Bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 16:23:35 (7420)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Það er alveg sjálfsagt að taka málið fyrir í utanrmn. á mánudaginn. Þar verður fundur og atkvæðagreiðsla um málið fer væntanlega ekki fram fyrr en í fyrsta lagi á mánudaginn. Sjálfsagt er að taka það fyrir á fundi þá um morguninn og ég get látið nefndarmenn hafa dönsku blaðagreinina, sem ég las úr sem kom ekki út fyrr en núna um helgina, þannig að ekki er von að nefndin hafi getað tekið afstöðu til þess og ekki við nefndarmenn að sakast þegar nýjar upplýsingar berast. Hitt er ljóst að samkomulagið liggur fyrir og engar tímasetningar þarf í því efni. Mér finnst að það eigi að afnema bannið og ekki verður heldur deilt um það á milli minni hluta og meiri hluta hvort eigi að afnema það í áföngum eða ekki. Það verður að afnema þetta viðskiptabann og það verður að afnema það eins og minni hlutinn segir þegar þetta samkomulag liggur fyrir. Ég tel að þetta samkomulag liggi fyrir og ég get komið þessum upplýsingum til meðnefndarmanna minna og mun gera það á mánudaginn og þá sjáum við til hvernig staðan verður í málinu þegar það kemur hér til atkvæðagreiðslu á mánudag.