Ráðgjafar- og fræðsluþjónusta fyrir nýbúabörn

162. fundur
Mánudaginn 26. apríl 1993, kl. 15:24:48 (7453)


     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hans athugasemdir í þessari umræðu sem ég vil nú leyfa mér að túlka sem stuðning við þessa tillögu, a.m.k. það að komið sé á laggirnar þeirri þjónustu sem hér um ræðir og ég vona að það verði líka hv. menntmn. veganesti við afgreiðslu þessa máls. En ég ítreka það að hér er um uppsafnaðan vanda að ræða. Nú þegar stöndum við frammi fyrir því að við þurfum bæði að styðja þau börn sem þegar eru innan okkar skólakerfis og ég fagna því að sjálfsögðu að

nú er farið að huga að því og raunar var mér nokkuð vel kunnugt um það, en ég ítreka það sem hv. 1. flm. þessarar tillögu hefur sagt í þessu viðtali sem ég vitnaði til að þetta kostar bæði fé og fyrirhöfn. Og það er kannski það sem ekki síst vantar núna. En allt sem komið er af stað í þessu er af hinu góða. Það er ég sannfærð um og ég geri ráð fyrir að það muni jafnframt sýna fram á það að hér sé um það stórt mál að ræða að það þurfi að feta sig áfram og gera betur og m.a. og ekki síst taka við þeim ábendingum sem eru í þessari tillögu og framfylgja þeim og það verður auðvitað best gert með því að samþykkja tillöguna.
    Ég ítreka það að ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka jákvætt í efni tillögunnar, taka undir þau sjónarmið sem þar koma fram og staðfesta það að það er skilningur á því að hér þurfi að halda áfram og gera betur því að hér höfum við kannski verið í okkar einangrun dálítið andvaralaus og ekki gert okkur grein fyrir því að nú þegar er hér um töluvert mál að ræða og ekki mun það minnka. Ég er sannfærð um það sjálf að það verða gerðar auknar kröfur á okkur í framtíðinni og mér finnst það ekki óeðlilegt að taka á móti flóttafólki og þá verðum við að vera reiðubúin til þess að gera það með þeim sóma og þeirri reisn sem okkur er skylt og gera öllum þeim sem hingað til landsins flytja kleift að standa sem réttast og best í okkar samfélagi.