Atvinnuleysistryggingar

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 21:04:08 (7327)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er satt að segja furðu seint sem það gerist á vegum núv. hæstv. ríkisstjórnar að mál af þessu tagi er lagt fram. Miðað við það alvarlega ástand sem hér er á vinnumarkaði, miðað við þá staðreynd að við búum við meira atvinnuleysi en nokkru sinni fyrr á Íslandi og hefur það fylgt þessari ríkisstjórn svo að segja alveg frá því að hún tók við, sem út af fyrir sig er sérstaklega alvarlegt vegna þess að í stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum hefur ekkert verið gert til þess að styrkja stöðuna í atvinnulífinu með almennum ráðstöfunum þannig að það gæti orðið til þess að draga úr atvinnuleysi. Þvert á móti fer atvinnuleysi stöðugt vaxandi og þrátt fyrir þær yfirlýsingar sem ríkisstjórnin gaf í desembermánuði sl. um að ráðstafanir hennar þá, m.a. gengisbreyting o.fl., hefðu það í för með sér að atvinnuleysi mundi ekki aukast enn frekar í framhaldinu, þá hefur það nú gerst eins og menn þekkja að atvinnuleysi hefur farið vaxandi alla mánuðina frá því að ríkisstjórnin lýsti því yfir að hún væri að grípa til efnahagsráðstafana til þess að stöðva aukningu atvinnuleysisins.
    Þetta atvinnuleysi er hrikalegt um allt land. Og af þeim ástæðum fluttum við alþýðubandalagsmenn sl. haust till. til þál. um rannsóknir á afleiðingum atvinnuleysis, félagslegum afleiðingum fyrir einstaklinga og hópa, bæjarfélög og samtök, sálrænum afleiðingum fyrir ýmsa aðila og áhrifum atvinnuleysis á rekstur ýmissa neyðarstofnana hér í þjóðfélaginu, eins og rakið er í þeirri tillögu. Sú tillaga hefur nú verið til meðferðar í hv. félmn. Alþingis í allan vetur. Mér er ekki kunnugt um að hún hafi fengið afgreiðslu enn þá en við hljótum auðvitað að leggja á það áherslu, alþýðubandalagsmenn, að þessi tillaga fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi, því að hún hefur verið lengst allra þingmála á þessu sviði til meðferðar þingsins í vetur þannig að það er auðvitað sanngjarnt að fara fram á það að þessi tillaga verði afgreidd á Alþingi því sem nú situr.
    Sú tillaga hefur verið send til umsagnar mjög margra aðila. Þeir hafa allir lýst yfir stuðningi við tillöguna nema einn. Ég kem að því síðar hver sá aðili er, en einn þeirra aðila sem lýsir áköfustum og ákveðnustum stuðningi við tillögu okkar um rannsóknir á afleiðingum atvinnuleysis er lögreglustjóraembættið í Reykjavík. Og af hverju skyldi það nú vera sem lögreglustjóraembættið í Reykjavík lýsir ákveðnustum stuðningi við tillögu um rannsóknir á afleiðingum atvinnuleysis? Jú, það er auðvitað vegna þess að afleiðingar atvinnuleysis eru ekki fyrst og fremst efnahagslegar í augnablikinu, þær eru ekki fyrst og fremst félagslegar í augnablikinu. Heldur vegna þess að þessar afleiðingar eru oft og tíðum langtímaafleiðingar sem

munu mæta okkur, ekki aðeins á komandi mánuðum heldur jafnvel á komandi árum, og birtast í hrikalegum hlutum sem sjást núna í þróun þjóðfélaganna í Vestur-Evróu m.a. og hafa birst um það upplýsingar í skýrslum sem hafa komið frá Evrópubandalaginu, þar sem farið er yfir áhrif atvinnuleysis, m.a. á margvísleg afbrot og þróun afbrota í ríkjum Evrópubandalagsins samkvæmt þeirri skýrslu sem þar hefur verið tekin saman.
    Hins vegar er sá aðili sem hefur ekki talið ástæðu til þess að samþykkja tillögu til rannsóknar á afleiðingum atvinnuleysis, það er Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum lýsti því yfir í umsögn sinni að það ætti ekki að samþykkja þessa tillögu. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum --- Suðurnesjum, ég endurtek --- sagði, virðulegi forseti, nokkurn veginn orðrétt í umsögn sinni á þessa leið: Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum telja ekki ástæðu til þess að samþykkja sérstaka tillögu af þessu tagi þar sem þessi mál eru undir farsælli stjórn félmrn. Og það er satt að segja nokkurt umhugsunarefni að einmitt svona tónn skuli koma frá Suðurnesjum þaðan sem hafa líka borist fréttir um það að bæjarstjórn Keflavíkur hefur eins og kunnugt er ekki borið sig eftir þeim litlu möguleikum sem þó eru til innan gildandi laga varðandi stuðning við atvinnustarfsemi úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
    Ég legg á það verulega áherslu, virðulegi forseti, sem 1. flm. þeirrar tillögu sem ég er hér að ræða um, að hún verði afgreidd á yfirstandi þingi þannig að afleiðingar atvinnuleysis verði rannsakaðar í þaula hér á landi eins og í öðrum löndum.
