Íþróttasjóður ríkisins

162. fundur
Mánudaginn 26. apríl 1993, kl. 15:51:50 (7459)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er að vonum að flm. þessarar þáltill. sjái ástæðu til að hreyfa þessu máli hér á Alþingi því að efndir ríkisstjórnarinnar á fyrirheitum um Íþróttasjóð ríkisins og byggingu íþróttamannvirkja hafa verið með slíkum endemum að það væri full ástæða til þess að Alþingi tæki nú af skarið og gæfi ríkisstjórninni strangari fyrirmæli, einkum ef málið er skoðað í ljósi þeirra yfirlýsinga sem sá flokkur lét frá sér fara sem fer með þessi málefni í núverandi ríkisstjórn. Þar var ekki skortur á gylliboðum og yfirboðum til þess að ná eyrum hv. kjósenda. Fátt er mönnum heilagt í Sjálfstfl. til þess að fá stuðning kjósenda fyrir kosningar en hins vegar vill það nú brenna við hjá þeim ágæta flokki að lítið verður um efndirnar þegar kemur að því að standa við hin fögru fyrirheit. Og það hittir einmitt vel á að koma fram með þessa þáltill. og ætti að minna hæstv. menntmrh. á þá samþykkt, sem hann á að starfa eftir frá sínum flokki, sem Sjálfstfl. lét frá sér fara á landsfundi 10. mars 1991. Þar gaf hann út línuna um það hvað sá flokkur mundi gera ef hann fengi aðstöðu til þess að hreyfa við þessum málum hér á Alþingi. Og það var nú ekkert lítið sem var í boði. Ég vil, með leyfi forseta, fá að vitna hér í þann kafla samþykktar landsfundar Sjálfstfl., flokks hæstv. menntmrh., sem er svo umhugað um opinbera sjóði eins og allir vita og ætla að lesa fáeinar línur undir kaflanum Íþróttamannvirki, svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Endurskoða þarf verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með það í huga að auka hlutdeild ríkisins í byggingu íþróttamannvirkja. Í þessum efnum skal leggja sérstaka áherslu á byggðarlög þar sem slík mannvirki eru ekki fyrir hendi. Landsfundur Sjálfstfl. leggur til að sérstakt átak verði gert í landinu þar sem reist verði íþróttahús í öllum byggðarlögum landsins þar sem engin slík aðstaða er fyrir hendi.``
    Hér er miklu lofað. Nú er ástæða til að spyrja hæstv. menntmrh. sem var svo lánssamur fáum dögum eftir að búið var að samþykkja þessa yfirlýsingu hans flokks að setjast í ríkisstjórn sem fer með þessi mál, menntamálin, íþróttamálin, og hefur fjmrh. þar að auki sér til halds og trausts til að efna kosningaloforðið. Hvar eru efndirnar, hæstv. menntmrh.? Hvar eru efndirnar? Það var ekki að heyra í ræðu hæstv. ráðherra hér áðan að það væri neitt verið að vinna í því að auka þessi framlög. Það væri fróðlegt að fá fram frá hæstv. ríkisstjórn og þeim ráðherra sem fer með þessi mál hvernig á að standa við þessi fyrirheit. Eða var þetta bara ,,allt-í-plati-samþykkt`` hjá Sjálfstfl. eins og margt annað í þessari hvítu bók sem hefur örninn eða fálkann framan á, nokkuð grimmilegan fugl? Það verður nefnilega knúið á um efndir í byggðarlögum nákvæmlega það sem tilgreint er í samþykktinni, þar sem aðstaðan er ekki fyrir hendi. Því hef ég kynnst á ferðum mínum um landið undanfarnar vikur. Menn vilja fara af stað til að koma þessari aðstöðu upp á stöðum bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum þar sem engin aðstaða er fyrir hendi. Og hvaða stuðnings mega þessir aðilar vænta frá hæstv. ríkisstjórn í ljósi yfirlýsingar Sjálfstfl.? Menn vilja fara af stað með þessar byggingar á stöðum eins og Bíldudal, Þingeyri, Súðavík, Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði, svo ég nefni dæmi. Menn bíða eftir efndunum. Það er ekki svo að þetta mál hafi verið kjósendum lítils virði. Menn tóku eftir þessu og lögðu nokkuð upp úr því að stjórnmálaflokkar hefðu stefnu í þessum málum og vilji gera eitthvað því að þetta er eitt af þeim málum sem treystir búsetu í landinu, að skapa aðstöðu þar sem hún er ekki fyrir hendi á þessu sviði. Og það væri fróðlegt, virðulegi forseti, fyrst fjórir þingmenn hafa tekið sig til um að flytja málið í stað hæstv. menntmrh. að ráðherrann upplýsti hvar efndirnar eru á vegi staddar hjá hæstv. ríkisstjórn. Eða á kannski að fara með þessa samþykkt og þessi fyrirheit eins og margt annað að það er allt í plati, að menn geti ekki treyst Sjálfstfl. í þessum efnum eins og mörgum öðrum?