Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 16:04:42 (7486)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég tel að það sé dregin upp röng mynd af þessu máli þegar sagt er að það hafi ekki verið ítarlega rætt og menn hafi ekki skipst á skoðunum um það. Það hafa menn gert um nokkurt árabil mundi ég segja því að þetta mál hefur verið á dagskrá og hugmynd um það að Ísland gerðist aðili að þessum samtökum hefur verið á dagskrá um nokkurt skeið þannig að það er nú ekki rétt. Það hefur einnig verið rætt innan flokka. Það hefur verið rætt í Sjálfstfl. að sjálfsögðu og það var ályktað um það í flokksráði Sjálfstfl. síðasta haust að Ísland ætti að gerast aðili að þessum samtökum.
    Varðandi spurninguna um hina víðtæku fylkingu sem stæði að baki þessu á pólitískum vettvangi, þá á það náttúrlega eftir að koma í ljós í þingsalnum hvernig atkvæði falla hér, en fyrir frumkvæði fulltrúa Kvennalistans var leitað álits Samtaka herstöðvaandstæðinga í utanrmn. og einnig frá Samtökum um vestræna samvinnu, Varðberg. Til nefndarinnar kom ályktun Varðbergs og mér finnst rétt að láta þess getið að í stjórn Varðbergs sem gerði þessa ályktun sitja fulltrúar Framsfl., Sjálfstfl. og Alþfl. þannig að það kunna þá að vera einhver kynslóðaskipti í Framsfl. sem valda því að yngri menn styðja þetta mál en ekki hinir eldri. Ég get ekki svarað um það en ef litið er á þessi samtök sem eru samtök áhugamanna um þátttöku Íslands í vestrænu samstarfi, þá var ekki ágreiningur um þetta mál í þeirri stjórn sem ályktaði á þann veg sem við fengum vitneskju um í utanrmn.