    Auk þess að flytja þessa tillögu þá höfum við alþýðubandalagsmenn flutt á Alþingi frv. til laga um réttindi þeirra sem ekki hafa atvinnu. Þetta frv. er þegar til meðferðar í hv. heilbr.- og trn. og það er brýnt að það mál fái sem allra besta meðferð á þessu þingi, sérstaklega með hliðsjón af því að ríkisstjórnin leggur áherslu á að það frv. sem hér er til meðferðar fái afgreiðslu á þinginu. Og ég tel að það sé óhjákvæmilegt að þessi frumvörp verði að einhverju leyti afgreidd samhliða. Ég tel að það sé óeðlilegt og ósanngjarnt með öllu að ætla sér að afgreiða stjórnarfrumvarpið og láta svo sem hitt frumvarpið sé ekki til. Það kemur auðvitað ekki til greina að líða það.
    Auðvitað má hugsa sér að þær breytingar sem hæstv. ríkisstjórn gerir tillögur um í sínu frv. verði að einhverju leyti sameinaðar því frv. sem við alþýðubandalagsmenn höfum flutt þannig að þetta verði gert með einhverjum hætti að einu þingmáli, og ég teldi auðvitað að það væri farsælast. Með hliðsjón af stöðunni að það yrði reynt að mynda heildarsamstöðu um Atvinnuleysistryggingasjóð og það hvernig þar er á málum haldið.
    Mér heyrist það hins vegar ekki, virðulegi forseti, vera ætlun hæstv. heilbr.- og trmrh. að stuðla að neinu samkomulagi um þetta mál. Hann kýs að hafa í framsöguræðu sinni uppi sérkennilegan málflutning varðandi aðdraganda þessa máls, m.a. á vegum fyrrv. hæstv. ríkisstjórnar. Hann kýs í framsöguræðu fyrir frumvarpi, ráðherrann, á síðustu dögum eða síðustu vikum þingsins, þá kýs hann í framsöguræðu fyrir frumvarpi að veitast að okkur alþýðubandalagsmönnum og formanni Alþb. alveg sérstaklega. Þannig að það er bersýnilegt að hæstv. heilbrrh. vill ekki, eins og hann talar, ná víðtækri samstöðu um þessi mál heldur vill hann efna til ófriðar þar sem þess er kostur. Ég verð að segja það að ég vona, virðulegi forseti, að allir góðgjarnir menn hér í þessari stofnun hafi vit fyrir ráðherranum og reyni að koma í veg fyrir það að yfirlýsingar hans verði til þess að trufla meðferð málsins yfirleitt. En það hlýtur auðvitað að vekja alveg sérstaka furðu þegar ráðherra, sem búinn er að sitja hér yfir máli í heilan dag, um lyfjamál, mælir svo fyrir máli eftir kvöldmat, á löngum fundi, hann byrjar sína framsöguræðu á sérstakri atlögu að fyrrv. ríkisstjórn og alveg sérstaklega Alþb. Ég held að það sé satt að segja afar óvenjulegt af ráðherrum sem vilja koma málum sínum fram í þinginu að þeir byrji á því að flytja mál sitt með þessum hætti, þó maður sé auðvitað ýmsu vanur frá þessum hæstv. ráðherra sem alltaf reynir að stofna til ófriðar, ef hann á kost á því, að þá var þetta satt að segja lengra gengið heldur en ég átti jafnvel von á af hans hálfu.
    Eitt af því sem hæstv. ráðherra gerði sérstaklega að umtalsefni var það að menn hafi verið tregir til að breyta lögunum um Atvinnuleysistryggingasjóð og taka þar aðra inn. Af hverju er það? Hvað eru lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð? Þau eru samningur. Þau eru samningur sem var gerður upphaflega 1955 eftir 6 vikna verkfall verkalýðshreyfingarinnar þar sem samið var um 12% launahækkun, sem var rifin út með gengislækkun nokkrum mánuðum síðar, en eftir stendur eftir það langa verkfall þessi Atvinnuleysistryggingasjóður. Verkalýðshreyfingin vildi slá skjaldborg um þennan sjóð, hann var stofnaður fyrir það fólk sem var í stéttarfélögunum. Og það var þannig á Íslandi þangað til núv. stjórn tók við, að það var í rauninni nægilegt að vera með sjóð sem næði til þessa fólks af því að það var ekki um að ræða víðtækt, almennt og langvarandi atvinnuleysi á Íslandi á þeim tíma.
