Vegalög

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 14:56:06 (7406)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja vegna ábendinga hv. þm. um dráttarvexti í Ríkisábyrgðasjóði að sú athugasemd er fullkomlega réttmæt og ég hef óskað eftir því við Vegagerðina að fá nákvæmar upplýsingar um dráttarvaxtareikning vegna ferju- og flóabáta á undanförnum árum, bæði á smíðatíma þeirra og endranær, þannig að hægt sé að leiðrétta eftir á til eðlilegra vaxta þessa skuldfærslu því það nær auðvitað engri átt ef einhver dráttur í kerfinu hefur valdið því að þessi skip eru dýrari en vera þyrfti og að verið sé að reyna að ná tekjum af ferjum og flóabátum með óeðlilegri skráningu á skuldum þeirra vegna.
    Á hinn bóginn vil ég alveg taka undir það að auðvitað hefði það verið æskilegt ef við hefðum getað látið allar tekjur Vegasjóðs renna til samgöngumála en ástandið í ríkisfjármálum er þannig núna að við höfum ekki treyst okkur til þess og af þeim sökum kemur bæði til þess á þessu ári og eins hinu síðasta að hluti af tekjum Vegasjóðs er tekinn beint í ríkissjóð.