Viðskiptabankar og sparisjóðir

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 15:03:36 (7481)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég stend að nál. efh.- og viðskn. eins og allir aðrir nefndarmenn en kaus að skrifa undir það með fyrirvara og vil gera nokkra grein fyrir því sem og afstöðu minni almennt til þessa máls. Ég get tekið undir það sem fyrri ræðumenn hafa sagt að hér er á ferðinni að mörgu leyti þörf endurskoðun á gildandi lagaákvæðum um málefni viðskiptabanka og sparisjóða. Þá held ég að það sé enn fremur tímabært og eðlilegt að sameina nú þessi lagaákvæði í eina löggjöf eins og hér er lagt til og að flestu leyti eru efnisákvæði þessa frv. að mínu mati til bóta svo að ekki sé nú minnst á brtt. efh.- og viðskn. sem færa ýmislegt til betri vegar. Að vandlega athuguðu máli að dómi nefndarinnar, þá er rétt að breyta þarna ýmsu og ég stend að þeim brtt. að sjálfsögðu eins og aðrir nefndarmenn.
    Fyrirvari minn er fyrst og fremst tvíþættur, þ.e. annars vegar almenns eðlis. Það eru nokkur almenn atriði sem varða bankamálin sem við viljum hafa fyrirvara á um og þá ekki síst framgöngu hæstv. núv. ríkisstjórnar í þeim efnum varðandi ýmis atriði í framkvæmd stjórnarstefnunnar eins og hún tengist bankamálunum. Þar má nefna vaxtastefnuna, það má nefna mannaráðningar í bankakerfinu og vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar t.d. þegar málefni Landsbankans voru hér til umfjöllunar fyrir nokkru síðan. Við viljum í öllu falli að það sé alveg ljóst og misskiljist ekki að með stuðningi við þessa lagabreytingu eða þetta frv. erum við ekki að skrifa upp á eða lýsa yfir ánægju með margt af því sem hæstv. ríkisstjórn hefur aðhafst varðandi bankamálin.
    Hins vegar er fyrirvarinn svo efnislegur að nokkru leyti. Það eru nokkur atriði frv. sem ég vil hafa fyrirvara á og einkum og sér í lagi er það þó eitt efnisatriði sem snýr að Tryggingarsjóði viðskiptabankanna og stjórn hans eða fyrirkomulagi sem ég kem að síðar.
    Varðandi einstök efnisatriði get ég farið fljótt yfir sögu og vísa bæði til þess sem fram kom í máli formanns efh.- og viðskn. og eins þess sem fjallað er um þessi mál í nál. Ég tel að sú breyting sem lögð er til á 8. gr. frv. sé mjög mikilsverð. Þar er lagt til að inn í 3. mgr. 8. gr. bætist nýr málsliður sem taki af öll tvímæli um það að ríkisviðskiptabanka sé óheimilt án samþykkis Alþingis að taka víkjandi lán í því skyni að efla eiginfjarstöðu sína umfram það sem Tryggingarsjóður viðskiptabanka getur veitt, sbr. 76. gr. þessara laga. Þar með er það alveg ljóst og áskilið að um víkjandi lánveitingar af því tagi sem áttu sér stað nú rétt fyrir sl. áramót þegar allt í einu óforvarandis þær fréttir berast að Seðlabankinn hafi veitt Landsbankanum víkjandi lán upp á á annan milljarð kr., að slíkir hlutir geta ekki endurtekið sig. Ef af lagabreytingu verður er ljóst að víkjandi lánveitingar án samþykkis Alþingis geta eingöngu farið fram í gegnum Tryggingarsjóð viðskiptabanka og þá að sjálfsögðu innan þeirra lánsheimilda sem þar eru fyrir hendi eða veittar eru sérstaklega með heimild Alþingis. Með þessu fyrirkomulagi er að mínu mati hringnum alveg lokað og tekin af öll tvímæli um það að fjárhagsfyrirgreiðsla af þessu tagi til banka getur ekki farið fram öðruvísi en að Alþingi samþykki það sérstaklega. Það er af tveimur