Eftirlit með skipum

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 17:04:15 (7429)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að bæta aðeins fáum orðum við þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég tel að það sé margt í þessu frv. sem horfir til bóta og ég mun styðja það. Það er auðvitað ekki allt eins og menn vilja hafa það og þegar margir koma að máli, þá þarf stundum að sætta sjónarmiðin. Ég get vissulega tekið undir það sem hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði um ábyrgð vélstjóra, en ég er honum ekki alveg sammála. Ég tel að með því að vísa til sjómannalaganna, þá sé í raun og veru verið að gera þessum sjónarmiðum hátt undir höfði og ég tel ekki að vélstjórar eigi að neinu leyti að þurfa að vera í vafa um sína stöðu þó að þeirra nafn sé ekki þarna sett. Ég hefði reyndar talið að skipstjóra hefði átt að telja fyrstan í þessari röð og það sé hann í raun og veru sem ber alltaf ábyrgðina þegar upp er staðið og það sé það sem hefði þá í raun og veru átt að koma skýrast fram.
    Ég ætlaði að nefna hér atriði sem við höfum fjallað um í nefndinni. Það er það ákvæði sem nefndin leggur til að komi í 6. gr. 2. mgr. Það er þannig orðað:
    ,,Ráðherra setur reglur um hæfniskröfur er þeir sem hanna og smíða skip skulu uppfylla. Þær skulu m.a. taka mið af réttindum hlutaðeigandi iðngreina.``
    Það sem hér er á ferðinni er að nefndin er að koma því til skila til ráðuneytis, ráðherra og stofnunarinnar að hún taki þessi mál til endurskoðunar og það er ástæða til þess að gera það vegna þess að hjá þessari stofnun tíðkast aðferðir sem ekki eru með sama hætti hjá sambærilegum iðngreinum. Ef við t.d. tökum húsasmíðar og byggingarreglugerðir og berum það saman við skipasmíðar og eftirlit með þeim og þær reglugerðir sem farið er eftir, þá kemur það í ljós að það eru ekki gerðar kröfur með sama hætti til ábyrgðar á verkefnum í skipasmíðum eins og hjá húsasmiðum. Það er t.d. alveg skýlaus krafa að húsasmíðameistari skuli bera ábyrgð á öllum verkefnum í húsasmíðum og það má kannski orða það þannig að menn þurfa að hafa meistaraskóla, menn þurfa að hafa öll réttindi til þess að mega bera ábyrgð þó ekki sé á öðru en því að smíða dyraskýli við húsið sitt. En þannig hagar til í dag að það getur hvaða maður sem er smíðað skip, lagt í það rafmagn og unnið öll þau verk sem tilheyra skipasmíði án þess að hafa til þess nokkur réttindi. Og ég verð að segja það alveg eins og er að ég held að það séu ekki mikil brögð að því að þeir sem ekki kunna til verka séu að framkvæma þessa hluti. En mér finnst fáránlegt að þannig sé staðið að og mikið ósamræmi í því að annars vegar gera þær kröfur sem eru gerðar t.d. til bygginga í landinu, en framleiðsla og smíði og viðgerðir á skipum sem eru að mínu viti ekki síður mikilvægt að gera miklar kröfur um þann iðnað að það skuli vera með þessum hætti. Þessu vildi ég nú vekja hér athygli á.
    Svo vil ég koma að því atriði sem hv. 3. þm. Reykn. var hér að nefna, þ.e. með innflutninginn á skipum og þau ákvæði um hámarksaldur þeirra sem hér eru lögð til. Nú er eingöngu lagt til að innflutt fiskiskip verði háð þessum hámarksaldri og hann hækkar úr 12 árum í 15 ár. Og ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst að fiskiskip séu bara orðin alveg nægilega gömul til innflutnings þegar þau eru orðin 15 ára og það þurfi ekki að vera opið fyrir það að þau verði flutt inn eldri. Það mun setja Siglingamálastofnun í mikinn vanda og hefur raunar gert á undanförnum árum að þurfa að glíma við það að gera kröfu til breytinga á skipum sem menn hafa keypt erlendis og í góðri trú stundum um að ekki þyrfti svo mikið að gera við þau og hafa svo staðið frammi fyrir kröfum Siglingamálastofnunar sem hafa kostað miklu meira en þeir létu sér detta í hug þegar þeir ákváðu kaupin á þessum skipum. Þetta er bara vandi sem Siglingamálastofnun hefur staðið frammi fyrir hvað eftir annað. Og ég vil meina að henni sé töluvert aukinn vandi með því að hækka þessar reglur upp í 15 ár fyrir nú utan það að nú er þessum reglum aflétt af öðrum tegundum skipa og ég tel að þar hafi kannski verið fulllangt gengið að aflétta þeim gagnvart flutningaskipunum en geri mér hins vegar grein fyrir því að það verður býsna erfitt að halda slíkum ákvæðum á um flutningaskipin ef EES-samningarnir koma til framkvæmda. Í þeim er raunverulega gert ráð fyrir því að hver sá sem flytur eða á skip eða kaupir það í EES-ríkjunum hafi rétt til að fá þau skráð á Íslandi hafi þau hlotið þar haffæriskírteini og að það verði ekki gerðar kröfur um neinar breytingar á skipum sem hafa hlotið haffæriskírteini á EES-svæðinu þó að menn sæki um að fá að skrá þau hér á landi þannig að út af fyrir sig held ég að menn verði að viðurkenna það að ef væru hámarksakvæði hér á ferðinni gagnvart flutningaskipum, þá mundu þau varla halda.
    Ég ætla svo sem ekki að fara að teygja lopann yfir þessum hlutum annað en að segja það að við höfum talið það skyldu okkar að gera meiri kröfur til fiskiskipaflotans hjá okkur en gerðar eru til fiskiskipa í löndunum í kringum okkur. Ég held að menn þurfi að vara sig á því að missa ekki út úr höndunum á sér þann rétt og þann möguleika að halda í sérstöðu okkar í þessu. Við erum að bjóða sjómönnum okkar upp á miklu óblíðari og erfiðari aðstæður á fiskimiðunum en yfirleitt er sótt út í frá löndunum í kringum okkur og það er þess vegna sem menn hafa talið það réttlætanlegt að gera töluvert meiri kröfur til fiskiskipaflotans hérna, bæði hvað varðar öryggi, aðbúnað skipverja og styrkleika á skipum. Þetta er eitthvað sem ég tel að við eigum að halda í og það er þess vegna sem ég vil meina að við eigum ekki að gefa meira eftir í þessum málum heldur en hér er lagt til.