Umferðarlög

160. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 01:17:03 (7377)

     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá allshn. um frv. til laga um breytingu á umferðarlögum nr. 50 frá 30. mars 1987, á nál. 978 og með brtt. á þskj. 979.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund Ólaf Walter Stefánsson, skrifstofustjóra í dóms-og kirkjumálaráðuneyti, frá Umferðarráði Þórhall Ólafsson formann, Óla H. Þórðarson framkvæmdarstjóra og Guðmund Þorsteinsson, Ólaf Ólafsson landlækni og Brynjólf Mogensen og Kristin R. G. Guðmundsson yfirlækna á Borgarspítalanum. Umsagnir bárust frá Bifhjólasamtökum lýðveldisins, Bifreiðaskoðun Íslands, Ökukennarafélagi Íslands, Landssambandi íslenskra akstursíþróttafélaga, Náttúruverndarráði, lögreglustjóranum í Reykjavík, Umferðarráði, Slysavarnaráði Íslands, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Sýslumannafélagi Íslands, Neytendasamtökunum, Vinnueftirliti ríkisins og Sambandi íslenskra tryggingafélaga.
    Frumvarp þetta miðar að því að endurskoða nokkur ákvæði umferðarlaganna og gera þau jafnframt skýrari og einfaldari í framkvæmd. Enn fremur hefur frumvarpið að geyma nýmæli, svo sem ákvæði sem heimila ráðherra að setja reglur um æfingaakstur á bifreið án löggilts ökukennara en undir leiðsögn sérstaks leiðbeinanda, að tími til æfingaaksturs verði lengdur úr þremur mánuðum í sex og kveðið verði á um skyldunotkun hlífðarhjálms við akstur torfærutækis. Þetta atriði í sambandi við leiðbeinandann er rætt sérstaklega í greinargerð með frv. og þar segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Talið hefur verið að það sé að nokkru leyti reynsluleysi að kenna að ungir ökumenn lenda oftar í umferðaróhöppum en aðrir ökumenn. Ástæða þessa sé í sjálfu sér ekki vanþekking á umferðarreglum eða léleg ökukennsla heldur fyrst og fremst of lítil reynsla í akstri. Er talið að úr þessu megi bæta með því að heimila nemanda að æfa sig í akstri með leiðbeinanda sem þegar hefur hlotið reynslu í akstri þannig ökutækis. Slík heimild er fyrir hendi í nokkrum löndum og er talin hafa skilað árangri. Oft er um það að ræða að foreldri eða eldra systkini sé þannig leiðbeinandi.``
    Það er skilningur nefndarinnar að hér sé um að ræða viðbót við hina hefðbundnu ökukennslu sem nú er í dag.
    Auk þessara nýmæla leggur nefndin m.a. til að við frumvarpið bætist ákvæði um bann við framúrakstri á vegamótum og um heimild til ráðherra að setja reglur um torfæruakstur utan vega. Reyndar tel ég réttara og það er skilningur nefndarinnar að það sé nákvæmara að tala hér um akstur utan vega því að torfæruakstur bíður upp á fremur þrönga túlkun og bið ég hv. þm. um að athuga það. Þá leggur nefndin til að ráðherra verði veitt heimild til að setja reglur um notkun hlífðarhjálma við hjólreiðar. Breytingartillögur nefndarinnar eru þessar:
    Lagt er til að ný grein komi á eftir 4. gr. sem kveði á um breytingu á 1. mgr. 22. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, um bann við framúrakstri við gatnamót. Í a--d-liðum ákvæðisins eru taldar upp undantekningar frá banninu. Fram hefur komið að þær hafa verið túlkaðar sem sjálfstæð heimild til framúraksturs en ekki undantekningar frá almennu banni við framúrakstri eins og réttara þykir. Til þess að eyða óvissu um túlkun ákvæðisins og í ljósi markmiðs þess, að tryggja greiða umferð án þess að stefna umferðaröryggi í hættu, leggur nefndin til að orðalagi þess verði breytt.
    Lögð er til breyting á 6. gr. til að taka af tvímæli um að þokuljós megi nota ásamt ökuljósum með lágum ljósgeisla.
