Eftirlit með skipum

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 13:55:41 (7469)

     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Hér er um algjört smámál að ræða. Við leggjum til að lögin eins og þau eru standi óbreytt hvað þetta atriði snertir. Hér er einvörðungu um það að ræða að eigandi skips og útgerðarmaður í landi og skipstjóri af skipshöfninni beri ábyrgð á því að lögskipuð skoðun fari fram sem mun vera á um það bil eins árs fresti. Það haggar í engu að þegar skoðunargerðin sjálf er framkvæmd, þá verða auðvitað yfirvélstjóri eða aðrir vélstjórar skipsins til staðar til þess að gefa upplýsingar og finna að því sem betur mætti fara og þarf að athuga við skoðunargerðina sjálfa. ( Gripið fram í: Þetta er rangt.) Þetta raskar í engu hlut yfirvélstjóra eða annarra yfirmanna sem standa að baki skipstjóra skipsins. Einvörðungu er um það að ræða að skipstjóri skal framfylgja því eða bera ábyrgð á því að lögum um lögskipaðar skoðunargerðir sé hlýtt. Að öðru leyti er málið algjört smámál og þarf ekki frekari útskýringar við.