Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála

162. fundur
Mánudaginn 26. apríl 1993, kl. 14:09:22 (7443)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála. Frv. felur í sér nokkrar breytingar á gildandi lögum um stofnunina, einkum í auknu sjálfstæði stofnunarinnar, auknum verkefnum henni til handa og beinni þátttöku kennara í starfi hennar.
    Nauðsyn vel skipulagðra og faglegra rannsókna á skólastarfi hér á landi er óumdeild. Með þessu frv. er stigið mikilvægt skref í þá átt að auka rannsóknir og mat í þágu menntamála. Mikilvægt er að slíkar rannsóknir séu framkvæmdar af óháðum aðila. Þannig er lögð áhersla á sjálfstæði rannsóknastofnunar gagnvart yfirvöldum menntamála annars vegar og þeim aðilum er meta skal hins vegar. Í samræmi við aukið verksvið stofnunarinnar er gert ráð fyrir því í 2. gr. frv. að Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála skiptist í tvær deildir, rannsókna- og þróunardeild annars vegar og prófa- og matsdeild hins vegar. Auk þess að framkvæma rannsóknir, sjá um samningu prófa og sjá um mat á skólastarfi er gert ráð fyrir að stofnunin sinni faglegri ráðgjöf um rannsóknir og þróunarverkefni, svo og þjálfun og ráðgjöf til kennara, kennaraefna og háskólastúdenta í fræðilegum vinnubrögðum. Þá veitir rannsóknastofnunin menntmrh. ráðgjöf um breytingar á námsskrá í samræmi við niðurstöður prófa og mats á skólastarfi.
    Varðandi stjórnun stofnunarinnar þykir rétt að hverfa frá því skipulagi að stjórnarnefnd tilnefnd af tilteknum aðilum stýri daglegu starfi. Í frv. er því gert ráð fyrir að stjórnun þessarar stofnunar verði með sama hætti og yfirleitt er um stofnanir ríkisins þar sem forstöðumaður stýrir venjulegum rekstri. Gerðar eru sömu kröfur til hæfni forstöðumanns og gerðar eru til prófessora við Háskóla Íslands. Menntmrh. ráði forstöðumann til fimm ára í senn. Þá er gert ráð fyrir að starf stofnunarinnar verði metið á þriggja ára fresti af þar til kvöddum sérfræðingum.
    Í stað stjórnarnefndar samkvæmt núgildandi lögum er gert ráð fyrir faglegri ráðgjafarnefnd sem tekur þátt í mótun heildarstefnu en hlutast ekki til um dagleg rannsóknarstörf. Í ráðgjafarnefndinni eigi sæti sex aðilar. Fulltrúum kennara er fjölgað um einn þar sem bæði Kennarasamband Íslands og Hið íslenska kennarafélag eigi fulltrúa í ráðgjafarnefndinni. Einnig á rektor Háskólans á Akureyri að taka sæti í nefndinni, en þar hefur nú verið stofnuð kennaradeild. Auk þess eiga sæti í nefndinni eins og var í stjórnunarnefndinni fulltrúi menntmrh. sem formaður nefndarinnar, rektor Háskóla Íslands og rektor Kennaraháskóla Íslands.
    Með þessu frv. er verið að tryggja þátt kennara í beinu starfi Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála umfram það sem er samkvæmt gildandi lögum. Samkvæmt núgildandi lögum geta einungis háskólakennarar innt vinnuskyldu sína af hendi við stofnunina, en í frv. er gert ráð fyrir að kennarar á grunnskóla- og framhaldsskólastigi eigi þess einnig kost, sbr. það sem segir í 6. gr. frv. Lögð er áhersla á að gera stofnunina stjórnunarlega óháða yfirvöldum menntamála og öðrum þeim er aðild eiga að starfsemi þeirri sem meta skal. Stofnuninni er tryggt aðhald en jafnframt veitt aukið frelsi þar sem hagsmunaaðilar munu ekki hafa beinan íhlutunarrétt í daglegu starfi stofnunarinnar.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.