    Þegar það síðan gerist að einn af forustumönnum Sjálfstfl. flytur á síðasta kjörtímabili frv. um að opna Atvinnuleysistryggingasjóð fyrir öllum, án þess að auka við tekjur hans þá felst auðvitað í því frv. lækkun á bótum þeirra sem fá bætur almennt úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Og ástæðan fyrir andstöðu verkalýðshreyfingarinnar var ekki einhver tregða almennt heldur var hún fyrst og fremst sú að verkalýðshreyfingin vildi ekki láta Sjálfstæðisflokkinn komast upp með að lækka atvinnuleysisbætur. Svo kemur hér hæstv. heilbr.- og trmrh. í framsöguræðu fyrir máli og byrjar á því að veitast að þessum sjónarmiðum á Alþingi, m.a. okkar alþýðubandalagsmanna sem höfum auðvitað viljað taka tillit til verkalýðshreyfingarinnar í þessu efni af því að þetta er kjarasamningur sem hér er um að ræða. Og af því að þetta er kjarasamningur, virðulegi forseti, þá var það líka niðurstaða okkar 1982, þegar lögin voru endurskoðuð á sínum tíma, að það var samið um það mál við Alþýðusambandið og við Vinnuveitendasambandið.
    Það frv. sem hér liggur fyrir varð ekki til á sama hátt. Hæstv. heilbrrh. skipar endurskoðunarnefndina án þess að um sé að ræða tilnefningar á ábyrgð þessara aðila. Mér er ekki kunnugt um að þetta frv. hafi verið borið upp í miðstjórn Alþýðusambands Íslands áður en það var lagt fram á Alþingi. Með öðrum orðum, það er brotið í blað að því leytinu til að gengið er fram hjá Alþýðusambandinu þegar verið er að undirbúa málið. Auðvitað er staðan þannig, virðulegi forseti, að miðað við allar aðstæður þá hlýtur verkalýðshreyfingin að halda utan um Atvinnuleysistryggingasjóð og það kerfi sem þar er í meginatriðum. Hún hlýtur að gera það, henni er skylt að gera það. En auðvitað er staðan hins vegar þannig að til viðbótar við það fólk sem er í stéttarfélögunum þá er núna í tíð núv. ríkisstjórnar um að ræða stórfellt atvinnuleysi hjá þúsundum manna sem eru utan stéttarfélaga og það verður auðvitað að tryggja því fólki atvinnuleysisbætur. Og það er af þeim ástæðum sem við alþýðubandalagsmenn leggjum fram viðamikið frv. sem felur í sér heildarendurskoðun á þrennum lögum má segja, um atvinnuleysistryggingar, um vinnumálaskrifstofu félmrn. og um vinnumiðlun o.fl.
    Í því frv. sem hæstv. ríkisstjórn hefur loksins lagt fram, seint og um síðir og hefur tekið ótrúlegan tíma að koma þessu fram, miðað við það lið sem er við vinnu í ráðuneytum þá er það alveg ótrúlegur tími sem tekur að koma saman fjögurra síðna frv., það er alveg ótrúlegur tími. Það eru sex meginbreytingar í þessu frv. Ég ætla aðeins að víkja að þeim, virðulegur forseti.
    Það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að réttur til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði verði ekki lengur bundinn við aðild að stéttarfélagi. En þessi ákvæði, virðulegi forseti, eru þó miðuð við þá eina sem kallaðir eru launamenn þannig að þeir sem hafa t.d. lokið námi en hafa aldrei fengið vinnu eru hvergi hér. Þeir sem hafa lokið námi, segjum í iðnskólum, og hafa aldrei fengið vinnu eru ekki hér. Þeir sem hafa lokið langskólanámi af einhverju tagi, t.d. á framhaldsskólastigi eru hvergi hér. Það er ekki gert ráð fyrir að þeir séu hér. Þannig að það er auðvitað alveg útilokað mál að þetta frv. verði afgreitt öðruvísi en að það verði tryggt að allir þeir sem ekki hafa vinnu fái atvinnuleysisbætur og að þetta fólk verði ekki útilokað eins og frv. gerir ráð fyrir.
