Atvinnuleysistryggingar

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 23:12:05 (7345)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Talvert mikill munur er á þessum tveimur hópum. Annars vegar listamönnum sem eru í fullu starfi í list sinni og hins vegar námsmönnum sem koma heim frá skóla. Listamaðurinn, sem er í fullu starfi við listgrein sína, hefur val. Hann getur sjálfur ákveðið að tilkynna sig sem sjálfstætt starfandi og greitt skatta og skyldur til samfélagsins sem slíkur. Námsmaðurinn þarf að vinna að mig minnir u.þ.b. í 10 vikur á árinu til þess að öðlast rétt að Atvinnuleysistryggingasjóði. En ég er ansi hræddur um að ef við færum að gefa einstökum sjálfstætt starfandi atvinnurekendum það val að þeir gætu gerst aðilar að Atvinnuleysistryggingasjóði án þess að tilkynna sig til skattyfirvalda sem sjálfstætt starfandi og án þess að gera ráð fyrir því að greiða neina skatta og skyldur til ríkisins þá rynnu tvær grímur á ýmsa. Listamennirnir hafa þetta val. Þeir geta tryggt sér þessi réttindi með því að ákveða það að tilkynna sig sem sjálfstætt starfandi til skattyfirvalda og greiða síðan skatta og skyldur í samræmi við tekjur sínar. Hvers vegna skyldu þeir ekki gera það ef þeir vilja tryggja sér þessi réttindi? Tekjur listamanna geta verið litlar og þá greiða þeir lítil eða engin gjöld til ríkisins. Tekjur listamanna geta líka verið miklar og þá greiða þeir sem því svarar. Hvers vegna ætti að selja þeim einum slíkt sjálfdæmi? Það væri ekki í samræmi við hugsjónar hinnar hagsýnu húsmóður.