Stytting vinnutíma

160. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 01:57:12 (7382)

     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um styttingu vinnutíma en flutningskonur ásamt mér eru aðrar þingkonur Kvennalistans.
    Tilllögtextinn er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir styttingu vinnuvikunnar með það að markmiði m.a. að skapa fleiri störf. Vinnuvika í dagvinnu verði stytt í 35 stundir í áföngum og án kjaraskerðingar. Haft verði samráð við aðila vinnumarkaðarins og jafnframt kannað hvort slík aðgerð geti verið liður í kjarasamningum.``
    Þannig hljóðar tillögtextinn. Í umræðum hér fyrr í vetur um sveigjanlegan vinutíma, sem einnig er þáltill. okkar kvennalistakvenna, tók ég fram að sú tillaga væri nátengd þeirri tillögu sem ég hef nú flutt. Síðan þá eru jafnvel komnar enn ríkari ástæður til að flytja slíka tillögu þar sem nú er verið að velta fyrir sér ýmsum möguleikum varðandi atvinnusköpun og upp hafa verið teknar þríhliða viðræður milli atvinnurekenda, launþega og ríkisvaldsins í því skyni ekki síst.
    Eins og fram kemur í greinargerð með þessari þáltill. þá er einmitt verið hér að leitast við að benda á möguleika til að skapa fleiri störf án þess að þurfa að kosta svo miklu til. Ég vil aðeins geta örfárra atriða sem fram koma í greinargerðinni en vísa að öðru leyti til hennar. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í þessari tillögu er hins vegar gert ráð fyrir að unnt verði að stytta vinnudag hvers og eins án kjaraskerðingar. Ýmis fyrirtæki hafa hagrætt verulega á undanförnum árum og afköst starfsfólks aukist. Í flestum tilvikum kemur slík hagræðing aðeins fyrirtækinu til góða en ekki starfsfólki sem innir af hendi meiri vinnu á skemmri tíma. Einnig er rétt að hafa í huga að aðstöðugjaldi hefur nú verið létt af íslenskum fyrirtækjum og tekjuskattur þeirra lækkaður. Þessar breytingar ættu að skapa svigrúm til styttingar vinnutíma.
    Í tillögunni er lagt til að kannað verði hvort slíkar breytingar á vinnutíma geti verið liður í kjarasamningum. Mikil áhersla hefur að undanförnu verið lögð á að aukin atvinna sé forsenda kjarasamninga. Stjórnvöld hafa átt þátt í þríhliða samningaviðræðum ásamt launþegum og vinnuveitendum. Eðlilegt er að ræða styttingu vinnutíma í slíkum viðræðum. Með styttingu vinnutíma er hægt að skapa fjölmörg störf og spara samfélaginu umtalsverðar fúlgur sem ella væru greiddar í atvinnuleysisbætur. Þannig væru stjórnvöld í stakk búin til að mæta auknum útgjöldum vegna styttingar vinnutíma opinberra starfsmanna og líklega aflögufær til að hlaupa undir bagga ef atvinnurekendur teldu lækkun skatta og hagræðingu undanfarinna ára ekki hrökkva fyrir kostnaði við styttingu vinnuvikunnar.
    Stytting vinnuvikunnar hefur vissulega fleiri kosti. Þar bendi ég á að fjölga þarf samverustundum fjölskyldunnar. Við búum við hraksmánarlegan aðbúnað barna og ég held að þetta sé eitt af því sem líta þarf til. Ég vil einnig benda á það að enn er vinnutími mjög langur hér á landi, mun lengri en í nágrannalöndunum þrátt fyrir samdrátt. Meðalvinnutími var samkvæmt könnun kjararannsóknarnefndar 45,8 stundir á viku á þriðja ársfjórðungi ársins 1992 og þetta þrátt fyrir vaxandi atvinnuleysi. Ég tel einnig rétt að halda því til haga að umræða um styttingu vinnutíma er síður en svo ný af nálinni á Íslandi. Á 110. löggjafarþingi fluttu þingmenn Alþb. þáltill. um styttingu vinnutímans og á 113. löggjafarþingi fluttu tveir þingmenn Alþfl. einnig tillögu um styttingu vinnutíma.
    Hér búum við nú við þær aðstæður í kjarasamningum og varðandi atvinnuleysi að kjarasamningar eru í uppnámi og meðal þess sem ekki þykir hafa verið bent á raunhæfar leiðir í er atvinnusköpun, þ.e. að skapa fleiri störf. Einnig vil ég benda á að mjög hefur skort á að mínu mati að umræða hafi verið nógu frjó um þessi mál. Það er ekki bara þörf á að skapa störf heldur að deila þeim störfum sem fyrir hendi eru milli fleiri. Þetta ætti að vera öllum til hagsbóta. En ég vísa að öðru leyti til þess sem fram kemur í greinargerð og fylgiskjölum með þessari tillögu. Ég vona að félmn., sem ég óska eftir að forseti vísi þessari tillögu til að lokinni umræðu, gangi rösklega í það verk að reyna að koma þessum hugmyndum í umræðuna og það er best gert með því að samþykkja og afgreiða þessa tillögu núna í vor. Ég bið einnig um að málinu verði vísað til síðari umr.