ástæðum mikilvægt, tel ég. Hið fyrra er auðvitað ósköp einfaldlega vinnuregla í þessum efnum að ábyrgðir eða fjármunir af þessu tagi séu ekki útbærir nema Alþingi hafi veitt heimildir til þess í hverju einstöku tilviki. Það er sú vinnuregla sem hér á að hafa í heiðri. En það er enn fremur mikilvægt vegna þess að með þessu er að sjálfsögðu verið að hafa áhrif á innbyrðis stöðu lánastofnana og samkeppnisstöðu þeirra. Slíkt er mjög vandasamt að gera og eðlilegt að Alþingi taki það til umfjöllunar í hvert eitt skipti. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilsvert að samstaða hefur tekist um þessar breytingar á 8. gr. og ég vona þess vegna að þeir hlutir endurtaki sig ekki sem áttu sér stað rétt fyrir síðustu áramót þegar án t.d. nokkurs samráðs við efh.- og viðskn. eða Alþingi gripið var til veitingar þessa víkjandi láns úr Seðlabankanum yfir í Landsbankann. Það eru ekki hlutir sem eðlilegt er að beri að eða gangi til með þeim hætti.
    Ég vil lítillega nefna þann þátt þessa máls sem snýr að breytingu á ákvæðum um hlutafélagabanka. Nú er ljóst að með þessu frv. verða talsverðar breytingar á þeim takmörkunum sem giltu áður um hlutafé í hlutafélagabönkum. Sem sagt, að mestu leyti eru felldar út þær takmarkanir sem áður giltu um upphæð eða eignarhlut einstakra aðila í slíkum fyrirtækjum og horfið yfir í það að almenn ákvæði hlutafélagalaga gildi einnig um hlutafélagabanka. Nú má segja að það sé ekki óeðlilegt að menn vilji eftir því

sem kostur er að hin almennu ákvæði gildi einnig um atvinnustarfsemi á þessu sviði, þ.e. rekstri banka í hlutafélagaformi, eftir því sem við getur átt. Hins vegar er það svo og það kemur glöggt fram þegar lesin er 10. gr. frv. að menn gera sér auðvitað mjög vel grein fyrir því að það getur reynst óhjákvæmilegt að taka sérstaklega á málum varðandi bankarekstur og þess vegna eru þar allítarleg ákvæði um meðferð eignarhluta í viðskiptabönkum þegar einhverjir einstakir aðilar hyggjast eignast eða eignast virkan eignarhlut eða meiri hluta eða ráðandi hluta í slíku fyrirtæki. Bankaeftirlitið hefur því hlutverki að gegna og það er beinlínis gert ráð fyrir að það geti gripið í taumana ef mönnum sýnist að það stefni í óefni eða óeðlilegt ástand af einhverju tagi í rekstri slíks banka. Og það má segja að þarna sé valin sú leið að hverfa frá bannreglu eða beinum takmarkandi ákvæðum í lögum yfir að því ráði að þessir hlutir séu leyfilegir innan tiltekinna marka og þá undir eftirliti bankaeftirlitsins. Ég verð að segja eins og er að fyrir mitt leyti hef ég vissan fyrirvara á um þetta fyrirkomulag, ekki vegna þess að ég búist svo sem við að það skipti mjög miklu eða það stefni í það hér á allra næstu árum að heilir bankar komist í eigu örfárra aðila eða einhverjir einstakir eignaraðilar að hlutafélagabanka eignist þar ráðandi hlut, heldur fremur hitt að til framtíðar litið er ég ekki viss um að þetta fyrirkomulag verði mjög einfalt í framkvæmd og þjált. Ég óttast að það geti orðið býsna vandmeðfarið eða erfitt að draga mörkin og hvenær kæmi að því að bankaeftirlitið teldi sig knúið til að grípa í taumana eða spyrna við fótum og grípa til þess afdrifaríka ákvæðis 3. mgr. 10. gr. frv. eins og hún er hér upp sett að synja hluthafa um að eignast aukinn eignarhlut í hlutafélagabanka eða a.m.k. um atkvæðisrétt hans út á þann eignarhlut.
