rétt á að njóta félagslegrar velferðarþjónustu. Þrátt fyrir þá alvarlegu athugasemd féllust aðilar í þáv. ríkisstjórn ekki á það að leggja fram frumvarp sem gerði ráð fyrir niðurfellingu skilyrðisins um stéttarfélagaaðild, þó þeir hinir sömu hafi skipt um skoðun frá því þá og þar til nú. Með frv. þessu er hins vegar tryggt að launamenn, hvort sem þeir standa innan eða utan stéttarfélaga, eigi rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði ef til atvinnuleysis kemur.
    Í árslok árið 1990 samþykkti Alþingi lög um tryggingagjald. Tryggingagjaldið kom í stað launaskatts, lífeyristryggingagjalds, slysatryggingagjalds, vinnueftirlitsgjalds og iðgjalds í Atvinnuleysistryggingasjóð. Þessi lög voru samþykkt samhljóða frumvarpi sem flutt var af þáv. hæstv. fjmrh., sá var Ólafur Ragnar Grímsson, hv. þm. Samkvæmt lögunum er gjaldskyldur vegna tryggingagjalds hver sá aðili sem innir af hendi eða reiknar greiðslur sem teljast laun. Gjaldskyldan samkvæmt lögum sem hv. þáv. fjmrh. beitti sér fyrir tók þannig til allra launagreiðenda, þ.e. einstaklinga, félaga, sjóða og stofnana, sveitarfélaga og stofnana þeirra, ríkissjóðs, ríkisstofnana, erlendra verktaka og annarra þeirra aðila sem greiða laun eða hvers konar þóknanir fyrir starf. Þá nær gjaldskyldan og til allra þeirra sem vinna við eiginn atvinnurekstur eða stunda sjálfstæða starfsemi. Tekjum af tryggingagjaldi er m.a. þannig ráðstafað að 0,15% af gjaldstofninum renna til Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Í grg. sem fylgdi frv. hæstv. þáv. fjmrh., Ólafs Ragnars Grímssonar, sagði skýrum stöfum að breyting sú sem verða ætti á gjaldtöku til Atvinnuleysistryggingasjóðs, þar sem iðgjald var tekið af öllum launamönnum, einnig sjálfstætt starfandi, ætti í engu að breyta skipan á rétti til atvinnuleysisbóta að því er varðaði hverjir ættu rétt til bótanna, hversu háar þær væru og miðað við hvaða tímabil. Við þingmeðferð málsins kom á hinn bóginn í ljós að áhugi var á því meðal sumra þingmanna að unnið yrði að breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar í þá veru að saman færu réttindi og skyldur í þessu efni. Með frv. þessu er gert ráð fyrir því að sjálfstætt starfandi eigi rétt til atvinnuleysisbóta eftir sömu reglum og launamenn, að fullnægðu því skilyrði að þeir séu hættir eigin atvinnurekstri, að þeir séu í atvinnuleit og að þeir fullnægi að öllu öðru leyti skilyrðum reglna sem heilbr.- og trmrh. setur að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Með frumvarpinu er því tryggt loksins að saman fari réttindi og skyldur gagnvart Atvinnuleysistryggingasjóði. Með frumvarpinu og þeim drögum að reglugerð um þetta efni, sem sýnd eru, eru varfærnislega stigin fyrstu skref gagnvart þessari opnun á Atvinnuleysistryggingasjóði. Tíminn mun skera úr hvort of varfærnislega er stigið, af þeim sökum er einnig gert ráð fyrir að nánari útfærsla skilyrða bótaréttar sjálfstætt starfandi sé í reglum sem ráðherra setur.
    Víkjum þá nánar að ýmsum atriðum sem snerta herðingu á framkvæmd laga um atvinnuleysistryggingar. Meðan atvinnuleysi var nánast óþekkt hér landi virðist sem á atvinnuleysisskrá hafi lent ýmsir einstaklingar sem í raun voru hvorki atvinnulausir né heldur í atvinnuleit heldur óvinnufærir. Í frv. þessu er reynt að herða á ýmsum ákvæðum er snerta framkvæmd þessara mála til að tryggja eftir því sem kostur er að á atvinnuleysisskrá á hverjum tíma séu eingöngu þeir einstaklingar sem eru raunverulega atvinnulausir og eru raunverulega í atvinnuleit. Þá hefur einnig verið hert á ákvæðum varðandi viðbrögð við því þegar einstaklingur verður atvinnulaus af eigin sökum, þ.e. ef hann hefur sjálfur sagt upp vinnu sinni og fær ekki aðra í hennar stað. Sömuleiðis hefur frv. að geyma ákvæði um verulega hert viðurlög við því þegar einstaklingur aflar sér atvinnuleysisbóta með vísvitandi röngum eða villandi upplýsingum og heimild er í frv. til endurkröfu á hlutaðeigandi þegar svo stendur á. Sem betur fer eru dæmi af þessu tagi óalgeng en þau þekkjast þó allnokkur og full ástæða er til að taka á þeim af fullri hörku.
