Viðskiptabankar og sparisjóðir

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 14:52:28 (7480)

     Kristín Ástgeirsdóttir :

    Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá frsm. hv. efh.- og viðskn. er hér gríðarlega stórt mál á ferðinni. Líklega er þetta með stærstu frumvörpum sem afgreidd verða á þessu þingi því hér er um að ræða lagabálk upp á 103 greinar.
    Þegar nefndin sem sett var á laggirnar til þess að skoða lögin um viðskiptabanka og sparisjóði hóf sitt verk, þá átti hennar verkefni fyrst og fremst að vera það að samræma gildandi lög hér við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar í samræmi við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að það væri full ástæða til þess að endurskoða lögin í heild og hún valdi þá leið að sameina gildandi lög um viðskiptabanka og lög um sparisjóði og það er auðvitað ástæðan fyrir því hversu gríðarlegur lagabálkur er hér á ferð og hversu miklar breytingar hér er verið að leggja til.
    Eins og fram kom í máli frsm., þá skrifa allir nefndarmenn undir nál. en ég tel samt rétt að fara nokkrum orðum um þetta frv. og víkja að nokkrum atriðum og það er sérstaklega varðandi Tryggingarsjóð viðskiptabanka sem ég vil koma skoðun minni á framfæri.
    Það er mikið um nýjungar í þessu frv. og í rauninni verið að færa bankastarfsemi að mörgu leyti til nútímahorfs. Það er líka verið að taka tillit til þeirra breytinga sem hér hafa orðið í viðskiptum og bankakerfinu. Þar er fyrst að nefna það atriði sem kemur fyrir í 2. lið brtt., þ.e. brtt. við 8. gr. þar sem kveðið er á um það að ríkisviðskiptabönkum er bannað að taka víkjandi lán umfram það sem Tryggingarsjóður viðskiptabanka getur veitt, þ.e. það er óheimilt að taka slík lán án samþykktar Alþingis. Okkur í efh.- og viðskn. fannst rétt að stíga þetta skref, bæði til þess að tryggja þá samkeppnisstöðu sem hér á að vera á viðskiptamarkaði og ekki síður til þess að fylgjast með stöðu ríkisbankanna eins og dæmin sanna að mikil þörf er á.
    Ég vil líka vekja athygli á þeim breytingum sem nefndin lagði til og í rauninni ganga í þá átt að gera alla ábyrgð skýrari og valdsviðið skýrara í lögunum en var í upprunalegu frv. þar sem nefndin leggur til að það sé ráðherra sem ótvírætt fer með framkvæmd laganna og veitir þau leyfi eða afnemur þau leyfi sem um ræðir. En samkvæmt frv. var býsna mikið um það að slíkt vald var fært til bankaeftirlitsins.
    Þá náðist líka samkomulag um það að bankaráðin verði áfram mótandi aðili í vaxtastefnu bankanna en það var gert ráð fyrir því að þær ákvarðanir færu til bankastjórnarinnar. Þetta á ekki síst við og snertir auðvitað efnahagsstefnu hverrar ríkisstjórnar eða ríkisstjórna á hverjum tíma og við vorum sammála um að það væri rétt að bankaráðin hefðu nokkuð að segja um vaxtastefnuna, enda ræður hún miklu um afkomu bankanna.
    Þá vil ég líka nefna það atriði sem kom nokkuð til umræðu og hefur verið umrætt í sambandi við stöðu fyrirtækja í landinu og stöðu bankanna, en það er það að í rauninni hafa bankarnir ekki heimild samkvæmt núgildandi lögum til þess að reka önnur fyrirtæki en þau sem snerta bankastarfsemi. En því miður er ástandið í okkar þjóðfélagi þannig að bankarnir hafa orðið að taka undir sína stjórn hótel, veitingahús og allt sem nöfnum tjáir að nefna og reyna auðvitað að halda þessum fyrirtækjum gangandi meðan verið er að koma rekstrinum í horf og koma fyrirtækjunum í verð. Hér með fá þau heimild í lögum til þess að stunda tímabundið aðra starsemi en þá sem beint heyrir undir bankastarfsemi.
    Ég vil sérstaklega geta hér ákvæðis sem snertir sparisjóðina, en það var allmikið rætt í nefndinni hvort sparisjóðirnir ættu að hafa heimildir til samráðs sín í milli varðandi vexti og ýmis þjónustugjöld, en í upprunalega frv. var gert ráð fyrir slíkri heimild og við það er staðið í tillögum nefndarinnar, enda telja sparisjóðirnir það vera lífsnauðsyn fyrir sig að hafa slíka heimild vegna þess að sumir sparisjóðir eru einfaldlega svo litlir og hafa svo fáa starfsmenn að þeir eiga ekki nokkra möguleika á því að vera sjálfir að taka ákvarðanir um vexti og þjónustugjöld. Þess vegna hafa sparisjóðirnir komið á fót sameiginlegri stofnun sem sinnir þessum málum og þjónar öllum sparisjóðum í landinu og það er í rauninni í gegnum þá stofnun sem þetta samráð á sér stað. Viðskiptabankarnir vildu takmarka heimildir sparisjóðanna, en nefndin komst að þeirri niðurstöðu að þeim ætti að vera heimilt að vinna saman svo framarlega sem það samráð og sú samvinna sé í samræmi við nýsamþykkt lög um samkeppni, nýju samkeppnislögin.
    Þá kem ég að Tryggingarsjóði viðskiptabanka, virðulegi forseti, sem er nú kannski aðalatriði míns máls. Hér gerist það að verið er að taka mið af þeim lögum sem voru samþykkt hér fyrr í vetur, lög nr. 16/1993, þar sem breytingar voru gerðar á hlutverki Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og honum veitt heimild til þess að veita lán eða veita ríkisbönkunum og viðskiptabönkunum stuðning. Þetta er orðinn hlutur en mitt samþykki við þá breytingu var bundið því að efh.- og viðskn. færi ofan í þau lög og reglur sem gilda um þennan sjóð.
    Í meðferð nefndarinnar kom það fram að ráðherra hefur eða er í þann mund að setja á laggir nefnd til þess að skoða Tryggingarsjóð viðskiptabanka í heild. En nefndin leggur samt sem áður til breytingar varðandi tryggingarsjóðinn sem hugsanlega eru þá til bráðabirgða og kann kannski að orka tvímælis að vera að taka inn þessar lagabreytingar þegar nefnd er að hefja störf til þess að endurskoða lögin, en við komumst nú að þeirri niðurstöðu að það væri rétt að breyta þessu, þ.e. að taka hér inn þær samþykktu breytingar sem gerðar voru fyrir örfáum vikum og í öðru lagi að kveða á í lögunum um stjórn sjóðsins, en áður var kveðið á um stjórn sjóðsins í reglugerð þannig að skipan stjórnar er nú tekin inn í lög. En auðvitað kann þetta að breytast.
    Þá vil ég að lokum sérstaklega fagna þeim breytingum sem hér verða á varðandi ráðningu bankastjóra, endurtaka það sem ég hef áður sagt um þau efni, en samkvæmt þessum lögum eru nú sett ákvæði

