Bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 16:07:40 (7417)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð í viðbót við það sem hv. frsm. minni hluta utanrmn. sagði en vil taka undir þau sjónarmið sem hann hafði fram að færa. Eins og hv. frsm. meiri hlutans gat var viðskiptabannið fyrst og fremst sett á sem pólitískur þrýstingur og það er nákvæmlega ástæðan fyrir því að það er að mati minni hluta utanrmn. talið heppilegt að bíða um stund. Ekki er verið að tala um langa bið heldur að bíða um stund með að aflétta banninu vegna þess að það getur hugsanlega skapað pólitískan þrýsting í samfélagi með öðrum þjóðum sem velja sömu leið. Þessa þrýstings er leitað og má þar nefna þá niðurstöðu sem varð af fundinum í Jóhannesarborg 19.--21. febr. Mér finnst í rauninni að þar sem við eigum fyrst og fremst að vera sjálfum okkur samkvæm í þessu væri það helst gert með því að bíða eftir því að samþykkt dagsetning kosninga hafi verið tilkynnt því að það er vonandi í vændum núna þrátt fyrir að það hafi verið að einhverra mati komið dálítið bakslag eftir hið hörmulega morð á Chris Hanis, eins af forustumönnum Afríska þjóðarráðsins. Það yrði í mesta lagi stutt töf en þrátt fyrir allt er líka mikilvægt að við höfum örlitla viðspyrnu ef svo ólíklega vildi til að þróunin hægði á sér því að það er mikilvægt að beita þeim ráðum sem hægt er til þess að leggja þeim lið sem eiga í mannréttindabaráttu. Það er klárlega það sem vakti fyrir stjórnvöldum, er þetta bann var sett. Þótt bannið hafi verið við lýði í fimm ár þá skiptir ekki sköpum að það verði í einhverja mánuði í viðbót vegna verslunarhagsmuna okkar. Vissulega er rétt að sum samkeppnisríkja okkar hafa aflétt verslunarbanni en önnur hafa ekki gert það og þetta er vonandi og að mínu mati aðeins spurning um stuttan tíma en þetta er spurning um að vera sjálfum sér samkvæmur pólitískt séð. Það tel ég að skipti miklu máli.
    Í grein í Time 19. apríl sl. er einmitt sérstaklega gert að umtalsefni í tilefni morðsins á Chris Hani að það að vera samkvæmur sjálfum sér í baráttunni hafi unnið þá sigra, sem þegar hafa verið unnir, í þeim þrýstingi sem flestar þjóðir hafa beitt Suður-Afríku og þessi árangur hefur náðst vegna þess að þessi þrýstingur hefur verið sá sem hann er. Af þessum ástæðum tel ég að við eigum að doka við og það er ekki nema um smástund að ræða. Við eigum að beita þeim þrýstingi sem mögulegt er, nýta þau pólitísku tækifæri sem við höfum til að leggja þessu máli lið allt til þess að það hillir undir meiri mannréttindi og meira réttlæti.
    Með þessu er ég ekki að gera lítið úr því sem hefur verið gert. Ég vek athygli á því að fulltrúar þeir sem komu frá Suður-Afríkusamtökunum á fund hæstv. utanrmn. lögðu ríka áherslu á að sá árangur, sem hefði náðst, væri mjög umtalsverður og þetta væri einungis spurning um örlitla biðlund og þá væri fullnaðarsigur unninn.