Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 16:30:47 (7492)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að lýsa yfir algjörri andstöðu minni við aðild eða aukaaðild, hvort sem heldur er, okkar Íslendinga að þessu svokallaða Vestur-Evrópusambandi. Ég get með engu móti komið auga á hvaða gagnsemi það hefur í för með sér fyrir okkur og hvaða ástæða er yfir höfuð til þess að vera að troða okkur inn í þetta aukahernaðarbandalag ef svo má að orði komast sem stórveldin og hernaðarblokkin innan Evrópubandalagsins hefur verið að reyna að blása lífi í á undanförnum missirum.
    Í fyrsta lagi er auðvitað nauðsynlegt að átelja málsmeðferðina, eins og reyndar hefur rækilega verið gert, bæði af framsögumanni minni hluta við þessa umræðu og áður, sem hæstv. ríkisstjórn hefur viðhaft í þessu sambandi. Það eru auðvitað engin rök og engin frambærileg svör af hálfu ríkisstjórnarinnar eða talsmanna hennar hér eins og hv. formaður utanrmn. var að burðast við áðan að við Íslendingar höfum verið settir upp við vegg og orðið að svara á einhverjum tilteknum dagsetningum. Það er alls ekki boðleg málsflutningsástæða í máli af þessu tagi. Ef menn fá ekki þann tíma sem þeir telja sig þurfa til eðlilegs samráðs og eðlilegrar lýðræðislegrar ákvarðanatöku í sínu stjórnkerfi þá á ósköp einfaldlega að gera mönnum aðvart um það og það ræðst þá hvaða afleiðingar það hefur. Það er auðvitað enn til minnkunar hv. stjórnarliðum að bera málið þannig fram að við Íslendingar höfum verið upp við vegg og orðið að hrökkva eða stökkva. Ekki vex virðing mín fyrir málatilbúnaði hæstv. ríkisstjórnar í þessu sambandi að heyra slík svör eins og hér komu áðan frá hv. þm. Birni Bjarnasyni. ( Forseti: Forseti vill vekja á því athygli að hugmyndin var að upp úr klukkan hálffimm hæfist umræða um skýrslu um öryggis- og varnarmál. Forseti vill benda hv. þm. á að tveir möguleikar eru fyrir hendi, að hv. þm. fresti ræðu sinni fljótlega eða stytti mál sitt mjög og fel ég hv. þm. það í hendur að ákveða hvort hann gerir. Hugmyndin var að umræðu um skýrsluna lyki um klukkan sjö.) Forseti segir ræðumanni fréttir og ég spyr nú að því, til hvers er verið að gefa manni orðið hér ef maður er stoppaður af eftir eina og hálfa mínútu og sagt að nú hafi verið meiningin að hefja aðra umræðu. Ég kann satt best að segja ekki mjög vel við svona stjórn. Ég ætla að tala eins og mér sýnist í þessu máli og hef heilmikið að segja og stytti ekki mál mitt af þeim sökum þó mér séu færðar í ræðustólinn þær fréttir að það hafi staðið til að hefja umræðu um annað mál um það leyti sem mér er gefið orðið. Ég spyr nú bara aftur, hæstv. forseti, til hvers er verið að þessu? ( Forseti: Forseti getur fullvissað hv. þm. um að það var búið að tilkynna um þessa umræðu fyrr í dag. ( Gripið fram í: Var það ekki klukkan fimm?) Forseta hefur borist miði þar sem talað er um að þessi umræða hefjist upp úr 16.30. En það má vel leysa málið á þann veg að umræðan hefjist þá ekki fyrr en um klukkan 17 og þá bið ég hv. þm. að halda ræðu sinni áfram. Um það hafði verið samið.) Ég er að sjálfsögðu tilbúinn til að fresta máli mínu, hæstv. forseti, ef eftir því er leitað. Það er að sjálfsögðu velkomið af minni hálfu. Mér er ekkert kappsmál að halda þessa ræðu nákvæmlega núna, það má eins vera síðar á þessum sólarhring eða hvenær sem tími verður tekinn til þess á sólarhringnum, þannig að ég bið hæstv. forseta einfaldlega að gera mér aðvart ef forseti óskar eftir því að ég geri hlé á ræðu minni, en ég get haldið áfram á meðan forseti óskar þess. En það er rétt að taka það fram að ég ætla að tala eins og efnið býður upp á og ég hef þörf til en ekki afmarka ræðutíma minn af einhverju öðru. ( Forseti: Forseti vill upplýsa eftir að hafa rætt við málshefjanda um skýrslu um öryggis- og varnarmál, að hann segir að það hafi verið talað um að þessi umræða gæti haldið áfram allt að því til klukkan fimm og bið ég því hv. þm. afsökunar þar sem hér ber ekki alveg saman, en sem sagt ég bið hv. þm. að halda áfram ræðu sinni.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir það, þá er málið vonandi komið á hreint.