    Lagt er til að ný grein komi á eftir 7. gr. sem heimili ráðherra að setja reglur um torfæruakstur utan vega. Talsvert mun hafa borið á því að unglingar, sem ekki hafa almennt bifhjólapróf, aki t.d. torfæruhjólum utan vega en ekki hefur verið hægt að beina þessum akstri inn á æfingasvæði eða inn í keppni sökum kröfu um ökuréttindi.
    Lögð er til breyting á 10. gr. en viðmiðun sú, sem nota á í sambandi við bifhjól í d-lið ákvæðisins, þykir betur komin í reglugerð.
    Lagt er til að 11. gr. verði breytt þannig að í fyrsta lagi verði b-liður að c-lið og öfugt. Í öðru lagi er lagt til að aldur leiðbeinanda við æfingaakstur verði 24 ár í stað 21 árs og í þriðja lagi skal hann hafa a.m.k. fimm ára reynslu af að aka viðkomandi ökutæki í stað þriggja ára.
    Lögð er til leiðrétting á tilvísun í 13. gr.
    Lagt er til að ný grein komi á eftir 19. gr. frumvarpsins sem kveði á um heimild ráðherra til að setja reglur um notkun hlífðarhjálms við hjólreiðar. Landlæknir, yfirlæknir slysavarðstofunnar í Reykjavík og heilaskurðlæknir komu á fund nefndarinnar. Var erindi þeirra að mæla með því við nefndina að hún flytti breytingartillögu við frumvarpið um skyldu barna til að nota hlífðarhjálma á reiðhjólum. Nefndin fékk senda m.a. greingargerð frá Slysadeild Borgarspítalans um rannsókn á slysum á börnum í umferðinni. Þar komu ýmsar athyglisverðar upplýsingar í ljós en í ályktun segir svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Umferðarslys barna eru sem betur fer lítill hluti af heildarslysatíðni barna. Slysin eru þó mun alvarlegri en önnur slys. Reiðhjólaslys eru algengustu umferðarslys barna og eru alvarleg þar sem helmingi fleiri börn þurftu að leggjast inn á sjúkrahús en eftir barnaslys almennt. Notkun á reiðhjólahjálmum mundi fækka alvarlegum höfuðáverkum hjá börnum sem lenda í reiðhjólaslysum.`` Af þessu tilefni fékk nefndin starfsmenn Umferðarráðs til fundar við sig. Þeir kynntu nefndarmönnum kynningarstarf ráðsins um þetta efni en töldu ekki tímabært að lögfesta skyldu til að nota hlífðarhjálma á reiðhjólum. Lagasetningin hefði ekki gildi fyrr en notkun hlífðarhjálma hefði náð ákveðnu marki (20--25%). Skiptar skoðanir komu fram í nefndinni um málið, hvort rétt væri að lögfesta notkun hlífðarhjálma við hjólreiðar, við hvaða aldur ætti að miða notkunina og um gerð hjálmanna. Niðurstaða meiri hluta nefndarmanna varð sú að leggja til að ráðherra hefði heimild til að setja reglur um notkun hlífðarhjálma á reiðhjólum. Er litið svo á að með þessu sé ekki lögfest heimild til þess að skylda hjólreiðamenn til að nota hlífðarhjálma. Slíkri skyldu ber hins vegar að veita lagavernd. Með þessari niðurstöðu meiri hluta nefndarmanna er komið er til móts við sjónarmið þeirra sem vilja lögfesta notkun hlífðarhjálma við hjólreiðar en beðið með frekari ákvarðanir löggjafans í þessu efni.
    Að lokum eru lagðar eru til breytingar á 28. gr. sem miða aðallega að því að lagfæra orðalag 112. gr. umferðarlaga.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Ingi Björn Albertsson stendur að breytingartillögum nefndarinnar en styður ekki 7. lið breytingartillagnanna (um notkun hlífðarhjálma við hjólreiðar).
    Undir nál. rita eftirtaldir nefndarmenn, Sólveig Pétursdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Auður Sveinsdóttir, Björn Bjarnason, Eyjólfur Konráð Jónsson, Pétur Bjarnason, Sigbjörn Gunnarsson, Jón Helgason og Ingi Björn Albertsson, sá síðastnefndi með fyrirvara.
    Ég vil einnig nota þetta tækifæri til að þakka hefndarmönnum í allshn. fyrir vel unnin störf að þessu máli. Hér er um að ræða mjög mikilvægt mál sem snertir flesta landsmenn og er það von mín að þessu máli verði vel tekið hér á Alþingi.