    Ég tók eftir því að hæstv. heilbrrh. sagðist mundu ætlast til þess að hv. heilbr.- og trn. skoðaði sérstaklega stöðu námsmanna í þessu efni. Ég held að það sé lágmark, ég verð að segja það alveg eins og er að það sé lágmark og ég held að það sé eðlileg krafa að frv. verði altækt að því er varðar atvinnulaust fólk ef það er það ekki núna. Þannig að þetta frv. er að þessu leytinu þröngt og nær ekki að uppfylla þær mannréttindakröfur sem við eigum að gera til frv. af þessu tagi við þær aðstæður fjöldaatvinnuleysis sem er í landinu um þessar mundir.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að sjálfstætt starfandi einstaklingar sem skilað hafa tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu 12 mánuði áður en þeir hættu sjálfstæðri starfsemi geti öðlast rétt til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði með sama hætti og launamenn enda uppfylli þeir skilyrði reglna sem heilbr.- og trmrh. setur að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og séu atvinnulausir og séu í atvinnuleit. Það er alveg augljóst mál, virðulegur forseti, að þetta ákvæði er einnig of þröngt. Þetta ákvæði er einnig of þröngt vegna þess að það er að sjálfsögðu nokkur hópur manna sem ekki getur fullnægt þessum skilyrðum en er þó orðinn atvinnulaus og búinn að vera atvinnulaus kannski langtímum saman. Þar getur t.d. verið um að ræða fólk sem hefur starfað í landbúnaði, svo ég nefni dæmi, þar getur verið um að ræða þá sem hafa róið til fiskjar á eigin fari skamma stund en ná þó ekki þessu 12 mánaða tryggingatímabili. Þannig að það er ljóst að í þessu ákvæði er einnig of skammt gengið ef menn ætla sér í raun og veru að koma til móts við þann veruleika að við þurfum að eiga lög sem ná til allra þeirra sem ekki hafa lífsframfæri af því að selja vinnuafl sitt.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að hámarksaldur vegna greiðslu atvinnuleysisbóta verði færður úr 71 ári í 70 ár og jafnframt er sett inn ákvæði um það að ef atvinnulaus maður nýtur einnig elli- eða örorkulífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins þá skulu samanlagðar bætur frá Atvinnuleysistryggingasjóði og Tryggingastofnun aldrei nema hærri fjárhæð en hámarksbótum atvinnuleysistrygginga.
    Ég tel út af fyrir sig, virðulegi forseti, og ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það komi vel til greina og sé eðlilegt að huga að því hvernig eigi að tengja saman annars vegar atvinnuleysisbætur og hins vegar ellilífeyrisbætur, elli- og örorkulífeyri og tekjutryggingu. Ég skal ekkert um það segja hvort það er nákvæmlega rétt aðferð sem hér er gerð tillaga um en áskil mér allan rétt til þess að gera athugasemdir við síðar, en ég endurtek það að ég tel ekkert óeðlilegt við það að það mál sé skoðað.
    Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að reglur um missi bótaréttar þeirra sem segja upp starfi sínu án gildra ástæðna og verði atvinnulausir af þeim sökum verði hertar og sá tími sem bótaréttur fellur niður af þessum sökum er lengdur. Sömuleiðis eru reglur um heimild atvinnulausra til að neita starfi og ákveðið hvaða afleiðingar neitun hefur á bótarétt. Þá eru viðurlög við að afla sér bóta með röngum eða villandi upplýsingum hert mjög verulega og heimilt að endurkrefja viðkomandi um allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem fengin hefur verið úr Atvinnuleysistryggingasjóði með sviksamlegum hætti.
    Ég er út af fyrir sig þeirrar skoðunar, virðulegur forseti, að það sé sjálfsagt mál að hafa um þessi mál einnig reglur. Sjálfsagt mál að hafa um þessi mál einnig skýrar reglur. Ég efast hins vegar um það að það eigi að kveða á um þær í smáatriðum eins og hér er gert í lagatextanum sjálfum. Ég held að sú stífni sem kemur fram í lagafrv. að því er þetta varðar geti orðið til þess að skapa flókna, erfiða og ósanngjarna

aðstöðu fyrir hina atvinnulausu við vissar kringumstæður og ég bendi á að það fólk sem hér er um að ræða eru manneskjur og það ber auðvitað ekki að meðhöndla það sem afbrotamenn á einn eða neinn hátt. Hér er auðvitað í raun og veru verið að færa Atvinnuleysistryggingasjóði ákveðið dómsvald. Það er verið að færa honum vald til þess að segja: Þessi eða hinn hefur ekki uppfyllt reglurnar að fullu og þess vegna má stjórn sjóðsins eða ráðherrann dæma viðkomandi í launamissi. Er það eðlilegt kerfi, virðulegi forseti, að samþykkja lög sem eru þannig að ráðherra eða stjórn sjóðs geti svipt menn launum með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir? Ég held að það verði a.m.k. að skoða það mál mjög vandlega og mér finnst satt að segja að refsigleðin í þessu frv. sé æði mikið á skjön við mannréttindaræðurnar sem hæstv. utanrrh. flutti í gær fyrir einn mann sem þó er ekki atvinnulaus eins og kunnugt er heldur hefur fengið atvinnu í öflugasta atvinnuátaki ríkisstjórnarinnar fyrr og síðar eins og hv. þm. Jón Kristjánsson komst að orði. Ég held að í þessum efnum, þó að menn setji reglur um missi bótaréttar gegn misnotkun og þess háttar, þá eigi menn að ganga hægt um þær dyr og gæta sanngirni á öllum sviðum.
    Í fimmta lagi eru reglur settar um biðtíma vegna atvinnuleysisbóta ef mánaðartekjur viðkomanda síðustu tvo mánuði áður en atvinnuleysi hófst voru hærri en sem nemur tvöföldum atvinnuleysisbótum. Þetta ákvæði er skýrt nánar á fskj. á bls. 10 í frv. þar sem kemur fram hvaða áhrif tekjutenging frestunar hefur á greiðslu atvinnuleysisbóta.
