Atvinnuleysistryggingar

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 22:45:52 (7343)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls. Í fyrsta lagi lýsa þeir yfir stuðningi við meginatriði í reglugerðinni þó að sjálfsögðu sé það þannig eins og hefur komið fram í máli þeirra að ýmislegt má betur fara og æskilegt væri að geta betur gert en áformað er í frv. Hins vegar eigum við að sjálfsögðu á hinn bóginn við þann vanda að etja að eins og Atvinnuleysistryggingasjóður er fjármagnaður stendur hann ekki undir útgjöldum sínum eins og sakir standa þannig að ríkissjóður verður að hlaupa undir bagga og borga verulegar fjárhæðir umfram tekjur og eignir Atvinnuleysistryggingasjóðs. Góður vilji takmarkast að sjálfsögðu af því fjármagni sem við höfum við slíkar aðstæður. Kannski mætti segja að menn hefðu betur uggað að sér því að í lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð voru honum tryggðir ákveðnir tekjustofnar en á mörgum umliðnum árum þegar atvinnuleysi var lítið sem ekkert tíðkuðu þáverandi ríkisstjórnir með aðild þáverandi stjórnmálaflokka við fjárlagaafgreiðslu að afgreiða í lánsfjárlögum ákvæði um að þrátt fyrir greiðsluskuldbindingar ríkissjóðs á mótframlögum við aðrar tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs í formi iðgjalda skyldi ríkissjóður undanþeginn slíkum greiðslum. Ef slík tillaga hefði ekki verið flutt ár eftir ár þá væri eignarstaða Atvinnuleysistryggingasjóðs allt önnur en hún er og reyndist vera og þá væri vandi sjóðsins til að fjármagna atvinnuleysisbætur af eignum sínum og tekjum ekki sá hinn sami og hann er í dag. Þessi skammsýni okkar Íslendinga í góðærinu hefnir sér nú þegar við þurfum á sjóðnum að halda og væri betra að við létum okkur það að kenningu verða að ekki er alltaf hægt að gera út á framtíðina, að gera ekki ráð fyrir því að leggja í sjóð til mögru áranna, gera ekki ráð fyrir því að sjóður eins og Atvinnuleysistryggingasjóður þurfi e.t.v. einhvern tímann að standa við skuldbindingar sínar. Það gerðum við Íslendingar ekki, þess vegna erum við staddir í þeim vanda sem við erum staddir nú er varða málefni sjóðsins.
    Hv. þm. Svavar Gestsson spurði hvers vegna ekkert hefði verið gert af hálfu stjórnvalda til þess að kanna félagsleg áhrif atvinnuleysis. Ég veit ekki betur en það hafi verið gert og á vegum hæstv. félmrh. hafi einmitt verið unnin slík könnun um nokkurra mánaða skeið og einmitt nú um þessar mundir sé verið að vinna niðurstöður þeirrar könnunar. Það er því alveg rétt sem Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum sögðu í bréfi til heilbr.- og trn. að þessi mál eru í öruggum höndum félmrh. Félmrh. hefur lokið við þá könnun sem hv. þm. gerði að umtalsefni sínu og er að láta vinna niðurstöður hennar. Málin eru því í öruggum höndum og Suðurnesjamenn höfðu rétt fyrir sér eins og stundum áður.
    Ég ætla ekki að ræða frv. þeirra alþýðubandalagsmanna um atvinnuleysistryggingar neitt frekar sem þeir fluttu fyrir nokkrum vikum. Það gerði ég þegar hv. þm. Svavar Gestsson mælti fyrir málinu á næturfundi. Ég held að hann hafi ekki riðið feitum hesti frá þeim orðaskiptum og ég ætla að láta mér nægja að segja aðeins það um það frv. að það var slík hrákasmíð, það var svo illa unnið, svo lítill metnaður var lagður í þá vinnu að ef Alþingi hefði fallist á tillögur alþýðubandalagsmanna og samþykkt frv. eins og það kom frá hv. þm. Svavari Gestssyni væru lögin um atvinnuleysistryggingar óframkvæmanleg. Þar ræki sig eitt á annars horn, í sumum lagagreinunum væri einhver ákveðin framkvæmd bönnuð en í öðrum lagagreinum væri sama framkvæmd leyfð. Málið var svo illa unnið að það er til skammar fyrir heilan þingflokk að leggja það fram, ekki síst um mál sem hann telur jafnmikils virði og atvinnuleysistryggingar. Ég ítreka að svo illa var málið unnið að ef frv. hefði verið samþykkt þá væri ekki hægt að framkvæma lög um almannatryggingar.