um hæfniskröfur á hendur bankastjórum og þeim beri að hafa þá menntun og þá reynslu sem slíkir menn þurfa að hafa og jafnframt að það beri að auglýsa stöðu bankastjóra og það verður nú spennandi að sjá hvernig þessum ákvæðum verður framfylgt. Við munum fylgjast rækilega með því því að hér gefst auðvitað tækifæri til þess að rjúfa þá hefð flokksveitinga eða stöðuveitinga gömlu flokkanna sem hafa tíðkast um áratuga skeið og er löngu mál að linni. Hér er gert ráð fyrir sex ára ráðningartíma bankastjóra og ég vil aftur vekja athygli á því sem ég nefndi í gær varðandi tillögur um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála þar sem var verið að ræða um fimm ára ráðningartíma. Í öðrum tilvikum er um að ræða fjögurra ára ráðningartíma hjá ríkinu og ég spyr enn hvort ekki sé ástæða til þess að samræma slíkar reglur. Ég er frekar á því að það sé rétt að styðjast við eina ákveðan reglu í ráðningum hjá ríkinu þó að eflaust kunni að vera hægt að færa rök að öðru.
    Virðulegi forseti. Að mínum dómi er hér um mjög gott og merkilegt mál að ræða. Þetta eru auðvitað lagabreytingar sem við hefðum getað tekið upp á Alþingi án þess að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði hefði nokkurn tíma komið til, en það varð niðurstaða þeirrar nefndar sem samdi þetta frv. að fara út í þessar miklu breytingar sem hér er verið að leggja til og ég styð þær heils hugar.