    Ég vil segja það sem mína skoðun, virðulegi forseti, að ég tel út af fyrir sig ekkert að því að menn hugleiði það að tengja þessa hluti með einhverjum hætti saman, ekkert að því. Ég tel hins vegar að þær hugmyndir sem eru í frv. þurfi að skoða mikið nánar og ég segi það um þessar hugmyndir sem þarna koma fram í tölulið 5 í aðalbreytingum frv., í tölulið 3 og í tölulið 4, að um þær eigi að ræða mjög rækilega við verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins og ekki að ganga frá þeim nema í fullu samkomulagi við þá aðila.
    Í sjötta lagi er í frv. ekki gert ráð fyrir því að fella niður 16 vikna bótalausa tímann, það er ekki gert ráð fyrir því eins og þó er látið í veðri vaka og alltaf sagt af heilbrrh. aftur og aftur í einhverjum fjölmiðlum. Það er gert ráð fyrir því að atvinnulausir geti hins vegar komist undan 16 vikna biðtímanum milli bótatímabila með því að sækja og ljúka námskeiðum sem sérstaklega eru ætluð atvinnulausum í a.m.k. 8 vikur.
    Um þetta mál má auðvitað margt segja, virðulegur forseti, og í grg. frv. er farið yfir þetta mál lítillega og sömleiðis í umsögn um frv. frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. Þar segir svo, með leyfi forseta: ,,Gerð er sú breyting á 10. gr. frv. að ef fólk sækir námskeið eða tekur þátt í átaksverkefni í a.m.k. 8 vikur þá fellur það ekki af bótum eftir hvert tímabil.``
    Nú er það út af fyrir sig ekki óskynsamlegt að mínu mati, virðulegur forseti, að tengja þessa hluti með einhverjum hætti saman, þ.e. námskeið, starfsþjálfun og atvinnuleysi. Mér fannst t.d. athyglisvert það verkefni sem hefur verið unnið að könnun á um nokkurt skeið á vegum menntmrn. og Iðnskólans í Reykjavík varðandi það unga fólk sem hugsanleg fær ekki vinnu hér á Reykjavíkursvæðinu í sumar og gert er ráð fyrir að geti stundað nám í Iðnskólanum í Reykjavík í sumar og það verði metið sem hluti af réttindanámi. En til þess að þetta segi eitthvað, virðulegi forseti, þá verður maður auðvitað að fá að vita hvað er hér verið að bjóða upp á. Á hvaða námskeiðum á fólk kost? Það eru námskeið MFA og Námsflokkana t.d. eða hvað?
    Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að fara fram á það að því fylgi miklu ítarlegri greinargerð hversu mikið námsframboð er í gangi á vegum þessara aðila. Ég held að þetta sé mál sem þyrfti að skoða mikið mikið nánar og ég tel að það sé eðlilegra að fella niður 16 vikna bótalausa tímann með beinum og jákvæðum hætti frekar en að vera að búa þarna til skilyrt kerfi eins og hér er gert ráð fyrir sem er í raun og veru þannig að það er varla hægt að ímynda sér að núverandi framboð á námskeiðum fullnægi þeirri þörf sem uppi er. Ég spyr hæstv. heilbr.- og trmrh.: Hefur verið gerð könnun á því hvort núverandi framboð á námskeiðum á vegum MFA og Námsflokka Reykjavíkur fullnægi þessum þörfum? Ég bendi á í þessu sambandi, virðulegi forseti, að það eru fleiri atvinnulausir í landinu en þeir sem búa í Reykjavík og nágrenni. Hvað með þá sem t.d. búa á Siglufirði eða Eskifirði eða í Stykkishólmi? Þeir eiga ekki kost á því að sækja einhver námskeið hjá Námsflokkum Reykjavíkur, þeir eiga ekki kost á því að fara á námskeið hjá MFA nema í mjög takmörkuðum mæli. Það er þannig augljóst að þetta skilyrði um námskeiðin verður kannski hægt að uppfylla í Reykjavík en það nokkurn veginn útilokað að uppfylla það víða úti á landi. Með þessu er þá verið að segja að í raun eigi að afnema 16 vikna bótalausa tímann þar sem kostur er á þessum námskeiðum, þ.e. í Reykjavík og nágrenni en 16 vikna bótalausi tíminn eigi áfram að vera úti á landi. Það er auðvitað mjög sérkennilegt að þingmaður Ísfirðinga og Vestfirðinga í stól heilbr.- og trmrh. skuli flytja frv. af þessu tagi sem getur falið í sér mismunun á þann hátt sem ég hef verið að lýsa og þess vegna alveg óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. ráðherra að því sérstaklega hvernig hann hugsar sér þetta í framkvæmd.
