Vegalög

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 14:58:29 (7408)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð um þetta frv. sem hér er til umræðu. Ég missti því miður af framsöguræðu hæstv. samgrh., hún hefur varla verið mjög löng því ég skaust hálfa mínútu eða svo í símann. En hvað um það. Málið lætur út af fyrir sig ekki mikið yfir sér á prenti, aðeins ein efnisgrein og svo gildistökugrein og efnisgreinin ekki löng, aðeins tvær línur á blaði. En efnið er þó nokkuð veigamikið. Það er auðvitað verið að fela hér Vegagerð ríkisins nýtt hlutverk, nýtt verkefni sem ég á þessu stigi er síður en svo að mæla gegn, ég held hins vegar að það þurfi að skoða þetta ítarlega eins og hér hefur reyndar komið fram í umræðunum. Það geta verið ýmsir þættir í málinu sem þarf að skoða, í hverju einstöku tilviki líka varðandi þær ferjur og þá flóabáta sem nú eru til og eru í rekstri, hvernig háttar þar eignarhaldi og hvernig kemur ríkið með Vegagerð ríkisins sem þann aðila sem á að sinna málunum að hverju einstöku félagi eða fyrirtæki sem í dag sjá um og eiga að forminu til ferjurnar og flóabátana.
    Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins á þessu stigi leggja það inn í umræðuna að það sé nauðsynlegt að fara í þetta með nokkurri gát. Við þingmenn Norðurl. e. höfum nú þegar orðið vitni að því hvernig farið var að þegar semja átti um rekstur á Hríseyjarferjum svokölluðum, ferjum sem ganga á milli Hríseyjar og Grímseyjar og lands, og ég verð að segja það umbúðalaust að mér fannst þar vera farið nokkuð flausturslega að í upphafi og ríkisstjórnin eða ríkisvaldið í gegnum Vegagerð ríkisins flýta sér e.t.v. einum of mikið því málin voru ekki nægjanlega vel undirbúin. Nú leystist það mál út af fyrir sig tiltölulega farsællega og ber að fagna því að það tókst að koma því máli þannig fyrir að ég held að um rekstrarmálin sé sátt eftir því sem þar getur verið. En hér er verið að tala um eignarhaldið á þessum skipum og hvernig staðið er að því að kaupa og hafa umsjón með skipunum og það er það sem ég vil að sé líka skoðað vel því þegar farið er af stað með nýtt verkefni eins og þetta, nýjum aðilum falið að annast rekstur sem áður hefur verið í höndum heimamanna í flestum tilvikum á þeim stöðum þar sem verið er að veita þessa brýnu og nauðsynlegu þjónustu, þá sé það gert í fulli sátt. Þá sé það gert þannig að Vegagerð ríkisins sé ekki sett í þá erfiðu stöðu að koma eins og eitthvert yfirvald og stundum skapa sér jafnvel þá ímynd að vera óvinur eða andstæðingur þeirra aðila sem eiga að njóta þjónustunnar. Þannig má þetta ekki gerast. Það er mjög mikilvægt að þetta fari af stað í sátt og fari vel af stað þannig að farsællega sé að málinu staðið til frambúðar og lengri tíma litið.

    Annað mál langaði mig að nefna, hæstv. forseti, í þessari umræðu og koma því á framfæri að eins og við vitum öll þá var það áður að ríkið lagði þessum samgöngutækjum fjármuni bæði til stofnkostnaðar og til reksturs utan við þá fjármuni sem hingað til hafa farið til vegagerðar. Það hafa auðvitað oft verið háar upphæðir, það eru háar upphæðir sem hafa komið úr ríkissjóði inn í þennan rekstur og til þess að kaupa eða styrkja eignaraðila við kaup á skipum, ferjum og flóabátum. Nú er hins vegar gert ráð fyrir því að þessi kostnaður komi af mörkuðum tekjum til vegamála. Um þetta vil ég hafa allan fyrirvara og ætlast til þess að hv. samgn. sem trúlega fær málið til umfjöllunar skoði þann þáttinn sérstaklega og hvort þá ekki er ástæða til þess, ef þetta verður, sem allt bendir til, frambúðarform fyrirkomulags á eignarhaldi og rekstri þessarar þjónustu, þá sé hugað að því hvernig tekna er aflað til þessa málaflokks. Hugsanlega ætti fjárln. þingsins einnig að koma að því vegna þess að í gegnum tíðina hefur hún fjallað um þær fjárveitingar sem hafa runnið til ferja og flóabáta. Fjármunum hefur verið varið beint af fjárlögum ríkisins til þess málaflokks og fjárln., áður fjárveitinganefnd, fjallað um þá þætti í samráði og samvinnu við samgöngumálanefndir þingsins sem eins og menn muna samkvæmt fyrra skipulagi á þinghaldi voru tvær og unnu að þessum verkefnum saman, þ.e. samgöngunefndir efri deildar og neðri deildar þingsins meðan það form ríkti hér. Þannig að ég tel að það sé ekki óeðlilegt að beina því til hv. samgn. að samráð sé haft við fjárln. um þessi fjármál og um framtíðarskipulag og form á kostnaðargreiðslum, bæði stofnkostnaði og rekstrarkostnaði við ferjur og flóabáta.