Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 16:06:18 (7487)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það má vel vera að einhverjir ,,esóterískir`` áhugamenn um utanríkismál í Sjálfstfl. hafi rætt þetta mál á undanförnum árum. Það þekki ég ekki. En það er hins vegar staðreynd sem ekki hefur verið mótmælt hér í þinginu að aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu hafði ekki verið rædd í þingflokki Sjálfstfl. áður en ríkisstjórnin hafði tekið sína ákvörðun. Það var upplýst hér á sínum tíma. Og það var líka ljóst að umræða hafði ekki farið fram í utanrmn. í aðdraganda þess að ríkisstjórnin tók sína ákvörðun. Málið kom til utanrmn. þannig að ríkisstjórnin hafði tekið sína ákvörðun og málið var ekki rætt hér í þinginu í aðdraganda þess. Það var það sem ég sagði áðan að hvorki formlega í þingflokki Sjálfstfl., í utanrmn. né hér í þinginu var málið rætt með formlegum hætti áður en ríkisstjórnin tók sína ákvörðun. Mér er hins vegar ljóst að málið hefur verið rætt síðan, en þá lá bara fyrir að ríkisstjórnin hafði mótað sína stefnu.
    Hvað líður einhverjum ungum mönnum í Framsfl. sem hafa verið plataðir til þess í stjórn Varðbergs að styðja inngönguna í Vestur-Evrópusambandið, þá er svo langt síðan ég var kunnugur í þeim herbúðum að ég á mjög bágt með að upplýsa það mál eitthvað. En ég þekkti það þó frá fyrri tíð að það voru ýmsir ungir menn í Framsfl. í stjórn Varðbergs á sínum tíma, en þeir voru nú frekar áhrifalitlir í flokknum og ef það er nú eini anginn að hugsanlegum stuðningi við þetta mál út fyrir þröngan hring Alþfl. og Sjálfstfl. að það finnist einhver ungur framsóknarmaður í stjórn Varðbergs, það er það eina sem hér er tínt til til þess að sýna það að það séu þó einhverjir til aðrir en þeir sem sitja hér á ríkisstjórnarbekkjunum sem styðja málið, þá finnst mér það sanna það sem ég sagði áðan að hér er að myndast einhver þrengsta afgreiðsla meiri háttar utanríkismáls sem menn hafa séð sögu lýðveldisins.