    Varðandi aðrar breytingar þess frv. sem hér liggur fyrir þá er rétt að geta þess að í 15. gr. frv. er veitt heimild til að veita styrki til þróunarverkefna til varanlegrar atvinnusköpunar. Er hér um að ræða, eins og segir í ummælum fjmrn., verulega rýmkun á starfssviði sjóðsins en hámark er á þessari starfsemi skv. 37. gr. laganna um að útgjöld fari ekki yfir 40% af árlegum vaxtatekjum sjóðsins og það er mat fjmrn. að þetta muni geta kostað um 30 millj. kr.

    Út af fyrir sig vil ég segja það í fyrsta lagi, virðulegur forseti, að ég tel að það sé sjálfsagt mál að endurskoða þetta ákvæði með hliðsjón af fenginni reynslu og ég hef tekið eftir því að sveitarfélögin hafa verið að sækja til Atvinnuleysistryggingasjóðs varðandi stuðning við tiltekna atvinnustarfsemi og það hefur út af fyrir sig sums staðar gengið nokkuð vel. Ég nefni t.d. Húsavík í því sambandi. Annars staðar hafa menn verið eitthvað seinir til eins og í Keflavík eins og kom fram í fréttunum í gær. En það er eitt, hæstv. ráðherra, sem mér finnst afar sérkennilegt í því máli og ég ætla að koma að hér og það er að þegar stjórn sjóðsins hefur fjallað um málið þá er það ráðherrann sem ákveður hvort peningarnir fara út eða ekki. Það er auðvitað nauðsynlegt að það sé skýrt vegna þess að fyrir nokkru komu um það fréttir í fjölmiðlum aftur og aftur að um þessi mál hefði sérstaklega verið fjallað í ríkisstjórninni ( Heilbrrh: Það er annað mál.) og ef það er allt annað mál þá er gott að hæstv. ráðherra útskýri það fyrir mér vegna þess að ég geri ráð fyrir því að fleiri en ég hafi skilið þetta með þeim hætti sem ég var að rekja og bið ráðherrann að fara yfir það í máli sínu, en það var ekki gert í framsöguræðunni.
    Samkvæmt mati fjmrn. er gert ráð fyrir því að frv. hafi í för með sér um 400 millj. kr. í viðbótarútgjöld miðað við 5% atvinnuleysi en atvinnuleysið er núna um 6% og hæstv. heilbrrh. sagði frá því áðan að það væri von á frekari útreikningum í þessu efni til heilbr.- og trn. ( Heilbrrh: Það er á leiðinni þangað.) og á leiðinni þangað og út af fyrir sig er það gott en ég verð að segja eins og er að ég held að menn þurfi að staldra við það. Það er auðvitað ljóst að þetta kostar peninga, þetta er kerfi sem ekki er ódýrt, en þetta kerfi er auðvitað afleiðing af þeirri þjóðfélagsgerð sem við búum við eins og sakir standa. Meðan það er svo að meiri hluti Alþingis eða hver sem það er sem ber ábyrgð á atvinnu- og efnahagsstefnu með þeim hætti að mörg þúsund manna verða atvinnulausir þá á þessi sami meiri hluti Alþingis auðvitað að sjá til þess að þetta fólk fái að halda mannréttindum. Það kostar auðvitað einhverja fjármuni við þær aðstæður sem hér er um að ræða í dag þegar atvinnuleysið er jafnmikið og raun ber vitni.
    Í því frv. sem við alþýðubandalagsmenn höfum flutt um svipuð mál og snertir endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar, vinnumiðlun og vinnumálaskrifstofu félmrn. er komið við á mörgum fleiri stöðum en þeim sem gert er í þessu frv. Það er t.d. gert ráð fyrir því að allir eigi rétt á atvinnuleysisbótum þó svo að þeir hafi aldrei fengið vinnu og séu ekki í stéttarfélögum enda hafi viðkomandi verið atvinnulaus í fjórar vikur. Ég tók eftir því að hæstv. heilbr.- og trmrh. hneykslaðist mikið á þessu ákvæði þegar hann talaði um okkar frv. fyrir nokkrum vikum. Þetta með fjórar vikur. Ég vil útskýra það, virðulegi forseti, hvernig það er til komið. Það er þannig til komið að við teljum að það verði að setja ákveðnar reglur um það hvaða aðdraganda það getur átt sér að maður sem aldrei hefur haft vinnu komist inn í þetta almenna bótakerfi. Það getur ekki gerst án einhverrar atrennu að einhverju tagi og ég tel þess vegna að það sé ekkert óeðlilegt að miða við einhvern tíma af þessu tagi þegar um er að ræða fólk sem aldrei hefur haft vinnu, en ég segi hefur aldrei haft vinnu. Við gerum ráð fyrir því að atvinnuleysisbætur geti komið til allra en ekki þess hóps eins sem hæstv. ráðherra gerir hér ráð fyrir að bæta við.
    Í öðru lagi gerum við ráð fyrir að sextán vikna bótalausi tíminn falli niður án námskeiðaskilyrða eins og þau eru sett fram í frv. hæstv. ríkisstjórnar.
