Viðskiptabankar og sparisjóðir

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 14:38:58 (7479)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. og brtt. efh.- og viðskn. um frv. til laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Frv. hefur verið rætt allmikið í nefndinni og nefndin hefur náð saman um þetta álit og þessar brtt. og ég vil þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir gott starf að málinu.
    Ég vil rekja í stuttu máli þær brtt. sem nefndin leggur til að gerðar verði við frv. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að síðari mgr. 1. gr. falli brott þar sem segir að málefni viðskiptabanka og sparisjóða heyri stjórnarfarslega undir viðskrh. Þetta leiðir að sjálfu sér.
    Við 8. gr. er gerð brtt. um það að ríkisviðskiptabanka sé óheimilt án samþykkis Alþingis að taka víkjandi lán í því skyni að efla eiginfjárstöðu sína umfram það sem Tryggingarsjóður viðskiptabanka getur veitt, sbr. 76. gr. frv. Ástæðan fyrir þessu er sú að nefndin telur eðlilegt að það sé sjálfvirk ríkisábyrgð á öllum eðlilegum bankaviðskiptum ríkisbankanna, en að ráðstafanir varðandi eigið fé þeirra hljóti að koma til afgreiðslu Alþingis og að þeir geti ekki gert eiginfjárráðstafanir án þess að fara eftir eðlilegum reglum eins og gilda almennt um ríkisábyrgðir.
    Við 10. gr. er lögð til breyting um að ráðherra geti synjað hluthafa um að eignast hlut í banka og rétt til meðferðar atkvæða. Þar er verið að tala um að ráðherra þurfi að gera slíkt en ekki bankaeftirlitið.
    Um 12. gr. er svipað að segja. Þar er verið að taka á því að það sé ráðherra sem ákveði hvort menn geti farið með hlut í viðskiptabanka en ekki bankaeftirlitið.
    Í 18. gr. er gert ráð fyrir að seinni málsgreinin falli niður en hún er um að fjallað sé um málið í skattalögum.
    Í 23. gr. er gerð brtt. um að 3. mgr. falli brott en þar er líka verið að fjalla um skattalega meðferð sem á heima í skattalögum.
    Í 34. gr. er brtt. þar sem hugtakið ,,skoðunarmenn`` er fellt niður en hugtakið ,,endurskoðandi`` tekið upp í staðinn og gert ráð fyrir því að það séu löggiltir endurskoðendur sem starfi að endurskoðun þessara stofnana.
    Í 39. gr. er gerð brtt. þar sem kveðið er á um að það sé verkefni bankaráðanna að móta stefnu í vaxta- og gjaldskrármálum og setja almennar reglur um lánveitingar og ábyrgðir stofnunarinnar, hvort tveggja að fenginni umsögn bankastjóra eða sparisjóðsstjóra. Hér er átt við að það sé hlutverk bankaráðanna að leggja meginlínur varðandi vaxtaákvarðanir og gjaldskrár án þess að bankaráðin séu að fjalla um gjaldskrána og vaxtaákvarðanir af einstökum lánaflokkum í smáatriðum.
    Einnig kemur inn nýr töluliður sem orðast svo, með leyfi forseta: ,,að setja að fenginni tillögu bankastjóra eða sparisjóðsstjóra leiðbeiningar um árlega upplýsingagjöf til bankaráðs eða sparisjóðsstjórnar um veitt lán og ábyrgðir til einstaklinga og lögaðila sem, beint eða óbeint, vegna eignarhlutdeildar eða á annan hátt hafa veruleg áhrif á ráðstafanir hlutaðeigandi stofnunar eða eru undir stjórn einstaklinga eða lögaðila sem hafa slík áhrif.`` Hér er enn ein grein sem var í frv. felld inn í þessa 39. gr.
    Við 40. gr. er gerð brtt. sams konar og fyrr, þ.e. að hugtakið ,,skoðunarmenn`` falli niður en ,,endurskoðendur`` komi í staðinn. Sams konar brtt. er einnig lögð til við 43. gr.
    Við 44. gr. er brtt. sem er til skýringar og hún hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Um verðbréfaviðskipti viðskiptabanka og sparisjóða gilda eftir því sem við getur átt ákvæði laga um verðbréfaviðskipti.``
    Þá er brtt. við 45. gr. þar sem síðari mgr. breytist og breytist aðeins merkingin þegar einu ,,og`` er breytt í ,,eða``, en greinin hljóðar svo samkvæmt tillögu nefndarinnar, með leyfi forseta: ,,Viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimilt að stunda tímabundið aðra starfsemi en þá sem um getur í 44. gr. ef

það er einungis í þeim tilgangi að ljúka viðskiptum fyrirtækja við viðskiptabanka eða sparisjóð eða liður í endurskipulagningu á starfsemi viðskiptaaðila þessara stofnana.`` Það er því ekki um það að ræða, eins og stóð í frv., að það þurfi hvort tveggja til, lok á viðskiptum og endurskipulagning samhliða heldur er nóg að annað atriðið sé tiltekið.
    Í 46. gr. eru brtt. þar sem verið er fyrst og fremst að breyta því að ráðherrar taki ákvarðanir í staðinn fyrir bankaeftirlitið.
    Lagt er til að 52. gr. falli brott og efni hennar tekið inn í 39. gr.