    Þetta er auðvitað geysilega vandmeðfarið vald sem bankaeftirlitinu er þarna sett í hendur og ef maður horfir eingöngu á þetta frá því sjónarhorni hvernig takast mundi ef á reyndi að framkvæma þetta ákvæði laganna, þá leyfi ég mér að hafa um það vissar efasemdir að mönnum sé greiði gerður með því að ætla þeim svona hlutverk. Það hlýtur að geta komið til álita að vera þarna með ákveðin takmörk sem hreinlega tryggi nægjanlega dreifða eignaraðild í fyrirtæki af þessu tagi. Það er það sem málið snýst um, að afstýra því að um óeðlilega samþjöppun eignarhluta í banka eða bankakerfinu geti orðið að ræða. Nú mundu menn sjálfsagt segja að ef hér væru 20 sjálfstæðar bankastofnanir og þar af kannski átta í hlutafélagaformi og sumar þeirra litlar þá breytti það ekki öllu þó að jafnvel einn eða tveir slíkir litlir hlutafélagabankar væru í eigu eins aðila eins og tíðkast kannski sums staðar erlendis þar sem tugir stofnana keppa á markaði og þá hafa menn kannski ekki miklar áhyggjur af því þó að einhver einstök slík fyrirtæki séu jafnvel í hreinni einkaeigu eins aðila eins og dæmi eru um frá nálægum löndum. En hér gegnir auðvitað allt öðru máli. Hér eru fyrst og fremst fjórir aðilar starfandi á þessum markaði. Það eru þrír viðskiptabankar og svo sparisjóðirnir og aðeins einn af þessum bönkum er hlutafélag. Og þar af leiðandi kynnu því að fylgja langtum meiri völd og ítök og áhrif í bankaheiminum á Íslandi ef einn eða örfáir aðilar næðu undirtökum í rekstri hlutafélagabanka. Þess vegna er ekki endilega víst að við ráðum við það vegna aðstæðna að hafa alveg sömu ákvæði gildandi hér og eru erlendis. Ég hef þó ákveðið að setja mig ekki upp á móti þessari breytingu í trausti þess að menn verði vakandi gagnvart því sem gerast kunni á komandi árum að þessu leyti og með hliðsjón af því að ég tel það ekkert óeðlilega hugsun, ekkert óeðlilegan vilja að almenn ákvæði hlutafélagalaga geti gilt um þetta að svo miklu leyti sem kostur er. En þessi vandi er þarna til staðar, samanber þau ákvæði sem sett eru upp í 10. gr. frv.
    Þá vil ég enn fremur fagna 8. lið brtt., þ.e. þeirri breytingu sem nefndin varð sammála um að gera á 39. gr. frv. en hún gengur út á það að færa í grófum dráttum til fyrra horfs hlutverk bankaráða og sparisjóðsstjórna varðandi mótun stefnu í vaxta- og gjaldskrármálum, og að setja almenna reglu um lánveitingar og ábyrgðir stofnunarinnar. Frv. gerði ráð fyrir því að þetta hlutverk, þ.e. hvað það snertir að móta stefnu í vaxta- og gjaldskrármálum, hyrfi út úr starfslýsingu bankaráðanna og sparisjóðsstjórnanna og færðist yfir í hendur bankastjórnanna. Ég tel að það hefði verið um afturför að ræða og sjálfsagt mál að bankaráðin eða sparisjóðsstjórnirnar gegni þessu lykilhlutverki í stjórnun fyrirtækjanna. Þetta er alveg undirstöðuatriði varðandi alla starfrækslu lánastofnana. Það er að móta meginlínur og stefnu í vaxta- og gjaldskrármálum og ég held að það stríði gegn almennri og góðri stjórnsýsluvenju að lægra sett stjórnstig í fyrirtæki sé með lögum falið úrslitavald af þessu tagi. Það væri beinlínis ankannalegt að mínu mati að bankaráðið eða sparisjóðsstjórnir hefðu ekki yfir þessum úrslitaþætti að segja heldur lægra sett stjórnsýslustig innan stofnananna sem eru bankastjórnirnar eða sparisjóðsstjóri eða stjórar. Ég held að þarna sé tvímælalaust um breytingu að ræða til bóta og að þetta verði fært í grófum dráttum til núverandi horfs eins og það stendur samkvæmt lögum.