    Í þriðja lagi leggjum við til að Atvinnuleysistryggingasjóður verði sjálfstæð stofnun og heyri ekki undir Tryggingastofnun ríkisins. Hún verði sjálfstæð stofnun sem heyri undir félmrh. og í því felst ekki einhver meinbægni við núv. hæstv. heilbrrh., það kemur málinu ekkert við hver situr á þeim stól, heldur felst í því sá veruleiki að félmrh. fer með vinnumálaskrifstofu félmrn. og vinnumiðlunina líka. Við teljum nauðsynlegt að tengja saman með mjög virkum hætti vinnumiðlunina og atvinnuleysisskráninguna en slíta þetta ekki í sundur eins og nú er gert. Það er ástæðan fyrir því að við flytjum þessa tillögu.
    Í fjórða lagi gerum við ráð fyrir því að bætur fyrir hvert barn á framfæri hins atvinnulausa hækki nokkuð frá því sem nú er. Hverjar eru bæturnar fyrir hvert barn á framfæri hins atvinnulausa núna? Hverjar eru þær? Þær eru um það bil 85 kr. á dag. Auðvitað er alveg ljóst að miðað við núverandi ástand í þessum efnum getur það ekki gengið.
    Við verðum að gera okkur grein fyrir því, virðulegi forseti, að í sambandi við atvinnuleysi og réttindi atvinnulausra erum við að fikra okkur út úr kerfi gífurlega mikillar eftirspurnar eftir vinnuafli og inn í kerfi þar sem um getur verið að ræða talsvert mikið atvinnuleysi um eitthvert skeið, vonandi samt ekki eins mikið og nú er. Í grannlöndum okkar eins og í Danmörku, Þýskalandi og víðar er atvinnuleysisstuðningur miðaður við það að hinn atvinnulausi og fjölskylda hans geti sem næst, burt séð frá atvinnunni, tekið þátt í þjóðfélaginu almennt en þurfi ekki að vera dæmdur til þriðja eða fjórða flokks tilveru af einhverju tagi. Þess vegna er óhjákvæmilegt að endurskoða þennan þátt sérstaklega sem lýtur að börnunum því engir eru viðkvæmari fyrir atvinnuleysinu en börn hinna atvinnulausu. Þess vegna er sú uppsetning sem er í gildandi lögum að þessu leyti til algerlega fráleit. Það er dálítið merkilegt að þó hæstv. ráðherra teldi sig hafa tíma til þess áðan í framsöguræðu sinni að hjóla í Alþb. sá hann enga ástæðu til að ræða þennan mannréttindaþátt málsins og afleiðingar atvinnuleysis yfirleitt og ástæður þess og sérstaklega þann þátt sem lýtur að börnum.
    Í fimmta lagi er gert ráð fyrir því að hinn atvinnulausi haldi bótarétti einhvern tíma þó hann veikist. En nú er það þannig að maður sem verður atvinnulaus missir bótaréttinn ef hann veikist. Auðvitað er þetta algerlega fráleitt kerfi í þjóðfélagi þar sem þeir, sem hafa vinnu, halda vinnulaunum samningsbundið þó þeir veikist um einhvern tíma. Þessu ákvæði á auðvitað að breyta og um þetta atriði var heldur ekki

fjallað í sérkennilegri framsöguræðu hæstv. heilbrrh.
    Í sjötta lagi leggjum við til að tekið verði sérstaklega á hinu almenna starfsþjálfunarkerfi. Sá tími sem menn geta haldið bótum á meðan þeir eru í námi lengist úr sex vikum í sex mánuði og atvinnuleysistryggingasjóðskerfið tengist við kerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Það er í raun og veru eina eðlilega svarið í þessu efni. Þess vegna er tillagan flutt.
    Í sjöunda lagi gerum við tillögu um það, virðulegi forseti, að breyta úthlutunar-, skráningar- og útborgunarkerfinu frá því sem það er nú. Núna er þetta þannig að hinn atvinnulausi þarf að fara á marga staði með vottorð, kvittanir og stimpla til að fá þennan rétt. Við gerum ráð fyrir að einfalda skriffinnskukerfið. Heimila að það verði einfaldað og það verði allt á einum stað þar sem hinn atvinnulausi fær þjónustu sína. Það er ekki heldur tekið á því, hvorki í ræðu, greinargerð né frv. hæstv. ráðherra.
    Í áttunda og níunda lagi gerum við svo brtt. varðandi lög um vinnumiðlun og lög um vinnumálaskrifstofu félmrn. sem ég ætla ekki að fara út í hér í umræðum um Atvinnuleysistryggingasjóð.