    Hæstv. forseti. Ég var í upphafi máls míns að taka undir þau mótmæli sem fram hafa komið bæði í nál. minni hlutans og eins í umræðum um þetta mál varðandi vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar og hafna með öllu þeim rökum að okkur Íslendingum hafi borið einhver nauðsyn til að hrökkva eða stökkva eins og okkur hafi verið stillt upp við vegg í þessu sambandi og taka um það ekki minni ákvörðun en þá hvort við gerumst aðilar að þessu hernaðarbandalagi eða ekki, undir þá einhverri tímapressu og ef skilja mátti orð

hv. formanns utanrmn., Björns Bjarnasonar, þannig áðan að þetta réttlætti það að hunsa lögbundið samráð t.d. við utanrmn. Alþingis þá er ég algjörlega mótfallinn slíkum málflutningi, tel hann ekki sæmandi. ( BBj: Þetta er misskilningur.) Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin meira og minna skáskaut sér með þetta mál bakdyramegin og laumaðist til þess að ákveða aukaaðild að þessu hernaðarbandalagi án þess að uppfylla svo mikið sem lögbundna samráðsskyldu t.d. við utanrmn. Þetta liggur fyrir. Það er meira og minna farið aftan að þessum hlutum öllum. ( JBH: Nei.) ( BBj: Þetta er áreiðanlega misskilningur.) (Forseti hringir.) Þetta er enginn misskilningur, hv. frammíkallendur, þetta liggur fyrir. Menn geta gefið öllu nafn, einhverri blaðagrein eftir hv. þm. Björn Bjarnason eða einni setningu í ræðu, að þar með hafi farið fram umræður um þetta og málið hafi verið kynnt. Þó að menn líti stórt á sig og ég efa ekki að hv. þm. Björn Bjarnason geri það, en með fullri virðingu fyrir greinaskrifum hans eða ræðum þá jafngildir það ekki þessu samráði sem lögin hafa gert ráð fyrir að væru um svona meiri háttar utanríkismálefni. Það er nú ekki svo.
    Ég tel þetta auðvitað, hæstv. forseti, einhverja örgustu tímaskekkju sem lengi hefur borið að í íslenskum stjórnmálum að fara að troða Íslendingum inn í Vestur-Evrópubandalagið nú um þessar mundir. Íslendingum, vopnlausri smáþjóð, einmitt við þær aðstæður að heldur friðvænlegar horfir í heiminum, annað meginhernaðarbandalagið er liðið undir lok og hitt á í tilvistarkreppu og er að flandra fram og til baka um heiminn að reyna að leita sér að einhverjum nýjum verkefnum, rétt eins og fyrirtæki sem vantar verkefni eða stofnun sem þarf að fara í leiðangur til að réttlæta tilvist sjálfrar sín. Og er nú skaði að Parkinson heitinn skuli vera dauður því hann hefði örugglega getað gerst ráðgjafi hjá NATO við það að finna því tilgang, hann var sérfróður í því að kryfja það til mergjar hvernig stofnanir og fyrirtæki leitast ævinlega við að réttlæta tilvist sjálfs sín og helst auka umfang sitt reglubundið eitthvað á hverju ári. Auðvitað er þetta nákvæmlega eins með NATO.
