Afgreiðsla mála í iðnaðarnefnd

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 13:44:19 (7467)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég átti ekki von á því að hv. formaður iðnn. notaði þetta tækifæri sérstaklega til að gera grín að þeirri ríkisstjórn sem hann hefur talið sig stuðningsmann að ( ÖS: Ég notaði ekki tækifærið til þess.) með því að tala um að hér væru flókin mál er þarfnist yfirlegu ( Gripið fram í: Þetta er kannski bara allt of flókið mál.) og telji ekki að hæstv. ríkisstjórn sé bær um það að koma frá sér þessum málum af þeim sökum. Hitt liggur fyrir að hæstv. iðnrh. var ekki fyrst að líta á þessa pappíra sl. haust. Hann er búinn að vera með í mótum frv. um þessi efni að ég veit og það var kynnt í iðnn. á sínum tíma fyrir um tveimur árum síðan og reyndar iðnaðarráðherrar á undan honum allt frá dögum Sverris Hermannssonar sæla, en á sínum tíma flutti ég frv. um þetta efni á þingi 1982--1983, um bæði þessi efni.
    Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að ég átel þá málsmeðferð sem hér liggur fyrir af hálfu iðnn. eins og málum er komið svo ekki sé nú talað um stöðu ríkisstjórnarinnar gagnvart þessum þýðingarmiklu málum, þar sem Evrópurétturinn er að dynja yfir ef EES-samningurinn verður staðfestur. Og hvar standa menn þá? Ég treysti hæstv. forseta til að taka á þessu máli gagnvart iðnn. og fylgjast með því að um þessi frumvörp verði fjallað í ljósi þeirrar alvöru sem þessi mál eru í nú og ætti að vera öllum þingheimi ljóst.