    Virðulegi forseti. Hvað er atvinnuleysi? Atvinnuleysi er það ástand þegar einhver einstaklingur getur ekki selt þjóðfélaginu vinnuafl sitt. Atvinnuleysi er það ástand þegar markaðurinn vill ekki kaupa vinnuaflið sem maðurinn á. Atvinnuleysi er með öðrum orðum ástand þar sem vinnuaflinu, sem er í raun sú eina eign sem við eigum, hefur verið hafnað. Í þjóðfélögum svokallaðra Vesturlanda á Evrópusvæðinu, sem svo er nefnt, er núna talað um 10%, 11% eða 12% atvinnuleysi. Áttundi til tíundi hver maður er atvinnulaus. Í þessum efnum hljóta menn auðvitað að velta því fyrir sér hvar við erum stödd með þessi þjóðfélög. Það er t.d. sagt og tekið þannig til orða að í Danmörku sé ástandið prýðilegt í efnahagsmálum en þar er tíundi hver maður atvinnulaus. Ég segi að það þjóðfélag sé vont og sú stjórn vond sem líður atvinnuleysi af þessu tagi.
    Menn hafa út af fyrir sig deilt um hvað er til ráða í þessum efnum. Við alþýðubandalagsmenn fluttum og gerðum grein fyrir tillögum um átak í atvinnumálum sl. haust. En menn geta auðvitað líka velt fyrir sér öðrum hliðum þessara mála eins og þeim: Er eitthvað hægt að gera til að jafna vinnunni meira á milli okkar hér í þjóðfélaginu? Er hugsanlegt að hægt sé að gera einhverjar ráðstafanir til þess að þeir, sem hafa mikla vinnu og sumir miklu meiri vinnu en venjulega dagvinnu, gefi eitthvað eftir af vinnutíma sínum til að aðrir fái vinnu? Er hægt að hugsa sér að ná einhverri víðtækri þjóðfélagssátt um það að jafna vinnunni? Er hugsanlegur hlutur að t.d. aðilar vinnumarkaðarins væru tilbúnir til að taka á máli af þessu tagi og að tengja þetta kerfi við námskerfi þjóðfélagsins, menntakerfi þjóðfélagsins, við orlofskerfi þjóðfélagsins, við eftirlaunakerfi þjóðfélagsins og lífeyriskerfi þjóðfélagsins í heild. Ég held, virðulegur forseti, að ef við viljum taka á máli af þessu tagi þá verðum við að gera það á tiltölulega breiðum grundvelli. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að við sem hér erum í þessum sal og gegnum skyldustörfum eigum í raun og veru engin brýnni verkefni. Við eigum engar brýnni skyldur við þjóðfélagið, við sjálf okkur, við umhverfið, við framtíðina, við börnin í þessu landi en að við tökum á máli af þessu tagi. Við eigum að finna til þess að við berum ábyrgð í þessu efni. Við eigum ekki að víkja þessu máli frá okkur og segja að hin milda hönd markaðarins eigi að leysa það. Sú kalda krumla hefur núna ýtt 6% landsmanna út af vinnumarkaðnum. Auðvitað er ljóst og kemur hvergi betur fram en í atvinnuleysinu að markaðslögmálin duga ekki. Atvinnuleysið er sönnunin fyrir því að hin köldu markaðslögmál duga ekki. Reynslan í Evrópu um þessar mundir segir að ríkisstjórnir sem byggja stefnu sína á markaðslögmálunum einum eru að vísa tíunda hverjum manni út af vinnumarkaði. Þeir sem vilja taka á vanda atvinnuleysisins þurfa að þora að ráðast til atlögu við markaðslögmálin. Aftur á móti þeir sem þora ekki að taka á markaðslögmálunum bera ábyrgð fremur en allir aðrir á því að þola atvinnuleysið. Aldrei hefur hagkerfi okkar orðið sér til augljósari skammar gagnvart öllum almennum mannréttindar- og mannúðarsjónarmiðum en einmitt um þessar mundir og birtist í fjölda atvinnuleysingja í Evrópu, upp á milljónir og tugmilljónir manna. Markaðskerfið sem stendur núna hrokafullt upp í heiminum og segir ,,ég einn veit, ég einn ræð, ég einn get`` og ætlar að segja allri heimsbyggðinni fyrir verkum hefur ákveðið að henda áttunda til tíunda manni út úr þjóðfélögum sínum.
    Tölurnar frá vinnumálaskrifstofu félmrn. um atvinnuleysi, sem birtast í hverjum einasta mánuði, eru þess vegna áfellisdómur yfir markaðsofstækinu sem ræður ríkjum, m.a. í okkar þjóðfélagi að nokkru leyti. Ég tel þess vegna, virðulegi forseti, að alveg óhjákvæmilegt sé að látið verði á það reyna hvort menn eru tilbúnir til að taka myndarlega á málum. Við alþýðubandalagsmenn erum örugglega tilbúnir til þess þrátt fyrir storkunar- og frýjuorð ráðherrans hér áðan að reyna að stuðla að góðri samvinnu um þessi mál eins og kostur er á yfirstandandi þingi. En við gerum auðvitað þá sjálfsögðu kröfu að frv. okkar um réttindi þeirra sem hafa ekki atvinnu að fái þinglega meðferð samhliða því frv. sem hæstv. heilbr.- og trmrh. var áðan að mæla fyrir.