    Hv. þm. gerði líka athugasemdir við það að gert væri að skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta til þeirra sem teljast vera sjálfstæðir atvinnurekendur eða með öðrum orðum hjá sjálfum sér að þeir hafi greitt iðgjald af vinnu sinni sl. 12 mánuði. Ég tel þetta eðlilega kröfu. Ég tel að aðilar sem eru sjálfstætt starfandi og greiða ekki skatta til ríkisins og vinna svokallaða svarta vinnu eigi ekki að hafa rétt til aðildar að Atvinnuleysistryggingasjóði. Þeir hafa ekki greitt til sjóðsins iðgjald fyrir sína svörtu vinnu, þeir hafa ekkert greitt til samfélagsins í formi skatta fyrir sína svörtu vinnu, þeir hafa talið sér það hagkvæmara að vinna slíka vinnu án þess að greiða skatta og skyldur af vinnu sinni fremur en að greiða skatta og skyldur og iðgjöld af störfum sínum eins og aðrir. Mér finnst sannast sagna að þeir sem velja þann kostinn sjálfir, ekki hvattir til þess af neinum öðrum en sjálfum sér, eigi ekki rétt á því að ganga að sameiginlegum sjóðum landsmanna þegar á þarf að herða með sama hætti og sama rétti og hinir sem hafa fyllilega borgað alla skatta sína. Mér finnst því ekki eðlilegt af hv. þm. að gera athugasemd við það að aðili sem hefur unnið svarta vinnu og ekki greitt iðgjöld til ríkisins til Atvinnuleysistryggingasjóðs eða opinber gjöld til ríkisins að eigi að fá aðgang að Atvinnuleysistryggingasjóði til jafns við hina.
    Þá spurði hæstv. fyrrv. ráðherra, núv. hv. alþm. Svavar Gestsson, einnig hvort rétt væri að ráðherra gæti stöðvað afgreiðslu sjóðstjórnar á styrkjum til atvinnuskapandi framkvæmda eins og frá því er gengið í gildandi lögum og eins og frá því er gengið í því frv. sem hér liggur fyrir. Það getur ráðherra ekki og hér ruglar hv. þm. saman tvennu, þ.e. annars vegar þeim styrkjum og fjárhagsfyrirgreiðslum sem stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs getur varið af fé sjóðsins samkvæmt lagatexta í gildandi lögum og síðan þeim fjármunum sem stjórnin ver til atvinnuskapandi aðgerða samkvæmt bráðabirgðaákvæði í gildandi lögum sem sett var á haustþinginu og varðar það samkomulag að sveitarfélögin greiða ákveðinn nefskatt til Atvinnuleysistryggingasjóðs sem samtals skilar af sér á árinu u.þ.b. 500 millj. kr. og atvinnuleysistryggingasjóðsstjórninni ásamt fulltrúum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga er síðan falið það verkefni að gera tillögur og taka við umsóknum sveitarfélaga um ráðstöfun á því fé og gera tillögur um hvernig því skuli ráðstafað. Þessi þáttur sem þarf að berast undir heilbr.- og trmrh. og öðlast samþykki hans til þess að koma til framkvæmda en ekki sá hluti sem varðar almennar styrkveitingar sjóðstjórnar og er gert ráð fyrir því að standi varanlega í lögunum en ekki aðeins til bráðabirgða í eitt ár eins og segir í gildandi lögum.
    Þá vík ég næst að spurningum hv. 18. þm. Reykv. Hv. þm. spurði: Hvað með listamenna? Hvorum megin hryggjar munu þeir fá atvinnuleysisbætur?