    Þá gerir frv. ráð fyrir að upphaf greiðslna atvinnuleysisbóta verði tekjutengt og miðað við meðaltekjur síðustu mánaða áður en til atvinnuleysis kom. Frv. gerir ráð fyrir engum biðtíma hjá þeim sem hafa tekjur sem eru jafnháar eða lægri en tvöfaldar bætur atvinnuleysistrygginga. Hinir sem hafa hærri tekjur munu á hinn bóginn þurfa að bíða einhverja daga, allt eftir tekjum.
    Loks eru í frv. tillögur um hið svokallaða 16 vikna tímabil sem mikið hefur verið til umræðu, ekki síst eftir að langtímaatvinnuleysi varð svo algengt sem raun ber vitni. Um langt skeið hafa lög um atvinnuleysistryggingar gert ráð fyrir því að einstaklingur, sem notið hefur bóta í eitt bótatímabil sem er að

hámarki eitt ár, falli af bótum í 16 vikur áður en hann kemst á bætur á nýjan leik. Í frv. er meginreglunni um 16 vikna biðtíma haldið en einstaklingum gefinn kostur á að losna undan því með endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeiði eða taka þátt í átaksverkefnum í a.m.k. 8 vikur á hverju bótatímabili. Sinni hinn atvinnulausi ekki tilboði um slíkt fellur hann af bótum í 16 vikur.
    Með þessum ákvæðum er talsvert hert á framkvæmd gildandi laga. Með því er bæði komið til móts við ábendingar þeirra sem starfa við framkvæmd laganna svo og haft í huga að í forsendum fjárlaga þessa árs var gert ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður skyldi spara 100 milljónir kr. á þessu ári miðað við óbreytt atvinnuleysisstig. Í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu fjmrn., sem birt er sem fskj. með frumvarpinu, kemur fram að umrædd ákvæði frumvarpsins ásamt þeirri ákvörðun stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að lækka umsýsluþóknun stéttarfélaga vegna afgreiðslu atvinnuleysisbóta skili u.þ.b. 100 millj. kr. sparnaði. Fjárlagaskrifstofa fjmrn. hefur endurmetið þetta sparnaðarmat sitt og skilað bréfi til heilbr.- og trmrn. sem framsent verður hv. heilbr.- og trn. Þar kemur fram að fjárlagaskrifstofa áætlar að þessi ákvæði frumvarpsins ásamt ákvörðun stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að lækka umsýsluþóknun stéttarfélaga muni skila ekki 100 heldur 130 millj. kr. sparnaði, eða nokkru meiru heldur en gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga.
    Á hinn bóginn er ljóst af öðrum ákvæðum frumvarpsins, ekki síst ákvæðinu um rétt sjálfstætt starfandi til atvinnuleysisbóta og brottfall 16 vikna biðtímans, fylgir verulegur kostnaðarauki fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég vísa aftur í kostnaðarmat fjárlagaskrifstofu. Þar er gert ráð fyrir að frv. auki útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs um 180--230 millj. kr. nettó. Fjármálaskrifstofan hefur hins vegar endurskoðað þetta mat sitt, eins og ég áðan sagði, og þá til lækkunar og telur nú að nettó útgjaldaaukningin vegna frumvarpsins, verði það að lögum, verði á bilinu 150--200 millj. kr. Bréf þar að lútandi hefur verið sent heilbr.- og trn. Alþingis.
    Virðulegi forseti. Ég hef hér gert ítarlega grein fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Áður en ég lýk máli mínu vil ég þó nefna tvö atriði sem nefnd sú, sem samdi frv. þetta, vakti sérstaka athygli á í bréfi sínu til mín þegar hún lauk störfum. Þar er annars vegar um að ræða réttindi námsmanna, sem lokið hafa eða hætt námi, til atvinnuleysisbóta, og hins vegar rýmkun á heimildum til Atvinnuleysistryggingasjóðs til að veita styrki skv. VIII. kafla laganna. Ég hef afráðið að flytja frumvarpið óbreytt eins og það kom frá nefndinni en leyfi mér að vísa umfjöllun um þessi tvö atriði til skoðunar heilbr.- og trn. er hún fjallar um frv. þetta, og mun sjá til þess að hv. nefnd fái umrætt bréf nefndarinnar, sem frumvarpið samdi, með þessum ábendingum sem voru stílaðar til mín.
    Frumvarp þetta er á forgangslista ríkisstjórnarinnar yfir þau þingmál sem ljúka þarf á yfirstandandi þingi enda víst að fjölmargir atvinnulausir fylgjast með afdrifum frumvarpsins hér. Ég leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og trn.