Vegalög

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 14:43:13 (7401)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þetta frv. er einfalt í sniðum, ein efnisgrein sem hljóðar svo: ,,Vegagerð ríkisins er heimilt að kaupa, eiga og hafa umsjón með ferjum og flóabátum sem reknir eru til samgöngubóta, svo og að eiga aðild að félögum sem hafa eignarhald á þeim.``
    Frv. þetta er flutt til samræmis við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að stofn- og rekstrarkostnaður við ferjur og flóabáta sem fram til síðustu áramóta hefur verið greiddur með fjárveitingum úr ríkissjóði verði eftirleiðis greiddur af mörkuðum tekjum til vegamála í samræmi við VII. kafla vegalaga. Til þess að það sé unnt er nauðsynlegt að þessi breyting verði gerð enda hefur hún í för með sér miklu liprari framkvæmd en ella mundi og öruggari og veldur því að samband Vegagerðar og þeirra sem bera ábyrgð á rekstri viðkomandi flóabáta verður milliliðalaust. Þetta fyrirkomulag er því til þess fallið að styrkja rekstur ferja og flóabáta og á að vera öllum til hagsbóta.
    Eins og kunnugt er eru uppi hugmyndir um að breyta rekstrartilhögun þeirra í þá veru að skilja eignarhald frá rekstri og ná fram með þeim hætti aukinni hagkvæmni, t.d. með því að bjóða út reksturinn og bjóða hugsanlegum tilboðsgjöfum ferjurnar og flóabátana til leigu.
    Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og samgn.