Útboð á rekstri Fríhafnarinnar í Keflavík

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 14:16:00 (7389)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Mér varð það nú á að spyrja sessunaut minn hér áðan hvort hann fengi niðurstöðu í ræðu hæstv. utanrrh. því það gerði ég ekki og það gerði hann raunar heldur ekki. Og ég held að svör hæstv. ráðherra hafi verið svo loðin að þau geti þýtt nánast hvað sem er. Það eyðir þar af leiðandi ekki þeirri óvissu sem starfsfólk Fríhafnarinnar er í núna. Ég held að ég verði að vekja sérstaka athygli á því ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum hér að Suðurnes eru erfiðasta og viðkvæmasta atvinnusvæðið hér á landinu og búin að vera það um alllanga hríð og það hlýtur að skipta máli á svona fjölmennum vinnustað hvaða háttur verður á rekstri þessa fyrirtækis sem hv. málshefjandi lýsti mjög vel að er rekið með mesta myndarbrag og sóma. Og mér finnst í rauninni ekki hægt að bjóða fólki upp á það sem ég veit að stendur vel að sínu starfi að lifa í einhverri óvissu um það hvernig framhaldið verður á þeirra starfi. Það er ekkert sem mælir með því að hér verði farið að rótast til. Við vitum alveg hvernig vandinn varð til varðandi kostnaðinn við byggingu flugstöðvarinnar. Það á ekki að þurfa að bitna á vel reknu fyrirtæki né starfsfólkinu sem þar vinnur. Og þetta held ég að sé mergurinn málsins.
    Ég held líka að dæmin sýni það bæði að útboð á vegum ríkisins hafa ekki verið með tilliti til hagkvæmni og þau hafa tíðum verið að hygla. Einkavæðing sú sem reynt hefur verið að ná heldur ekki, þannig að efasemdirnar eru enn til staðar.