    Þá vil ég nefna í þriðja lagi um efnisþættina að rætt var ítarlega það ákvæði 53. gr. sem lýtur að samstarfi sparisjóðanna varðandi ákvörðun í vaxtamálum og gjaldskrármálum. Nú er almenna ákvæðið að sjálfsögðu bannákvæði en eðlilegt er að samráð um slíka hluti sé bannað milli viðskiptabankanna en síðan kemur að því að sparisjóðirnir eru auðvitað allt öðruvísi settir í þessu efni heldur en bankarnir sem slíkir. Það má segja að að mörgu leyti væri það hliðstætt ef sparisjóðunum væri bannað að bera saman bækur sínar um vaxtaákvarðanir eins og einstökum útibúum viðskiptabankanna væri bannað að hafa samráð sín í milli eða samræma sínar gjaldskrár. Og ég held að mönnum þætti það nú ekki mjög gæfulegt ef útibú Búnaðarbankans á Sauðárkróki mætti ekki hafa neitt samráð við aðalstöðvarnar eða Búnaðarbankann á Blönduósi eða hvar sem það nú væri, ( VE: Mundu vextirnir ekki lækka á Króknum?) þannig að ég held að þegar þetta er skoðað, þá hljóti menn auðvitað að komast að þeirri niðurstöðu að það sé einmitt af hinu

góða að sparisjóðirnir sem hver um sig starfar á afmörkuðu svæði og eru alls ekkert í innbyrðis samkeppni af eðlilegum ástæðum nema þá helst að færa megi að því einhver rök að það geti átt sér stað hér á Reykjavíkursvæðinu, þurfi einmitt að geta eflt sig sem eining í þessari samkeppni á móti viðskiptabönkunum með sín útibú sem gjarnan eru þeir sem þar er keppt við. Og það er auðvitað alveg fráleitt að það geti á nokkurn hátt þjónað samkeppnismarkmiðum að banna sparisjóðum t.d. einum við Þistilfjörð og öðrum á Patreksfirði að bera saman bækur sínar um vaxtamál því að ekki eru þeir að keppa innbyrðis. En hins vegar er þarna sá vandi fyrir hendi eins og nefndin auðvitað vissi mætavel hafandi nýlega afgreitt frv. til laga um samkeppnismál að það er auðvitað ekki heppilegt að svona lagaákvæði stríði beinlínis gegn hinum almennu settu leikreglum eins og samkeppnislögin ganga frá þeim varðandi óheimilt samráð um slíka þætti. Þess vegna var það niðurstaða nefndarinnar og það tel ég hafa verið farsæla lausn í þessu nokkuð svo vandasama tæknilega atriði sem ég lít nú fremur á sem tæknilegt heldur en efnislegt álitamál, að taka það fram eins og gert var í frumvarpsgreininni þegar frv. var lagt fram að þetta samráð sparisjóðanna gegnum lánastofnun sé heimilt, en bæta síðan við: enda brjóti slíkt ekki í bága við ákvæði samkeppnislaga, sbr. IV. kafla þeirra laga. Þetta var lausnin sem efh.- og viðskn. datt ofan á og leggur til í sínum brtt. og ég tel að þar hafi fundist farsæl lausn á þessu atriði. Þetta mun væntanlega þýða í framkvæmd að sparisjóðirnir halda ósköp einfaldlega áfram sínu samstarfi eins og að hefur verið en Samkeppnisstofnun metur það hvort hún sjái ástæðu til þess að gera við það einhverjar athugasemdir eða hafa af því afskipti. Og frumkvæðið kæmi þá frá Samkeppnisstofnun að hafa af því afskipti eða samkeppnisráði ef það mæti það svo. Þetta finnst mér líka mikilvægt að liggi ljóst fyrir að hlutirnir snúi svona til þess að sparisjóðirnir séu ekki neinni óvissu um það að þeir megi að settum þessum lögum starfa áfram með þeim hætti sem þeir hafa gert þangað til þá að athugasemdir væru gerðar við það. Og það sé ég ekki að samkeppnisráð eða Samkeppnisstofnun hafi nokkra minnstu ástæðu til að gera og gæti rökstutt það ítarlegar ef ástæða þætti til.
