Bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 16:12:50 (7418)


     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Eins og hefur komið fram er ekki ágreiningur um það í utanrmn. hvort aflétta skuli viðskiptabanninu við Suður-Afríku heldur hvenær. Ágreiningurinn er um hvort það skuli gert núna eins og meiri hluti nefndarinnar leggur til eða hvort skuli beðið eins og segir í brtt. minni hlutans: ,,lögin skulu ekki öðlast gildi fyrr en samkomulag liggi fyrir um lýðræðislegar kosningar í Suður-Afríku``. Minni hlutinn vísar til samþykktar á ráðstefnu Afríska þjóðarráðsins sem haldin var í Jóhannesarborg dagana 19.--21. febr. sl. Eins og við vitum er atburðarásin ákaflega hröð í Suður-Afríku og margt sem gerist, hörmungar, manndráp og upplausnarástand að nokkru leyti og hins vegar heldur þessi stjórnmálaþróun áfram. 1. apríl sl. var efnt til fundar í CODESA sem er samstarfsvettvangur stjórnmálaafla allra kynþátta í landinu. Ef menn vilja kynna sér þann samstarfsvettvang nánar bendi ég á grein sem Davíð Þór Björgvinsson, dósent í lagadeild háskólans, ritaði nýlega í Morgunblaðið um þessa þróun þar sem hann lýsir stjórnskipulegri stöðu mála.
    1. apríl hittust þessir fulltrúar á fundi og komu sér saman um að halda áfram samningaviðræðum og liggur ljóst fyrir að ekki er lengur deilt um að hvort lýðræðislegar kosningar eigi að fara fram, það er markmið sem allir vinna að, og samkomulag liggur fyrir um að lýðræðislegar kosningar fari fram í landinu. Talað er um að þær muni fara fram annað hvort í mars eða apríl á næsta ári. Um þetta fékk ég ítarlegar upplýsingar frá sendiráði Suður-Afríku í Danmörku sem ég hef sent öllum nefndarmönnum í utanrmn. og þar geta menn kynnt sér sjónarmið stjórnvalda um þennan þátt málsins. Síðan geta menn einnig

kynnt sér þróunina af lestri blaðagreina þar sem fjallað er um þessa framvindu og m.a. í nýjasta tölublaði danska blaðsins Weekendavisen er þetta rakið mjög nákvæmlega og skýrt frá því að fyrir lok maí eigi að vera komið samkomulag um hvernig eigi að standa að frekari breytingum. Fyrir lok júní eigi að setja á laggirnar samstarfsráð um hvernig eigi að framkvæma breytingarnar og koma á laggirnar kjörnefndum og kosninganefnd. Fyrir lok október nk. er miðað að því að menn hafi náð samkomulagi og samþykkt kosningalöggjöfina og síðan verði kosningarnar eins og hér segir, líklega í mars. En í ramma þess samkomulags, sem allir 26 flokkarnir í Suður-Afríku starfa eftir og vinna innan, er gert ráð fyrir því að kosningar verði í síðasta lagi í apríl á næsta ári. Enda þótt miðað hafi verið við og minni hlutinn miði við fund, sem var haldinn í febrúar, finnst mér að svo margt hafi gerst síðan að það liggi alveg ljóst fyrir að þeim skilyrðum, sem minni hlutinn setur, verði ekki aflétt fyrr en samkomulag liggi fyrir um lýðræðislegar kosningar, þeim skilyrðum hafi þegar verið fullnægt. Samkomulag liggur fyrir um lýðræðislegar kosningar. Tímaáætlun liggur fyrir um það hvernig að þessu starfi skuli unnið og það liggur fyrir hvað eigi að gera á hverjum tíma og viðræðurnar 1. apríl sl. voru taldar skila meiri árangri og betri árangri en menn væntu. Mér finnst að ágreiningurinn um tímasetninguna í þessu hljóti að vera úr sögunni ef menn líta á þessi gögn og miða við það sem fram kom í utanrmn.
    Sagt er að Kanadamenn hafi ekki enn samþykkt afnám bannsins. Það má að verulegu leyti rekja til aðildar Kanada að breska samveldinu og sjónarmiðum sem þar ríkja. Að sjálfsögðu snertir það ekki okkur Íslendinga þar sem við erum ekki hluti af því samstarfi sem samveldisríkin eiga.
    En varðandi tímasetninguna finnst mér líka nauðsynlegt að hafa í huga að þetta snertir íslensk fyrirtæki. Það er alveg vitað mál og það liggur fyrir að það eru mörg íslensk fyrirtæki sem vænta þess að nú í vor verði tekin ákvörðun um afnám viðskiptabannsins og þegar ágreiningur um það á þinginu er ekki alvarlegri en það sem hefur komið fram væri mjög æskilegt að allir gætu sameinast um málið. Ég nefni eitt dæmi, eitt fyrirtæki, það er fyrirtækið Marel sem er að sækja inn á markað í Namibíu eins og við vitum. Íslendingar ætla sér stóran hlut við uppbyggingu á sjávarútvegi og fiskveiðum í Namibíu. Marel lítur þannig á að Namibía og Suður-Afríka séu eitt markaðssvæði og tvö fyrirtæki í Suður-Afríku ráða yfir 80% af fiskveiðkvóta landsins og miklu í Namibíu. Þessi fyrirtæki á Marel viðskipti við og það kann að verða þannig að ef við afnemum ekki viðskiptabannið verði spillt fyrir möguleikum Íslendinga við uppbyggingu á sjávarútvegi og fiskveiðum í Namibíu og þeim verkefnum sem við viljum vinna þar að vegna þess hve markaðurinn er samtengdur Suður-Afríku. Það er því tímaþrýstingur í málinu með íslenska hagsmuni í huga og eins og ég segi, þegar ágreiningurinn er ekki meiri en sá sem ég hef lýst, finnst mér að við séum að deila um keisarans skegg þegar við erum að lýsa ágreiningi í þessu efni. Ég mæli eindregið til þess að frv. verði samþykkt og viðskiptabannið við Suður-Afríku verði afnumið strax í vor.