Atvinnuleysistryggingar

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 22:39:04 (7342)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Búið er að rekja hversu mikil nauðsyn hefur verið orðin á því að koma með breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Ég vil svo sannarlega taka undir það og benda á hversu ríkisstjórnin hefur sofið á verðinum í sambandi við atvinnuleysið yfirleitt. Því til sönnunar vitna ég í fjárlagafrv., fyrst fyrir árið 1992 en á haustmánuðum 1991 voru þær upplýsingar gefnar að atvinnuleysið væri 1,7%. Því var spáð í þjóðhagsáætlun í frv. það ár að það yrði 2% á árinu 1992. Það reyndist síðan hafa verið 3%. Þegar lagt var fram fjárlagafrv. fyrir næsta ár á eftir, árið 1993 sem nú er yfirstandandi, reyndist atvinnuleysið hafa orðið 3% á árinu 1992. Það var því helmingi meira en ríkisstjórnin hafði reiknað með. Hverju skyldi síðan hafa verið spáð fyrir yfirstandandi ár? Því var spáð að það yrði allt að 3,5% og í dag stöndum við frammi fyrir því að það er 5,4%. Það eru ekki komnir nema fjórir mánuði af árinu og það er að tvöfaldast.
    Þetta vildi ég benda á til þess að leggja áherslu á að mér finnst að ríkisstjórnin hafi gjörsamlega sofið á verðinum í sambandi við það að fylgjast með því hversu alvarlegt þetta mál er og hversu hraður skriður er á atvinnuleysinu í landinu.
    Einnig má minna á það að í upphafi ferils síns fannst ríkisstjórninni það ekki vera í sínum verkahring að skipta sér af atvinnumálum yfirleitt en sem betur fer virðist það frv. sem nú er lagt fram, þar sem lagðar eru til ákveðnar breytingar, og einnig hitt að ríkisstjórnin er farin að ræða um það að hún þurfi að gera ýmislegt til atvinnuuppbyggingar, benda til þess að það sé að breytast. Það hefur komið fram öðru hvoru í vetur þó ekki hafi mikið verið gert. Það bendir þó til þess að hún sé að átta sig á því að það er hennar hlutverk. Það verður heldur ekki skilið öðruvísi að hér skuli þó vera Atvinnuleysistryggingasjóður en að það sé viðurkenning fyrir því að ríkisstjórnin er skyldug að standa að því að allir hafi vinnu því ef þeir hafa ekki vinnu þurfa þeir á atvinnuleysisbótum að halda.
    Mér finnst það vera nokkurt grundvallaratriði að gera sér grein fyrir þessu öllu vegna þess að þeir sem eru atvinnulausir búa við mikið böl og það er erfitt að vera atvinnulaus og það er litið niður á þá. Það hefur verið ríkjandi skoðun í þjóðfélaginu að þeir sem eru atvinnulausir séu hálfgerðir aumingjar. Það hefur ekki verið litið á það sem óhjákvæmilega afleiðingu af því hvernig þjóðfélagið hefur þróast og öllum þeim samdrætti sem orðið hefur. Ég held að þetta sé nokkurt grundvallaratriði þegar við erum að skoða þessi mál.
    Ég hefði einkum viljað benda á tvennt og er raunar komið fram hjá þeim sem hér hafa talað á undan mér en það er að í frv. sýnist mér ekki vera tekið á málefnum námsmanna, hvorki þeirra sem eru að ljúka námi né þeirra sem eru í hléi frá námi. Við getum kallað það sumarfrí eða menn hafa kannski tekið sér eitthvert hlé frá námi og það er engan veginn tekið á þeim málum hér.
    Í öðru lagi hefur það líka komið fram að ekki er tekið á málefnum allra þeirra sem geta talist vera sjálfstæðir atvinnurekendur og ég beini því til nefndarinnar að skoða það sérstaklega.
    Þá er í þriðja lagi ekki að mér sýnist í þessu frv. tekið neitt á því hvaða aðstæður hafa skapast í landbúnaði. Hv. þm. Jón Helgason, sem talaði á undan mér, gerði málefni bænda mikið að umtalsefni og ég vil taka undir margt af því sem kom fram í máli hans og ekki ástæða til að endurtaka það en ég held að það sé stétt sem virkilega þarf líka að skoða hvernig stendur í sambandi við atvinnuleysistryggingar.
    Hv. heilbr.- og trn. þarf að skoða ýmislegt í þessu, þ.e. hvernig þessum skilgreiningum er fylgt eftir í drögum að reglugerð um skilyrði sjálfstætt starfandi til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Að vísu vil ég þakka það að hér skuli koma fram drög að reglugerð því að það kemur ekki oft fram og er mjög til bóta að fá það með frv. hvernig hugsað er að reglugerðir sem tengjast þeim muni líta út þannig að menn geti gert sér grein fyrir því hvernig þær verði.
    En ég ætla ekki að lengja umræðuna, ég vildi koma þessum athugasemdum á framfæri í sambandi við þróun atvinnuleysisins og að öðru leyti vísa ég í þær umræður sem hér hafa farið fram.