    Svarið við því er fólgið í tveimur atriðum, annars vegar í frv. og hins vegar í grg. Í fyrsta lagi er svarið við þeirri spurningu fólgið í 6. gr. frv. en þar er áskilið að til þess að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta þurfi m.a., eins og þar segir, að hafa staðið skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði áður en sjálfstæðri starfsemi er hætt. Þarna hafa listamenn sama val og aðrir sjálfstæðir atvinnurekendur. Vilja þeir eða gera þeir skil á tryggingaiðgjaldi af reiknuðu endurgjaldi vinnu sinnar síðustu tólf mánuði áður en þeir óska eftir bótum frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Í öðru lagi þurfa þeir að uppfylla skilyrði 1. gr. draga að reglugerð á bls. 11 þar sem segir: ,,Í reglugerð þessari er merking hugtaka sem hér segir: Sjálfstætt starfandi, þ.e. einstaklingur sem starfað hefur við eigin rekstur eða sjálfstæða starfsemi og tilkynnt starfsemina með þeim hætti sem krafist er af hálfu skattayfirvalda.``
    Hafi listamaður eins og hver annar sem stundar sjálfstæða starfsemi uppfyllt þessi skilyrði, þ.e. tilkynnt sig sem sjálfstætt starfandi einstakling til skattyfirvalda og síðan greitt iðgjöld af reiknuðu endurgjaldi vegna launa með sama hætti og aðrir sjálfstætt starfandi einstaklingar fær hann aðild að Atvinnuleysistryggingasjóði, annars ekki. Honum eins og öðrum er að verulegu leyti í sjálfsvald sett hvort hann vill njóta þessara réttinda. En viðkomandi getur ekki bæti sleppt og haldið, viðkomandi getur ekki tekið þá ákvörðun að láta ekki skrá sig sem sjálfstæðan atvinnurekanda hjá skattyfirvöldum en engu að síður hljóta þau réttindi sem atvinnuleysistryggingasjóðslögin gera ráð fyrir.
    Þá spurði hv. þm. um umræddar 16 vikur og um endurmenntunarnámskeið í því sambandi og spurðu fleiri hv. þm. um þau. Ég vil gjarnan í því sambandi benda þeim á að lesa síðustu mgr. 10. gr. frv. en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Gefa skal atvinnulausum kost á að sækja endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeið eða taka þátt í átaksverkefnum í a.m.k. 8 vikur á hverju bótatímabili.``
    Þarna er löggjafinn að undirgangast þá skyldu að gefa skuli atvinnulausum kost á slíkum námskeiðum og ekki bara þeir tveir aðilar sem eru nefndir voru til sögunnar sem það gera, það er einnig rekið endurmenntunarnámskeið á vegum félmrn. og ég er í þann mund að skipa nefnd til þess að athuga hvernig Atvinnuleysistryggingasjóði gæti betur stutt að endurmenntunarnámskeiðum en hann gerir nú.
    Það liggur hins vegar alveg fyrir að geti framkvæmdarvaldið ekki uppfyllt þessa skilmála greinarinnar, þ.e. gefið atvinnulausum kost á annað hvort endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeiði eða átaksverkefni í einhverri atvinnustöð, munu þá náttúrlega þeir hinir sömu ekki missa 16 vikurnar úr atvinnubótagreiðslum á næsta ári. Það segir sig sjálft að ef á viðkomandi atvinnustöð eða atvinnusvæði er enginn kostur gefinn á slíku átaksverkefni eða starfsmenntunarnámskeiði er ekki hægt að svipta viðkomandi bótum vegna þess að hann hafi ekki sótt námskeiðið. Hins vegar ef kostur er gefinn á slíkum námskeiðum og átaksverkefnum og sá sem er á atvinnuleysisskrá lætur hjá líða að sækja slík námskeið eða átaksverkefni þrátt fyrir hvatningu til þess hefur hann með ákvörðun sinni afsalað sér möguleikanum að fá greiðslur atvinnuleysisbóta fyrstu 16 vikur á nýju ári.
    Í sambandi við atvinnuleysisbótagreiðslur hafa menn almennt um tvö kerfi að velja. Annað hvort er kerfi eins og þetta, þ.e. eftir einhvern ákveðinn tíma missa menn atvinnuleysibætur í einhvern tiltekinn tíma og öðlast þær ekki aftur fyrr en að þeim tíma liðnum. Það er önnur aðferðin sem viðhöfð er. Hin er sú að gera ekki slíkar takmarkanir en takmarka hins vegar bótaréttindin í heild við einhvern ákveðinn biðtíma, jafnvel allt niður í eitt ár. Það eru dæmi þess í Vestur-Evrópuríkjum að atvinnuleysingjar missa réttindin til atvinnuleysisbóta eftir aðeins eitt ár samfellt á bótum. Hvergi er til kerfi svo ég viti til þar sem gert er ráð fyrir því að atvinnulaust fólk geti haldið atvinnuleysisbótum í ótakmarkaðan tíma heldur flyst atvinnulaust fólk þá yfir á einhvers konar aðrar bótagreiðslur og þá yfirleitt á félagslega aðstoð sveitarfélaga í einhverju formi.
