Stytting vinnutíma

160. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 02:03:47 (7383)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft athyglisverðu máli sem snertir styttingu vinnuvikunnar, sem hefur það að markmiði að skapa fleiri störf en flutningsmenn leggja til að vinnuvika í dagvinnu verði stytt í 35 stundir í áföngum án kjaraskerðingar. Það er tvennt sem ég vil láta koma fram í þessu sambandi.
    Í fyrsta lagi að í september 1987 skipaði ég nefnd sem falið var að leita leiða til að stytta vinnutíma án þess að tekjur skerðist og liggur fyrir ítarleg skýrsla í því sambandi en nefndin skilaði mér áliti í júlí 1988. Ábendingar nefndarinnar beindust einkum að tveimur þáttum.
    Í fyrsta lagi bendir nefndin á atriði sem samningsaðilar á vinnumarkaði gætu beitt sér fyrir með samningum sín á milli. Nefndin lagði til að samningsaðilar semji um lækkun yfirvinnukaups en hækkun dagvinnulauna.
    Í öðru lagi benti nefndin á nokkrar stjórnvaldsaðgerðir sem eru til þess fallnar að stytta vinnutímann. M.a. er bent á staðgreiðslu fyrirtækja á sköttum af launagreiðslum og takmörkun á yfirvinnu með lögum.
    Álit vinnutímanefndarinnar var sent helstu samtökum aðila vinnumarkaðarins til umsagnar. Sannast sagna hlutu tillögur nefndarinnar dræmar undirtektir þannig að lítið hefur gerst í málinu frá því að álit þetta kom fram. Annað atriði sem e.t.v. hefur haft áhrif er sú staðreynd að sá útreikningur á vinnutíma á Íslandi sem oftast er vitnað til er ekki samanburðarhæfur hliðstæðra erlendra útreikninga. Hérlendis er einkum stuðst við upplýsingar sem birtast í fréttabréfi kjararannsóknarnefndar um vinnutíma. Sannleikurinn er sá að þær upplýsingar gefa ekki alls kostar rétta mynd af raunverulegum vinnutíma hér á landi. En einmitt í greinargerð með þessari þáltill. er vitnað til þess að meðalvinnutími var samkvæmt könnun kjararannsóknanefndar 45,8 stundir á viku á þriðja ársfjórðungi ársins 1992 eins og segir í greinargerð með þáltill. Aðferð kjararannsóknarnefndar byggir á því að einungis sé tekið tillit til vinnutíma þeirra sem eru í fullu starfi. Vinnutími þeirra er settur á 40 klukkustundir í dagvinnu á viku og síðan bætt við meðaltalsyfirvinnu. Þessi aðferð er ekki mæling á meðalvinnutíma allra heldur einungis þeirra sem eru í fullu starfi. Kjararannsóknarnefnd hefur reiknað út fyrir félmrn. vinnutíma félagsmanna í Alþýðusambandi Íslands að sjómönnum undanskyldum og byggt á leiðbeiningarreglum Alþjóðavinnumálastofnunar sem yfirleitt eru notaðar í nágrannalöndunum. Sé þeirri aðferð beitt var lengd greiddrar vinnuviku á árinu 1991 41,2 stundir fyrir karla og 29,6 stundir fyrir konur sem gefur 36,9 stundir að meðaltali á viku. Á árinu 1990 var þessi tala 35,3 stundir. Á því ári voru hliðstæðar tölur 36 fyrir Noreg og 36,9 fyrir Svíþjóð, 36,7 fyrir Spán og 39,7 fyrir Þýskaland. Í síðastnefnda tilvikinu er miðað við greiddan tíma en í hinum við unnar stundir. E.t.v. hefur þetta dregið úr vilja manna til að grípa til aðgerða á þessu sviði.
    Við þetta er þó skylt að bæta að vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar og lífskjarakönnun félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands gefur til kynna að vinnutími ýmissa hópa sem standa utan við ASÍ sé lengri en að framan greinir.
    Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi míns máls þá tel ég þessa þáltill. allrar athygli verða en með hliðsjón af því sem að framan greinir er e.t.v. vafasamt að draga þá ályktun að stytting vinnutímans leiði til jafnmikillar fjölgunar starfa og flutningsmenn gera sér vonir um.