Atvinnuleysistryggingar

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 23:42:08 (7354)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þeir sem ekki skila 425 dagvinnustundum á ári hafa ekki rétt til greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði, hvorki þessir aðilar né aðrir. Það er ekki verið að undanþiggja eða gera neina sérstaka meðferð fyrir þá aðila sem hv. þm. talaði um. Þar eru allir jafnir fyrir lögunum.
    Í öðru lagi fær frv. þeirra alþýðubandalagsmanna að sjálfsögðu þinglega meðferð. Það hefur það fengið. Það fá öll mál sem tekin eru til umræðu hér. Hv. þm. var hins vegar að tala um að hann mundi ekki fallast á að afgreiða frv. mitt og ríkisstjórnarinnar nema frv. þeirra alþýðubandalagsmanna yrði afgreitt líka. Slík skilyrði getur hann ekki sett. Hann er bara 1 af 63 alþingismönnum. Ég mun hins vegar ekki fallast á slíkt skilyrði. Og ég held að ég hafi meiri áhrif á afgreiðslu mála í þessu ágæta þingi en hv. þm.
    Að lokum, virðulegi forseti, ég hélt að 38. gr. hefði farið fram hjá hv. þm. vegna þess að í athugasemdum við 3. gr. frv. þess sem hann lagði fram á sínum tíma er þess getið að með því sem þar er lagt til í 3. gr. frv. sé gert ráð fyrir því að ríkissjóður greiði sérstaklega þann kostnað sem til fellur vegna frv. En það er tekið fram í 38. gr. gildandi laga að það skuli gert. Þess vegna var umrædd till. hv. þm. í frv. gersamlega óþörf og ég hélt að hann hefði verið að gera sína óþörfu tillögu vegna þess að hann hefði gleymt 38. gr.