    Vestur-Evrópusambandið er, eins og margoft hefur komið fram eða hefur a.m.k. verið hugsað, að verða einhvers konar hernaðararmur Evrópubandalagsins. Þess gætir auðvitað æ meira í alþjóðasamskiptum að Evrópubandalagsríkin komi fram sem blokk. Til að mynda hefur það gerst á síðustu árum að einn ráðherra hefur tekið til við að tala fyrir hönd allra Evrópubandalagsríkjanna víða á alþjóðavettvangi. Þannig er t.d. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna núna bæði í nefndum og jafnvel á allsherjarþinginu þegar sá utanrrh. talar sem fer með forustu fyrir Evrópubandalaginu það missirið, þá er sagt að hann tali fyrir hönd ríkjanna tólf og þar með er verið að reyna að gefa þessu sífellt meira þann blæ að hér sé á ferðinni ríkjasamsteypa eða ríki sem tali einum rómi. Það er auðvitað ætlun þeirra sem lengst vilja ganga í samrunanum innan Evrópubandalagsins að samræma einnig hernaðarstefnuna. Gegn því er hins vegar mikil andstaða eins og kunnugt er. Þar á meðal eru til að mynda Evrópubandalagsþjóðir sem alls ekki vilja taka þátt í hernaðarsamstarfinu innan Vestur-Evrópusambandsins og má þar nefna Íra, sem reyna að halda í sitt hlutleysi eins og kunnugt er, og frændur okkar Dani. Mér finnst það merkilegt að hér hefur sáralítið verið fjallað um þá staðreynd að sú Norðurlandaþjóðanna sem þó er í Evrópubandalaginu, neitar að taka þátt í hernaðarsamstarfinu innan Vestur-Evrópusambandsins og hefur ákveðið að gera það ekki, ef ég veit rétt. Það finnast mér vera enn frekari rök fyrir því að við Íslendingar séum ekki að þvæla okkur inn í þetta enda í raun og veru fráleitt og hér hafa engin efnisleg rök komið fram sem réttlæta það eða rökstyðja að við Íslendingar höfum af því eitthvert gagn, einhverjar hagsbætur. Og hverjar ættu þær að vera fyrir vopnlausa smáþjóð annað en að hafa af þessu einhvern kostnað og að það fái einhverjir fínir karlar að fara þarna út og sitja á fínum fundum og fara í fínar veislur og vera meðlimir í þessum klúbbi, að vísu aukameðlimir. Þeir fái að sitja á aftari bekkjunum eins og prúðir og stilltir smásveinar. Auðvitað er þetta það sem þetta meira og minna snýst um að það eru einhverjir hégómlegir menn sem langar til að vera gjaldgengir í þessum klúbbi og skyldi það nú ekki vera svo að þeir gætu sjálfir hugsað sér að verða sendifulltrúarnir eða sækja þessa fundi og ráðstefnur, t.d. hv. þm. Björn Bjarnason? Ég býst við, að hann sem er alvanur ferðalögum á slíkar samkundur og hefur t.d. valið sér að ferðafélaga og nýlega farið á fund Bildenberg-samtakanna með ekki ófínni förunaut en hæstv. iðn.- og viðskrh. og veri hann velkominn í þann klúbb og Alþfl., að slíkir menn sjái sjálfa sig í draumum sínum fyrir sér sem þátttakendur á þessum fínu fundum og í þessum klúbbum. Annað verður ekki úr þessu í besta falli, a.m.k. vona ég það að þetta verði ekki annað en flandur af því tagi af okkar hálfu. Ég geri ekki ráð fyrir því að það verði mikið gert með Íslandsmanninn á þessum vettvangi enda í sjálfu sér ekki tilefni til. En tímaskekkja er þetta auðvitað fram úr öllu hófi. Ef menn á annað borð taka eitthvert mark á því sem menn gjarnan vilja gera að hlutirnir séu að þokast í rétta átt, kalda stríðinu sé lokið og þær óvinaímyndir sem einkenndu umræðuna á þeim tíma liðnar undir lok. Hvers vegna í ósköpunum ættu einmitt þá Íslendingar við