Bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 14:15:44 (7475)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni blóði drifinnar ræðu hv. 2. þm. Vestf. er rétt að taka fram eftirfarandi: Stjórnvöld á Norðurlöndum hafa aflétt þessu viðskiptabanni sem hér segir: Finnsk stjórnvöld gerðu það í

júní 1991, dönsk stjórnvöld 17. mars 1992 og síðar öll aðildarríki Evrópubandalagsins. Sænsk stjórnvöld hafa lagt til að viðskiptabannið verði afnumið. Það er til meðferðar í sænska þinginu. Formaður sænskra jafnaðarmanna, Ingvar Carlsson, hefur lýst því yfir að hann styðji þessar aðgerðir stjórnarinnar og litið er á þá yfirlýsingu hans sem afstöðu sænska Jafnaðarmannaflokksins. Norsk stjórnvöld afnámu viðskiptabannið 15. mars þannig að það eru þá stjórnvöld alls staðar á Norðurlöndum sem hafa þegar tekið þessar ákvarðanir. Að því er varðar bann við vopnasölu, þá er það áfram í gildi eins og nánar hefur verið skýrt. Ég geri ráð fyrir því að ásakanir hv. 2. þm. Vestf. um mútustarfsemi og annað slíkt eigi þá við í öllum þessum tilvikum en af því að hann spurði um viðskiptahagsmuni, þá er rétt að svara því málefnalega: Það eru aðeins ein samtök sem hafa óskað eftir beinu viðskiptalegu samstarfi milli Íslendinga og Suður-Afríku, þ.e. íslenskum fjárfestingum í Suður-Afríku og það er ANC, þ.e. African National Congress, hin pólitísku baráttusamtök fyrir mannréttindum blökkumanna og íslensk stjórnvöld hafa reynt að taka því vel.