Meðferð opinberra mála

160. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 00:59:53 (7374)


     Frsm. minni hluta allshn. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta allshn. sem er að finna á þskj. 991.
    Ástæða þess að ég tel mig ekki geta tekið þátt í afgreiðslu málsins er fyrst og fremst sú að verið er með þessu frv. að víkka frekar en gert var með setningu laga nr. 19/1991 heimild þá sem hægt er að veita lögreglustjóra til að gefa út ákæru vegna svokallaðra minni háttar brota.
    Minni hlutinn getur ekki fallist á 2. gr. frumvarpsins en þar er ákvæðum um ákæruvald lögreglustjóra breytt þannig að það geti tekið til fleiri mála, þ.e. tiltekinna tegunda minni háttar afbrota.
    Lögmannafélag Íslands bendir á í umsögn sinni um málið að ávallt sé ákveðin hætta því samfara að einn og sami maðurinn annist rannsókn brotamáls, ákæri í því og sæki síðan málið. Við slíkar aðstæður sé ekki nægilega tryggt að gætt sé þeirrar hlutlægni við rannsókn sem 31. gr. laganna býður. Samkvæmt því lagaákvæði ber rannsóknara að gæta jafnt að þeim atriðum er horfa til sýknu og sektar. Hætt er við að ef hann eigi að sækja mál að rannsókn lokinni muni hann beina rannsókninni að þeim atriðum er horfi til sektar til þess að ná fram sakfellingu síðar og þar með ,,sýna árangur í starfi``. Það sé þáttur eða veikleiki í mannlegu eðli sem ekki megi loka augunum fyrir. Minni hluti nefndarinnar telur rétt að taka tillit til þessarar ábendingar, jafnvel þótt að aðeins sé um kæru að ræða eða heimild til útgáfu kæru.
    Enn fremur kom fram við störf í nefndinni hjá fulltrúa réttarfarsnefndar, Halldóri Þorbjörnssyni, að ekki hafi verið valin heppilegasta leiðin í þessu máli við setningu laga um meðferð opinberra mála með því að hafa ákværuvald í svo mörgum málum í höndum lögreglustjóra. Sú stefna var hins vegar mörkuð með setningu laganna og það var sú niðurstaða sem þar fékkst. Því leggst minni hlutinn ekki gegn þessu máli en mun ekki taka þátt í afgreiðslu þess vegna þessara vankanta.
    Eins og fram kom í máli frsm. meiri hluta hv. allshn. eru líkur á því að mörgum þeirra mála sem hér um ræðir ljúki með dómsátt. Það á hins vegar áreiðanlega ekki við um öll þau brot sem hér um ræðir og ég vek athygli á því að það geta verið býsna alvarleg brot sem geta leitt til tveggja ára fangelsisdóms. Útvíkkun á kæruheimild lögreglustjóra er því orðin töluvert mikil. Einnig er vert að spyrja sig þeirrar spurningar hvort yfir höfuð hafi verið valin rétt leið með því að gefa lögreglustjórum allvíðtæka heimild til útgáfu ákæru er lög um meðferð opinberra mála voru sett 1991.
    Það er vegna þess að um þetta hafa reynst eitthvað skiptar skoðanir innan réttarfarsnefndar að ég varpa þessari spurningu fram. Ég geri mér grein fyrir því að henni verður ekki svarað í þessari umræðu og með þessum breytingum. Það var nokkuð bagalegt að þetta kom ekki fram að ég muni er það mál var til umfjöllunar í allshn. fyrir tveimur árum og því gerðum við nefndarfólk ekki athugasemd þá. Við fengum þá niðurstöðu sem varð án þess að skoðanaskiptin kæmu í ljós frá réttarfarsnefnd. En ég vil vekja athygli á því að athugasemd Lögmannafélagsins og efasemdir Halldórs Þorbjörnssonar í þessu máli, sem ég tek skýrt fram að eru vangaveltur frekar en bein gagnrýni, hníga í sömu átt. Mér finnst því álitamál hvort ástæða sé til að víkka út heimild sem nú þegar má deila um og því hef ég kosið að taka mér meiri umhugsunartíma og sitja hjá við afgreiðslu þessarar útvíkkunar og áskil mér rétt til þess síðar að taka málið e.t.v. upp ef ástæða þykir til. En ég ætla ekki að fara ítarlegar út í þau skoðanaskipti sem urðu innan nefndarinnar. Nefndarmenn vita af því og ég get tekið undir það að það er ekki tilefni til þess hér og nú að breyta um stefnu heldur einungis að vekja athygli á því að hugsanlega hefur þarna ekki verið valin eina færa og góða leiðin. Ég get hins vegar heils hugar tekið undir það að mikil þörf er á að stytta þann tíma sem málsmeðferð tekur og það er auðvitað tilgangurinn með þessu frv. og það er jákvæði hlutinn.
    Ég tel ástæðu til þess að gera örlitla athugasemd vegna 5. gr. þessa frv. þar sem í túlkun meiri hluta nefndarinnar kom fram að það er gert ráð fyrir því að sá frestur sem þar um ræðir hefjist þegar máli hefur verið úthlutað dómara til meðferðar og þessi túlkun er til komin til þess að eyða vafa þar sem um fjölskipaðan dóm er að ræða.
    Dómstjóra í fjölskipuðum dómi er samkvæmt þessu ekki veitt aðhald frá því hann móttekur ákæru og þar til hann úthlutar málinu. Vissulega má ætla og ég hef enga ástæðu til annars en að ætla það að þetta leiði ekki til þess að óeðlilegur dráttur verði á slíkri úthlutun. Og eftir því sem upplýsingar voru veittar innan nefndarinnar þá skilst mér að mál séu dagsett þegar við móttöku til embættis. En það breytir því ekki að það er mögulegt að óeðlilegur tími líði frá því að dómstjóri móttekur mál og þar til hann úthlutar því

til dómara. Það tel ég óheppilegt og ef dæmi koma í framtíðinni upp um það að óeðlilegur dráttur verði á úthlutun mála hjá dómstjóra þá tel ég óhjákvæmilegt að þarna verði sett ákvæði um frest hans, ekki síður en frest dómaranna sjálfra.
    Þessar athugasemdir geri ég við þetta frv. og eins og ég lýsti áður þá mun ég ekki taka þátt í afgreiðslu málsins. En ég tel að þau rök sem fram komu í nefndinni um það að ef breyting verði ekki gerð þá muni það óhjákvæmilega þýða lengingu á þeim tíma sem málsmeðferð tekur, þá tel ég að miðað við núverandi kerfi séu ekki ástæður til þess að leggjast gegn þessu máli og þar með að styðja það að óeðlilegur dráttur verði á málum. Ég vek athygli á því að það er hægt að fara fleiri leiðir og vonast til þess að þær umræður sem vöknuðu innan nefndarinnar munu leiða til þess að menn hafi þetta hugfast.