Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála

162. fundur
Mánudaginn 26. apríl 1993, kl. 14:14:03 (7444)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. sem tekur á mjög mikilvægum atriðum í skólastarfi, rannsóknum og mati og mér sýnist fljótt á litið að þetta frv. sem hér hefur verið mælt fyrir af hæstv. menntmrh. sé til bóta hvað varðar þennan þátt mála. Ég áskil mér að sjálfsögðu rétt til þess að koma með athugasemdir í umfjöllun hv. menntmn. um málið, en það er ljóst að bæði rannsóknir og mat á skólastarfi hefur verið vanrækt hér fram til þessa. Á síðasta þingi lagði ég fram þáltill. ásamt öðrum hv. þm. sem átti að taka á þessu máli, og þá á ég við mati á skólastarfi, þar sem lagt var til að skipuð yrði nefnd sem mótaði tillögur um það hvernig mat á skólastarfi skyldi fara fram. Þessi tillaga náði ekki fram að ganga, en í áfangaskýrslu 18 manna nefndar sem hæstv. menntmrh. skipaði til þess að móta tillögur að nýrri menntastefnu, er kafli sem fjallar um mat á skólastarfi. Það eru ekki fullmótaðar tillögur sem þar koma fram

þannig að á þessu stigi málsins er erfitt að gera sér grein fyrir nákvæmlega hvernig meiningin er að þetta mat fari fram, en þó er þar gert ráð fyrir að fjölga samræmdum prófum í grunnskólanum. Vel má vera að ástæða sé til þess, en hitt er annað mál að það þarf að hafa í huga að það er kostnaðarsamt og fleira sem þarf að skoða áður en teknar eru ákvarðanir um slíkt, en ég vona að hv. Alþingi fái að koma að þeim málum áður en frá því verður endanlega gengið.
    Ég lýsi ánægju með það að verið er að gera þá stofnun sem hér um ræðir sjálfstæðari en hún er í dag með þessu frv. og auk þess er tryggð aðild bæði Kennarasambands Íslands og Hins íslenska kennarafélags að stofnuninni í gegnum ráðgjafarnefnd og þá vil ég sérstaklega taka fram að það að Háskólinn á Akureyri skuli einnig eiga þar aðild tel ég af hinu góða.
    Sem sagt, fljótt á litið sýnist mér að hér sé tekið á þörfu máli. Nú er ekki langt eftir af þessu þingi þannig að ég geri mér ekki grein fyrir því hvort menntmn. tekst að afgreiða þetta frv. á þeim örfáu dögum sem eftir eru ef staðið verður við starfsáætlun, en þó segir mér svo hugur að þetta mál geti unnist nokkur hratt þar sem það er frekar einfalt í sniðum, en eins og ég tók fram í upphafi máls míns, þá áskil ég mér að sjálfsögðu rétt til þess að komi athugasemdir í hv. menntmn.