    Að þessu slepptu, hæstv. forseti, ætla ég að gera aðeins að umtalsefni Tryggingarsjóð viðskiptabankanna sem er auðvitað afar mikilvægur þáttur í bankastarfseminni og ég tala nú ekki um ósköpin eftir það nýja hlutverk sem honum hefur verið falið með lagabreytingunum frá því í vetur með lögum nr. 16/1993, um ráðstafanir til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana, en þá var tryggingarsjóðnum heimilað að veita viðskiptabanka víkjandi lán í því skyni að efla eiginfjárstöðu sína, enda yrði þá láns til þess aflað með sérstakri lántöku og upp var sett sérstök deild við Tryggingarsjóð viðskiptabanka í þessu skyni þannig að hann starfar nú í tveimur aðskildum deildum. Ég held að í sjálfu sér sé þetta ekkert óeðlilegt fyrirkomulag. Það sem ég hef miklu meiri efasemdir um er að tryggingarsjóðurinn sé eftir þetta gerbreyta hlutverk stjórnskipulega settur eins og hann var og út af fyrir sig er, þ.e. með einhverri blandaðri stjórn tilnefndri af viðskrh. sem í eigi sæti að hluta til fulltrúar hagsmunaaðilanna sjálfra, þ.e. lánastofnananna. Ég tel að það sé nauðsynlegt að taka það mál til endurskoðunar, enda er það reyndar boðað, samanber það sem um það segir í nál., en ég vil hafa skýran fyrirvara á um það að þetta fyrirkomulag sem þá til bráðabirgða verður notast við, þ.e. að stjórn tryggingarsjóðsins sé þá skipuð sex mönnum og séu þrír þeirra tilnefndir eða skipaðir af ráðherra samkvæmt tilnefningu Sambands ísl. viðskiptabanka og síðan einn eftir tilnefningu fjmrh., einn eftir tilnefningu Seðlabanka og einn án tilnefningar frá viðskrh. sjálfum. Þetta er nú hálfgert möndl að mínu mati og svona blandaður kokkteill sem ég hef vissar efasemdir um að eigi að byggja mikið á til frambúðar. Ég tel koma verulega til álita í ljósi þessa breytta hlutverks Tryggingarsjóðs viðskiptabanka að yfir honum sitji þingkjörin stjórn. Þetta er afar vandasamt verkefni sem þarna er lagt á herðar sjóðsins, sérstaklega sá þáttur starfseminnar sem er þá verkefni lánadeildarinnar, þ.e. að veita viðskiptabanka víkjandi lán. Hitt má segja að sé eðlilegri og reglubundnari hluti af starfrækslu bankamálanna, þ.e. að starfrækja innstæðudeildina og hverra hlutverk er að tryggja skil á innlánsfé þegar skipt er búi.
    En ég endurtek það að í ljósi þessa gerbreytta hlutverks og eðlis í raun og veru Tryggingarsjóðs viðskiptabanka, þá tel ég að það þurfi að gaumgæfa stjórnunarfyrirkomulag hans og stjórnskipulega stöðu mjög vel og vonandi verður það gert í þeirri endurskoðun sem ráðherra hefur boðað, en ég hef fullan fyrirvara á um það fyrirkomulag sem þá á að notast við til bráðabirgða samkvæmt lögunum, annars vegar frá því í vetur og hins vegar brtt. nefndarinnar, að í uppáskrift minni felst alls ekki neinn stuðningur við það fyrirkomulag til frambúðar.
