Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 16:12:28 (7490)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Mér er ekki kunnugt um að Framsfl. sem slíkur eigi einhvern fulltrúa í stjórn Varðbergs. Ég veit satt að segja ekki hverjir skipa þá stjórn og hef ekki haft fyrir að gá að því. Það getur vel verið að þar sé einhver sem er flokksbundinn Framsfl. en hann er þar ekki valinn af Framsfl. eða sem fulltrúi hans á nokkurn hátt. Ég veit sem sagt ekki hverjir skipa þessa stjórn og ég hef ekki orðið var við að Framsfl. hafi kosið mann til starfa í þeirri nefnd.
    Það er rétt sem hér hefur komið fram að ofurlítið hafði hugsanleg aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu verið nefnd á Íslandi áður en ríkisstjórnin tók sína ákvörðun. Ég minnist þess að hv. 3. þm. Reykv. hafði haft orð á þessu. Ég las eftir hann blaðagrein um málið sem mér fannst athyglisverð þótt ég væri ekki sammála henni. Ekki man ég hvort hann var þá orðinn alþingismaður eða hvort hann var enn þá ritstjóri á Morgunblaðinu eða ritstjórnarfulltrúi eða hver sem sá starfstitill var, hann var örugglega ekki orðinn formaður utanrmn. þegar hann skrifaði þá grein. Ég leit nú fremur á þetta svona sem rödd hrópandans í eyðimörkinni fremur en að þetta væri eitthvað sem væri að dynja á. Það er auðvitað alveg rétt að þetta er, eins og hv. 8. þm. Reykn. sagði hér rátt áðan, þröng afgreiðsla. Ríkisstjórnin leitaði engrar samvinnu um þessa ákvörðun sína og ríkisstjórnin hefur ekki leitað neinnar samvinnu við stjórnarandstöðuflokkana það ég veit um ákvarðanir í utanríkismálum. Þeir taka sínar ákvarðanir án þess að spyrja okkur. Sem dæmi um hvernig unnið er var einn liður í því að leggja niður öryggismálanefndina sem starfað hafði um allmargra ára skeið og átti að tryggja pólitíska samstöðu eða pólitískan vettvang til umræðna um öryggismál. Þessi nefnd var lögð niður. Þess í stað skipaði forsrh., ég veit ekki hvað hann er kallaður, hermálafulltrúi eða hvað það nú er, í forsrn. Ég nálgast þetta ekki frá sama sjónarhorni og hv. 8. þm. Reykn. því mér finnst hann sakni þess að ríkisstjórnin tali ekki við sig. Ég sakna þess út af fyrir sig ekkert. Ríkisstjórnin markar sína utanríkismálastefnu eins og henni sýnist en ég er hins vegar ekki sammála henni.
    Ég þarf ekki miklu við að bæta það sem frsm. minni hluta utanrmn., Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sagði hér áðan. Hún gerði prýðilega grein fyrir áliti okkar sem skipum minni hluta utanrmn. og ég ætla heldur ekkert að fara að endurtaka það sem ég sagði hér við fyrri umræðu málsins. Ég vil bara láta það koma fram að meðferð málsins í nefndinni hefur ekki breytt í neinu afstöðu minni né þær umræður og upplýsingar sem þar hafa komið fram. Ég er enn þeirrar skoðunar að þessi aukaaðild sé mistök og þessi aukaaðild getur orðið okkur skaðlegt. Það er alveg tryggt að hún bætir á engan hátt stöðu Íslands, hún tryggir í engu öryggishagsmuni Íslands, hún kostar okkur einhverja fjármuni, enginn veit hve mikla, en einhverja fjármuni kostar þetta. Þar er ekki sparseminni fyrir að fara í þessum þætti, þó hæstv. ríkisstjórn gumi mikið af aðhaldi sínu í útgjöldum þá er þessi þáttur undantekinn. Aukaaðildin getur skapað okkur hættu á að dragast inn í hernaðarátök og þessi aðild veikir NATO ef nokkuð er.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur tvö pólitísk meginmarkmið og um það snúast gerðir hennar að uppfylla þau. Það er í fyrsta lagi að hlynna að þeim sem hún hefur velþóknun á, þ.e. gæðingunum, ekki hinum breiða fjölda sem hefur komið þeim til valda, heldur þeim sem hafa verið þar fremstir í flokki og lagt mest á sig til að koma þeim í þá aðstöðu sem þeir eru núna. Þetta er fyrra markmiðið og hæstv. ríkisstjórn hefur orðið býsna vel ágengt við þetta verkefni sitt. Þetta er undirrótin að einkavæðingunni, þetta er undirrótin að fjölmörgum gerðum ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðherra á undanförnum tveimur árum. Ég ætla nú ekki að fara að nefna nýjustu dæmin. Við ræddum þau í fyrri viku.

    Annað meginmarkmiðið er að tengja okkur sem nánast Evrópubandalaginu, koma okkur í sem föstust tengsl við það bandalag. Þetta er skref í þá átt. Nú erum við að verða aukaaðilar að hernaðararmi Evrópubandalagsins.
    Ég vil að síðustu, frú forseti, láta það koma fram að ég tel að hér sé ekki um friðarbandalag að ræða. Ég hef reyndar aldrei notað það orð um NATO heldur.