    Þá vakti hv. þm. athygli á því að atvinnuleysisbætur væru lágar og það er alveg rétt, Víða eru borgaðar hærri atvinnuleysisbætur en hér. Hins vegar er fjárhæð atvinnuleysisbóta ákveðin í lögum og það eru rakalaus ósannindi sem komu fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni fyrr í umræðunum að það að fjölga atvinnuleysingjum sem njóta atvinnuleysisbótaréttar verði til þess að lækka atvinnuleysisbæturnar. Það er með öllu ósatt, hvorki er gert ráð fyrir því í þessu frv. að fjölgun á atvinnuleysisskrá og til atvinnuleysisbótaréttar verði til þess að lækka atvinnuleysisbætur hvers og eins né heldur er gert ráð fyrir slíku í frv. þeirra alþýðubandalagsmanna um að auka verulega réttindi fólks til að fá greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Það er því mesti misskilningur að annars vegar fari saman fjöldi atvinnuleysingja og hins vegar fjárhæð bóta til hvers og eins.
    Síðan spurði hv. þm. hver fjármagni Atvinnuleysistryggingasjóð þegar eignir hans eða ráðstöfunarfé er gengið til þurrðar. Í 38. gr. gildandi laga er tekið skýrt fram að verði um greiðslubrest að ræða hjá Atvinnuleysistryggingasjóði hleypur ríkissjóður undir bagga og á að greiða það sem á vantar, annaðhvort með framlögum eða lánum.
    Hv. þm. spurði: Hver metur ef fólk segir upp að ástæðulausu? Það er eitt af því sem úthlutunarnefndir á hverju svæði verða að meta. Fjölmörg önnur og miklu umdeilanlegri matsatriði eru á valdi úthlutunarnefndanna en þetta.
    Eins og ég sagði áðan þá eru atvinnuleysistryggingar ekki félagsmálastofnun. Atvinnuleysistryggingar eru eingöngu ætlaðar til þess að veita styrki þeim sem eru atvinnulausir, geta unnið og eru í atvinnuleit. Hins vegar er alveg rétt hjá hv. þm. að fjölmargir einstaklingar í þjóðfélagi okkar á góðum aldri geta ekki unnið vegna sjúkleika eða annars krankleika, líkamlegs eða andlegs. Sumir þeirra hafa verið á atvinnuleysisbótum en atvinnuleysisbótakerfið hefur aldrei verið hugsað eða ætlað til þess að greiða bætur til fólks sem getur ekki unnið af slíkum ástæðum þó svo það fengi vinnutilboð. Atvinnuleysistryggingar eru aðeins ætlaðar fólki sem er atvinnulaust og er sannanlega í atvinnuleit. Ef menn spyrja hvað eigi þá að gera gagnvart því fólki sem er á vinnualdri en getur ekki unnið af einhverjum ástæðum. Ef það fellur ekki undir ákvæði laga um örorkubætur eða örorkustyrki er alveg ljóst að þá hvílir framfærsluskyldan á viðkomandi sveitarfélagi. Þannig er aðstoðarkerfi okkar um félagslega aðstoð uppbyggt. Hins vegar er ekki réttlátt og ekki rétt að sveitarfélög reyni að nota Atvinnuleysistryggingasjóð sem félagsmálastofnun, aldrei hefur verið ætlast til þess og örugglega ekki af þeim sem á sínum tíma, eins og hv. þm. Svavar Gestsson sagði, sömdu um atvinnuleysistryggingar og Atvinnuleysistryggingasjóð.