    Hæstv. forseti. Ég held að ég fari ekki fleiri orðum um einstaka efnisþætti frv. Ég hef gert grein fyrir því sem ég tel helst standa upp úr í þeim efnum hvað mína afstöðu snertir. Það mætti auðvitað heilmargt segja um þessi bankamál að öðru leyti. Ég tel auðvitað að stefna hæstv. ríkisstjórnar í bankamálum hafi verið ákaflega flaustursleg að ýmsu leyti. Hæstv. ríkisstjórn rauk af stað og boðaði þau áform að einkavæða ríkisbankana, a.m.k. annan og ef ekki báða, rjúka til og breyta þeim í hlutafélög og helst selja a.m.k. annan þeirra sem allra fyrst, gott ef fjárlög gerðu ekki ráð fyrir því bæði í fyrra og aftur í ár að Búnaðarbankinn yrði meira og minna seldur á árinu. Ég held nú að menn hafi almennt ekki tekið þetta mjög alvarlega og kannski ekki ástæða til, enda virðist ekkert ætla að verða úr þessum áformum og ætla ég síst að harma það. En auðvitað er þetta ekki mjög trúverðug framganga satt best að segja að kasta svona hlutum á milli sín með þessum hætti. Það er meira en einhver smámál hvernig resktrarfyrirkomulagi og meðferð mikilvægustu viðskiptabanka þjóðarinnar er fyrir komið, enda hefur komið á daginn að mönnum er alls ekki sama um það hvernig með þá hluti er farið. En af furðu mikilli léttúð finnst mér að hæstv. ríkisstjórn hafi gasprað um þessi mál þó að niðurstaðan verði e.t.v. og vonandi sú að ekkert verði síðan úr

einu eða neinu og bankarnir verði reknir út þetta kjörtímabil í óbreyttu formi og að fullu og öllu í eigu ríkisins sem er auðvitað langfarsælasta niðurstaðan að mínu mati. Nóg er nú samt sem er á hverfanda hveli hér þó að menn láti ríkisviðskiptabankana í friði. Og reyndar er það svo, að það er kannski að verða algengasta óskin til þessarar ríkisstjórnar að hún leyfi hlutunum að vera í friði en sé ekki að andskotast með það sem er í ágætu lagi eins og það er. Það hefur ekki tekist að sýna fram á það með neinum rökum að það sé nokkur skapaðan hlutur að í rekstri Búnaðarbankans svo að dæmi sé tekið og það sé nokkur skapaður hlutur sem vinnist með því að fara að rótast í honum. Það kemur t.d. á daginn t.d. að Búnaðarbankinn hefur verið best rekni bankinn undanfarin ár. Hann hefur þurft að afskrifa minna og verið rekinn með betri rekstrarlegri niðurstöðu undanfarin ár en hinir bankarnir, ekki síður einkabankinn en ríkisbankarnir og þannig brestur menn öll rök til þess að réttlæta breytingar af því tagi sem hæstv. ríkisstjórn hefur boðað á resktarfyrirkomulagi bankanna nema þá einhver huglæg rök, pólitísk rök og það er auðvitað það eina sem þarna er á ferðinni, það er af því bara að það er stefna ríkisstjórnarinnar að einkavæða. Þetta er svo raunalegt að það er þyngra en tárum taki þegar menn standa gjaldþrota uppi í umræðunni og hafa engin rök til að færa fram.