    Við 53. gr. er brtt. þar sem kveðið er á um að sparisjóðum sé þó heimilt að fela Lánastofnun sparisjóðanna, eða félagi sem leysir hana af hólmi, að leggja fyrir hlutaðeigandi sparisjóð leiðbeinandi tillögur um vexti og þjónustugjöld. Þetta stendur í frv. en við leggjum til að þarna sé líka vitnað til samkeppnislaganna sem eru nýsamþykkt og að þetta þurfi að vera innan ramma þeirra. Nefndin telur reyndar eðlilegt að sparisjóðirnir geti með þessum hætti unnið saman í gegnum Lánastofnun sparisjóðanna. Fyrir því eru margvísleg rök og nefndin sem slík lítur ekki svo á að það samstarf sem hefur verið milli sparisjóðanna í lánastofnuninni brjóti í bága við samkeppnislögin en telur hins vegar eðlilegt að það sé alveg skýrt og falli sem slíkt undir samkeppnislög, sbr. IV. kafla þeirra laga þar sem fjallað er um slíkar heimildir.
    Í 54. gr. er fellt niður hugtak um 90 daga binditíma vegna skilgreiningar á lausu fé,
    Í 55. gr. eru ákvarðanir um að eiginfjárþáttur A skuli nema helmingi eigin fjár fyrir frádrátt. Þar er um það að ræða að víkjandi lán mega ekki vera of stór þáttur í eigin fé viðskiptabankanna.
    Við 58. gr. er brtt. Greinin er umorðuð. Ég ætla ekki að lesa hana upp, en þetta er fyrst og fremst spurning um það að fella texta þessarar greinar inn í það sem viðgengst sem góð endurskoðunarvenja og reikningsskiljavenja í stað þess texta sem fyrir var í greininni.
    Við 61. gr. er líka brtt. þar sem er umorðun á greininni og þar er verið að fella textann betur að því sem gengur og gerist í sambandi við endurskoðun og reikningsskil.
    Við 62. gr. er svipað á ferðinni. Þar er líka um það að ræða að hugtakið ,,skoðunarmenn`` fellur niður en ,,endurskoðandi`` kemur í staðinn.
    Við 63. gr. er enn fremur verið að fjalla um svipaða hluti og fyrst og fremst verið að styrkja frumvarpstextann þannig að hann falli betur að því sem gengur og gerist og telst vera góð venja við endurskoðun og reikningsskil.
    Við 64. gr. er gert ráð fyrir að fyrri mgr. falli brott en að seinni mgr. orðist svo, með leyfi forseta: ,,Bankaeftirlit getur látið fara fram sérstaka endurskoðun hjá viðskiptabanka eða sparisjóði og ráðið til þess löggiltan endurskoðanda. Bankaeftirlitinu er heimilt að láta hlutaðeigandi stofnun bera kostnaðinn af slíkri endurskoðun.``
    Við 67. gr. er brtt. þar sem verið er að breyta hugtakinu ,,skoðunarmenn`` yfir í hugtakið ,,endurskoðendur`` og síðan er breytt tilvísun sem hafði ruglast.
    Við 68. gr. er brtt. þar sem fjallað er um skyldur bankaráða, sparisjóðsstjórna eða bankastjóra og sömuleiðis endurskoðenda í þessu. Þarna er gerð sambærileg brtt. og ákvæðið gert sambærilegt við það sem gildir í sambandi við verðbréfaviðskipti, þ.e. verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði.
    Síðan eru gerðar smávægilegar breytingar á 68. gr., þar á meðal 3. mgr., þar sem kveðið er á um að þegar ríkisviðskiptabanki á í fjárhagslegum erfiðleikum, þá skuli ráðherra leggja fyrir Alþingi tillögu um ráðstafanir sem grípa skuli til.
    Við 69. gr. er orðinu ,,skoðunarmanna`` breytt í ,,stjórnar``.
    Við 76. gr. er lagt til að breyta textanum varðandi Tryggingarsjóð viðskiptabanka til samræmis við nýsamþykkt lög sem voru afgreidd hér í tengslum við aðgerðir varðandi Landsbanka Íslands.
    Við 78. gr. er ákvæði um heimild Tryggingarsjóðs sparisjóða til að taka lán með samþykki ráðherra.
    Við 84. gr. er brtt. Það er ekki efnisleg breyting en í frumvarpstextanum stóð, með leyfi forseta: ,,Bankaeftirlitið skal krefja eftirlitsaðila í heimaríki erlends viðskiptabanka eða sparisjóðs um eftirfarandi upplýsingar`` en nefndin vill breyta þessu þannig að bankarnir afli þessara upplýsinga en krefjist þess ekki vegna þess að þeir hafi ekki boðvald yfir þessum aðilum.
    Í 85. gr. er brtt. sem er ekki efnisbreyting og við 93. gr. er brtt. sem er ekki mikil efnisbreyting heldur en 98. gr. ætti að falla brott samkvæmt tillögum nefndarinnar. Þar er kveðið á um framsal á valdi til bankaeftirlitsins sem nefndin telur ekki við hæfi.
    Við 103. gr. er gerð tillaga um breytingu á gildistökuákvæðum þannig að lögin öðlist gildi 1. júlí 1993, en sé ekki tengt gildistöku EES. Síðan bætist við ný málsgrein sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Viðskiptabankar og sparisjóðir sem starfandi eru við gildistöku laga þessara skulu samræma samþykktir sínar ákvæðum laganna á fyrsta aðalfundi eftir gildistöku þeirra.``
    Ég vil að lokum taka það fram, virðulegi forseti, að þessi nýja löggjöf er mjög mikilvæg. Hún skapar samræmdan starfsramma fyrir viðskiptabanka og sparisjóði og löggjöfin verður með frv. þessu, ef að lögum verður, færð til nútímahorfs og verður í samræmi við það sem gildir hjá okkar helstu viðskipta- og samkeppnisþjóðum.