Vegalög

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 15:09:37 (7411)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. nefndi í svari sínu áðan Fagranesið og Baldur. Ég ætlaði ekki að draga það neitt sérstaklega inn í þessa umræðu en finnst þó að ég þurfi að tiltaka hér nokkur atriði. Hann sagði m.a. að það væri e.t.v. hægt að leysa samgöngumál Ísafjarðardjúps, þ.e. að þjónusta eyjarnar

og ströndina eins og það er kallað með öðru en bílaferjum. Nú skal ég ekki um það deila, auðvitað þarf ekki beinlínis bílaferju fyrir þá staði en málið er bara ekki svo einfalt að það sé hægt að leysa það með því að það sé hægt að nota minna skip í þetta.
    Fagranesið hefur hingað til ekki verið bílaferja, ekki fyrr en þetta skip sem keypt var fyrir einu og hálfu ári síðan. Þá var áformað að koma þarna á bílaferju, en gamla Fagranesið flutti þó bíla þó þar væri ekki um bílaferju að ræða. Það stytti leið þeirra sem þurftu að fara þennan veg og jafnvel á tímum þegar enginn vegur var um Ísafjarðardjúp þá fór fólk oft með bíla sína með Fagranesinu og komst þannig áleiðis inn á aðra landshluta.
    Enn er það svo að þó komin sé bílvegur um Ísafjarðardjúp þá er vegur þar mjög ófullkominn. Bundið slitlag er ekki á nema líklegast um einum fjórða í mesta lagi af þeirri leið sem þarna þarf að fara þó ég hafi það ekki nákvæmlega í kílómetrum og þó nokkur hluti vegarins er algerlega óuppbyggður enn þá. Málið er því ekki svo einfalt að þarna séu komnar greiðar samgöngur og góður vegur sem fólk hljóti að nota í staðinn fyrir bílaferju.
    Það er að vísu svo að það hefur verið þróunin alls staðar í heiminum í kringum okkur að meira hefur verið leitað í að byggja upp vegi en dregið úr rekstri ferja. En ég vil aftur benda á að í Ísafjarðardjúpi er ekki heldur hægt að afgreiða málið með því að þarna geti í raun og veru bara lítið skip sinnt þessu, menn hafa talað um jafnvel rækjubátana eða hraðbáta í þessu sambandi. Þarna breytist oft veður á mjög skammri stund og ég veit að menn sem þekkja þarna til og landsmenn kannski allir vita að þarna hafa oft orðið alvarleg slys einmitt vegna þess að veður breytist mjög fljótt.
    Í sambandi við Baldur þá ræddi hæstv. ráðherra um að hann kæmi í staðinn fyrir veg sem ekki er haldið opnum um Barðastrandarsýslu. Það er alveg rétt. En ég vil benda á að sú rekstraráætlun sem gerð var fyrir Baldur á sínum tíma reyndist ekki raunhæf, þ.e. farþegafjöldinn margfaldaðist og bílaflutningurinn jókst mjög mikið á milli ára eftir að Baldur var tekinn í notkun. Þannig að þó núna sé verið að skoða það að rekstur Fagranessins standi ekki undir því að flytja þarna bíla og fólk á milli þá er ekki alveg víst að það sé búið að skoða það nægilega vel og ég minni á að þessi rekstraráætlun sem gerð hafði verið fyrir Baldur reyndist ekki raunhæf að því leyti að hún skilaði miklu meiri tekjum heldur en gert hafði verið ráð fyrir.
    Það er hins vegar alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að staðan í málefnum ferja og flóabáta hefur verið mjög slæm. Þarna hafa safnast upp skuldir og stofnkostnaður og dráttarvextir sem ekki hefur verið alveg á hreinu hver ætti að greiða. Ríkinu hefur ekki beinlínis verið fært þetta til eignar þó svo að ríkið hafi lagt í þennan stofnkostnað. Það hefði auðvitað fyrst og fremst þurft að ganga frá því strax í upphafi og fyrir allmörgum árum síðan hvernig fjármögnun væri og ekki hvað síst þegar farið var út í að kaupa nýjar ferjur hvernig ætti að fjármagna þær hvernig eignarhlutfallið væri og sem sagt alla fjármögnun á stofnkostnaði.
    Ríkisendurskoðun hefur gert úttekt á rekstri ferja og flóabáta. Það hefur verið fjallað um hana í hv. fjárln. en ég teldi það nauðsynlegt að í samgn. yrði jafnframt því að ræða þetta mál fjallað um þá úttekt sem Ríkisendurskoðun hefur gert á rekstri ferja og flóabáta. Það hefur ekki verið gert enn svo mér sé kunnugt heldur hefur Vegagerðin skilað inn sinni úttekt á því sem varðar rekstur ferja og flóabáta. Eins og ég sagði áðan þá held ég að þessi mál þurfi öll að skoðast mjög rækilega og vissulega með það í huga að samgöngur eru að breytast. En ég bendi enn og aftur á það að ég tel ekki að það sé svo einfalt að segja að það þurfi ekki rekstur bílaferju í Djúpinu á meðan ekki er enn búið að byggja upp þokkalega vel akfæran veg sem haldið er opnum svo nægi íbúum þessara svæða.