    Ég hef sagt það um þessa einkavæðingarumræðu alla saman og það á auðvitað ekki síst við um bankana þegar þeir eiga í hlut, ég hef ekkert á móti því að menn taki það til skoðunar á hverjum tíma hvað eigi að vera á höndum ríkisins og hvað ekki og hvaða rekstrarform eigi að vera á hinum einstöku þáttum starfseminnar, jafnt hins opinbera sem einkarekstursins. En ef menn eru komnir út á þá hálu braut að breyta ,,af-því-bara``, hafa engin rök fram að færa fyrir því sem menn hafa ekki varðandi bankana þá er illa komið. Hitt liggur ljóst fyrir að það getur verið óhagstætt og ég er reyndar þeirrar skoðunar að það yrði það augljóslega að fara að hrófla við rekstrarformi bankanna nú við þessar viðkvæmu aðstæður í bankamálum.
    Það vita jú allir hvað hefur gengið yfir í bankaheiminum í kringum okkur. Því miður höfum við Íslendingar síðan komist á blað í þeim efnum í fjármálaumræðu umheimsins í gegnum breytingarnar sem rokið var í gagnvart Landsbankanum og það er ekki nokkur vafi á því í mínum huga ef síðan yrði haldið áfram og farið að baksa við að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög þá mundi það vekja tortryggni erlendis. Menn mundu væntanlega spyrja sig: Er ríkið með þessu í einhverri viðkvæmri, hættulegri stöðu í bankamálunum að koma sér í meiri fjarlægð frá ábyrgðum með því að breyta þessum fyrirtækjum yfir í hlutafélag og takmarka í fyrstu umferð ábyrgð sína við hlutaféð?
    Það er enginn vafi á því að mínu mati að það væri ákaflega óskynsamlegt að vera að gefa slík merki, senda slíkar fréttir út til umheimsins. Þannig að vonandi verður það nú að bankarnir verði látnir í friði og þetta frv. breytir að sjálfsögðu engu um það fyrirkomulag sem í gildi hefur verið að þessu leyti og ég fagna því.
    Ég vil enn fremur fagna því að um það tókst ágætis samstaða í efh.- og viðskn. og stóð svo sem ekkert annað til að rekstrarform sparisjóðanna yrði í grófum dráttum látið í friði eins og það hefur verið. Það eru að vísu minni háttar breytingar sem lúta t.d. að sparisjóðsstjórnunum en skipta í sjálfu sér ekki miklu máli, það haldast í grófum dráttum þau ákvæði sem tryggja forræði heimaaðilanna í stjórnun sparisjóðanna og það er vel vegna þess að sparisjóðirnir eru um margt ákaflega merkilegar stofnanir þar sem valdið er í heimabyggð. Valdið er dreift en ekki samþjappað og menn eru tiltölulega sjálfstæðir gagnvart rekstrarlegum ákvörðunum í hverjum einstökum sjóði á hverjum stað.
    Ég er ekki viss um að menn hafi alltaf áttað sig á því í umræðum um þessi mál, byggðamál eða flutning stofnana eða valddreifingu eða hvað það nú er, að í sparisjóðafyrirkomulaginu eiga menn ákaflega merkilegt dæmi um slíkar sjálfstæðar valddreifðar stofnanir sem þó í gegnum samstarf og samvinnu og ákveðna sameiginlega starfrækslu nýta sér alla sömu kosti og hinar stóru miðstýrðu einingar ríkisviðskiptabankanna gera. Þetta finnst mér sýna að það er að mörgu leyti gera hvort tveggja, njóta kostanna sem felast í valddreifingu og virkri þátttöku fjölda fólks í stjórnun slíkra fyrirtækja en jafnframt nýta sér alla þá kosti sem tæknin og samstarf hefur upp á að bjóða í nútímaþjóðfélagi.
    Að svo mæltu, hæstv. forseti, fjölyrði ég ekki um þetta frekar en vísa til þess sem ég sagði í upphafi að í heildina tekið eru hér á ferðinni eðlilegar og þarfar breytingar á frv. en fyrirvara þann sem ég og minn þingflokkur höfum á um stuðninginn við málið hef ég þegar skýrt og kemur fram í þessu tvennu, annars vegar er hann almenns eðlis og hins vegar lýtur hann að þeim efnisþáttum sem ég hef nefnt.