Atvinnuleysistryggingar

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 21:48:37 (7328)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vissulega er fjallað um merkilegt og mikilvægt frv. sem sannarlega markar tímamót. En það virðist vera svo að frv. fari öfugt ofan í hv. 9. þm. Reykv. því að hann hefur allt á hornum sér. Fremur mætti halda að verið væri að gera stórfelldar breytingar eða niðurskurð á atvinnuleysisbótum. En eins og hv. þm. vita er verið að gera verulegar endurbætur á þessari löggjöf. Kannski er ástæða til að vekja athygli á því að að grunni til eru núgildandi lög frá 1981. Mig minnir að hv. 9. þm. Reykv. hafi verið heilbr.- og trmrh. þegar þessi löggjöf var sett. Mér finnst því málflutningur þingmannsins ankannalegur.
    Ástæðan til þess að ég kom með andsvar var ekki síður þær athugasemdir og ónot sem hv. þm. setti í Suðurnesjamenn. Þótt samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum hafi ekki sérstakt dálæti á tillöguflutningi Alþb. á hinu háa Alþingi sé ég ekki ástæðu til að það sé margítrekað og vakin athygli á því að þeir ágætu menn sem þar skipa forustu hlaupi ekki upp til handa og fóta til að fagna tilllögflutningi þeirra alþýðubandalagsmanna svo ekki sé talað um þær dylgjur sem þingmaðurinn var með í garð bæjarstjórnar Keflavíkur. Ég er sannfærður um að bæjarstjórn Keflavíkur leggur mikla áherslu á það að fá þau framlög úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem mögulegt er og ég veit reyndar að bæjarstjórnin í Keflavík hefur lagt á það áherslu og fengið framlög úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þess vegna vildi ég mótmæla þessum málflutningi þingmannsins.