Lögskráning sjómanna

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 14:40:26 (7399)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er verið að leggja fram er í þá átt að auka öryggi sjómanna. Ber vissulega að fagna því að þar sé sterkar að orði kveðið en fyrr til að auka öryggi sjómanna.
    Það sem ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á við þessa umræðu varðar lögskráningu. Hér er miðað við að þeim mönnum sem eru lögskráðir sé skylt að hafa sótt slysavarnarskóla. En lögskráning miðast við 12 brúttólesta skip, hún miðast ekki við minni skip en 12 brúttólestir. Ég vildi því spyrja hæstv. ráðherra, ef hann getur svarað því eða þá að vísa því til nefndarinnar að skoða hvernig er hugsað að koma til móts við það að þessi skylda sé einnig sett á þá skipstjóra og skipstjórnarmenn sem eru á bátum undir 12 brúttólestum. Hvort hægt sé að finna einhverja leið í því með breytingum hér. En samkvæmt þessu frv. get ég ekki séð að þetta nái til skipverja á skipum sem eru undir 12 brúttólestum. Í því sambandi vil ég einnig vekja athygli á því að á liðnum vetri hafa óhöpp og slys ýmiss konar verið mjög tíð einmitt á bátum undir 10 brúttólestum og jafnvel undir 6 brúttólestum en þeir falla að sjálfsögðu allir undir þetta. Þannig að ég tel að það sé full þörf á því að setja þar ákveðnari reglur um það að þeir sjómenn hafi einnig sótt þessi námskeið.