    Hv. þm. Jón Helgason vék nokkrum orðum að vanda bænda og síst skal ég gera lítið úr því. Það er alveg rétt sem hann sagði, bændur hafa orðið fyrir miklum tekjubresti og í röðum bænda er margt fátækt fólk sem á í erfiðleikum. En bændur eru í frv. meðhöndlaðir eins og allir aðrir sjálfstæðir atvinnurekendur, þ.e. sama krafa er gerð til þeirra til þess að þeir öðlist atvinnuleysisbótarétt eins og gerð er til annarra sjálfstæðra atvinnurekenda. Margir þeirra hafa misst mjög spón úr aski sínum jafnvel ekkert síður en bændur og við skulum t.d. í því sambandi nefna marga trillukarla sem hafa orðið fyrir verulegum tekjubresti vegna aflaskerðingar. Við getum í þessu sambandi nefnt t.d. vörubifreiðastjóra sem hafa einnig orðið fyrir miklum tekjubresti. Tekjubrestur er því ekki eingöngu bundinn við bændastéttina þó svo að margir þar séu grátt leiknir.
    Hvað er þá það sem bændur þurfa að uppfylla í þessu tilviki til þess að fá rétt til atvinnuleysisbóta? Í fyrsta lagi þarf að hafa verið greitt af reiknaðri vinnu þeirra iðgjald síðustu tólf mánuði. Ég reikna ekki með að það sé neitt vandamál gagnvart bændum vegna þess að iðgjaldaskil af þeirri vinnu eru trygg. Þar er ekki um að ræða neina svarta vinnu, a.m.k. ekki svo neinum mæli nemi. Það á því ekki að skapa þeim vandamál.
    Hvaða annað atriði þurfa þeir að uppfylla? Þeir þurfa að vera atvinnulausir. Ég held að ekki sé heldur neitt vandamál í því sambandi að það liggi ekki ljóst fyrir hvort bóndi sé atvinnulaus eða ekki. Hins vegar þarf að vera ákvæði um það að viðkomandi sé sannanlega í atvinnuleit. Svo maður fari að reyna að átta sig á hvað gætu verið vandamál í sambandi við afgreiðslu til bænda á atvinnuleysistryggingabótum gæti verið visst vandamál hvort rétt væri að skoða bónda sem byggir t.d. mjög einangrað, hvort hann væri í atvinnuleit ef atvinnuleit hans einskorðaðist við hans eigin jarðareign. Náttúrlega eru ekki miklar líkur á því ef um er að ræða mann sem er að bregða búi og hefur engar tekjur af búi sínu. Þá eru ekki miklar líkur á því að hann geti fengið einhverja aðra atvinnu á sinni eigin jörð. Það væri líklegt að úthlutunarnefndir gerðu kröfu til þess að viðkomandi bóndi væri sannanlega í atvinnuleit og væri þá reiðubúinn til að taka atvinnutilboði í næsta nágrenni sínu ef möguleikar væru á atvinnuskapandi aðgerðum þar.
    Fjórða krafan sem gerð er, sem er sjálfsagt sú viðkvæmasta, þ.e. að viðkomandi hafi ekki lengur tekjur af eign sinni. Bóndi getur vissulega haft tekjur af eign sinni, jafnvel þó hann sé búinn að bregða búi. Hann getur t.d. hafa leigt framleiðsluréttinn, þá hefur hann tekjur af eign sinni. Hann getur t.d. hafa hafið ferðabúskap, þá hefur hann tekjur af eign sinni. Hann getur verið með hlunnindabúskap þó hann sé búinn að bregða hefðbundnu búi, þá hefur hann tekjur af eign sinni. Það veldur því að hann hefur ekki rétt til atvinnuleysisbóta. En nákvæmlega sama gildir um alla sjálfstæða atvinnurekendur. Vörubílstjóri öðlast t.d. ekki rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt þessu frv. ef hann leigði vörubílinn sinn og hefði tekjur af honum. Trillukarl öðlaðist ekki heldur réttindi til atvinnuleysisbóta ef hann leigði trilluna sína og hefði tekjur af henni. Krafan, sem gerð er, er því sú að sjálfstæður atvinnurekandi auk þeirra annarra atriða sem ég hef tekið fram, hafi ekki heldur tekjur af eignum sínum. Ég vara mjög við því að það er erfitt að gera undanþágu fyrir eina atvinnustétt í sambandi við þessa kröfu.
    Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og ég held að ég hafi svarað þeim spurningum sem til mín var beint.