Útboð á rekstri Fríhafnarinnar í Keflavík

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 14:33:24 (7397)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hafi það verið aðaláhyggjuefni þeirra sem um þetta mál spyrjast, hvort til standi að afhenda Flugleiðum rekstur Fríhafnarinnar, þá stóð það skýrum stöfum í upphaflegri álitsgerð þessara starfsmanna utanrrn. og fjmrn. að það kæmi ekki til greina. Það hefur aldrei komið til álita.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fyrrv. samgönguráðherra, talaði af dæmafáu yfirlæti og ábyrgðarleysi um þann fjárhagsvanda sem hér er við að eiga. En hv. þm. Svavar Gestsson, yfirskoðunarmaður ríkisreiknings, birti hins vegar tölur yfir það hver sá vandi er, rúmlega þrír milljarðar miðað við árslok 1991 og vanskilavandi verulegur. Nú er út af fyrir sig hægt að segja að tekjurnar af þeirri starfsemi sem fram fer á Keflavíkurflugvelli séu ærnar og miklu meira en nógar til að standa undir afborgunum og vöxtum af þessum uppsafnaða fjárhagsvanda. En það fer stór hluti af honum beint í ríkissjóð og í annan stað fara um 14% til annarrar óskyldrar starfsemi. Það þekkir fyrrverandi samgrh. manna best og reyndar núv. samgrh. líka. Ef þetta væri ekki svo þá væri þessi vandi enginn. Og það þyrfti ekkert um það að fást. Þannig að fyrrv. samgrh. ætti að tala af sæmilegri virðingu um staðreyndir. Við verðum að hafa það í huga að fram undan eru breytingar sem munu íþyngja okkur Íslendingum enn meir. Við komum til með að taka á okkur í vaxandi mæli skuldbindingar við að halda hér uppi alþjóðlegum flugvelli í stað þess að hafa haft af honum tekjur eingöngu má búast við að við höfum af honum aukinn kostnað. Það þýðir þess vegna ekkert að láta eins og vandinn sé ekki til staðar. Það breytir engu um að starfsfólk Fríhafnarinnar hefur skilað miklum árangri bæði í skilum til ríkissjóðs og í samanburði við annan flugvallarrekstur. Og það má líka sjá það m.a. af því að hlutur launa í rekstri þess fyrirtækis hefur lækkað mjög verulega á undanförnum árum. En það þýðir ekkert að blása á þetta vandamál. Kjarni málsins er sá að það kemur til álita samkvæmt þessum tillögum að breyta núverandi rekstrarformi í hlutafélag í eigu ríkisins. Að öðru leyti liggja tillögurnar um auknar tekjur fyrir og lækkun gjalda.