Bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 14:22:16 (7477)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það þarf alveg sérstaka athyglisgáfu til að hlýða á ræður hæstv. utanrrh. Það þarf eiginlega sömu hæfileikana og þegar menn lesa meðmælabréf. Það er ekki það sem stendur í meðmælabréfi sem skiptir máli, heldur það sem menn hafa komið sér undan að setja í meðmælabréfið, það sem menn koma sér undan að segja frá til þess að þurfa nú ekki að greina ósatt frá. Hæstv. utanrrh. er sérfræðingur í að flytja ræður af því tagi að það sem hann lætur ósagt er það sem skiptir öllu máli, ekki það sem hann segir, enda mjög tæpt á því að hann feti vegi sannleikans með það sem hann segir.
    Í þessu máli blasir það við að hæstv. utanrrh. staðfesti það hér í þessum ræðustól, ef rétt er hlýtt, að það er ekki búið að ákveða hvenær kosningarnar fara fram. Það staðfesti hæstv. utanrrh. hér. Það má kannski segja líka að hann hafi staðfest það á sinn hátt varðandi hagsmunina. Það liggur alveg ljóst fyrir að það eru ekki hagsmunir íslenskrar þjóðar að gera þetta. Það er engin vöruþurrð í verslunum á Íslandi. Allan þann varning sem þeir eru að selja getum við keypt af sómasamlegum aðilum. Það sem blasir við er það að verið er að þrýsta á það á bak við af einhverjum aðilum með fjárhagslega hagsmuni að þetta verði gert. Það er það sem blasir við. Það er það sem gerðist á Norðurlöndum. Mönnum varð svo brátt. Menn biðu ekki eftir því hvort það yrði staðreynd að kosningar yrðu eða ekki.

    Hæstv. utanrrh. hefur ekkert upplýst enn með kratagullið frá Noregi, hverjir borguðu. Því var lofað á sínum tíma af foringja Alþfl. að það yrði upplýst. Því var lofað. Svo var það borið á borð fyrir alþýðu þessa lands að það væri eitthvert verkalýðsfélag í Noregi sem hefði verið að borga peninga til íslenska Alþfl. Það hefur verið ljóta misnotkunin á fjármagni sem þar hefur átt sér stað. Hvernig haldið þið að hafi gengið að lesa það upp hjá verkalýðsfélaginu á fundi að svona mikið hafi verið greitt úr sjóðum félagsins til íslenska Alþfl.? Sá gjaldkeri hefði verið rekinn sem hefði látið sér detta í hug að lesa upp slíkt á fundi. Það liggur þess vegna ljóst fyrir, það er staðreynd, að það kom erlent fé inn til íslenska Alþfl. á sínum tíma. Í dag er ekkert gefið upp hvernig rósakaupin eru fjármögnuð, það er ekkert gefið upp. En það styttist í kosningar og það þarf að fara að ganga frá því hvernig eigi að fjármagna rósakaupin. Það blasir við. Það má vel vera að hæstv. utanrrh. vilji tengja þetta tvennt saman og verði honum þá að góðu og njóti hann vel.