þær aðstæður að fara að troða sér inn í nýtt hernaðarbandalag, nýlenduþjóðanna í Evrópu, sem auðvitað verður undir leiðandi forustu kjarnorkuveldanna í Evrópubandalaginu, Breta og Frakka, og að nokkru leyti þá Þjóðverja eftir því sem þeir eru í vaxandi mæli að gera sig gildandi á þessum vettvangi? Hafa menn trú á því að Íslendingar almennt séu mjög spenntir t.d. fyrir því að fara að taka þátt í eða skrifa í vissum mæli upp á kjarnorkuvígbúnaðarstefnu Frakka, framferði Frakka á Kyrrahafinu? Eða þá stefnumörkun sem hér er stuðst við, sem Vestur-Evrópusambandið byggist á ekki síður en NATO og kjarnorkuveldi NATO, að áskilja sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði, að leggjast gegn ályktunum um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn af því að þeir vilja halda í réttinn til þess að ekki bara að eiga slík vopn, gera tilraunir með slík vopn, heldur nota þau að fyrra bragði í hernaðarátökum? Ég leyfi mér að fullyrða það að ef slík spurning væri

lögð fyrir Íslendinga í skoðanakönnun eða með einhverjum öðrum hætti í kosningum t.d., þá mundi 95% þjóðarinnar hafna því algjörlega að koma nálægt slíkum hlutum. Þannig að þetta er auðvitað svo gjörsamlega andstætt öllu held ég sem stendur okkur Íslendingum sem vopnlausri smáþjóð næst að engu tali tekur.
    Síðan er þetta auðvitað sú spurning hvers vegna ættu Íslendingar að gerast aðilar að Vestur-Evrópusambandinu ef þeir ætla ekki inn í Evrópubandalagið? Hvers vegna í ósköpunum? Það er í beinni mótsögn að fara að blanda sér inn í þessi mál, hernaðarsamvinnu Evrópubandalagsríkjanna sem ekki einu sinni öll þeirra vilja taka þátt í, samanber það sem ég áður sagði um Dani og Íra og ef ég man rétt er það eitthvert eitt Evrópubandalagsríki enn sem ekki hefur tekið þátt í Vestur-Evrópusambandinu. Kannski geta þessi kunnu áhugamenn um það mál upplýst það hér af hverjum þetta bandalag samanstendur nú um stundir.
    Ég held að það sé alveg fráleitt að við, ef maður á að taka mark á því að enn ríki um það samstaða á Íslandi að við ætlum ekki inn í Evrópubandalagið, séum þá að fara inn í þetta bandalag. Alveg fráleitt. Við eigum auðvitað að leggja okkar lóð á vogarskálar málefna afvopnunar, málefna fjölþjóðasamninga, um takmörkun vígbúnaðar og sem betur fer þá miðar heilmikið í þeim efnum. Það eru auðvitað stórkostlegir hlutir að gerast hvað varðar samningagerðina, t.d. um efnavopn og hvers kyns eitur- og sýklavopn þar sem margra ára samningalotu er núna að ljúka með farsælum hætti. Vonandi takast samningar um að framlengja samninginn um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna en þann samning þarf eins og kunnugt er að endurnýja fyrir 1996, ef ég man rétt, til þess að gefa honum framhaldslíf og það er mikil umræða um samninga og niðurstöður sem tengist takmörkunum eða banni við tilraunum með kjarnorkuvopn. Fleira mætti nefna af þessu tagi sem vissulega er í rétta átt og að slíkum hlutum eigum við að starfa og einbeita okkur. Ef við eigum einhverja peninga eða einhvern mannafla aflögu í utanríkisþjónustunni eða annars staðar í íslenska stjórnkerfinu þá er þeim betur varið í það að taka þátt í slíku starfi en að fara að flækjast með í Vestur-Evrópusambandinu. Það fullyrði ég.
    Að lokum vil ég svo segja það, hæstv. forseti, að ég fagna auðvitað mjög þeirri samstöðu sem tekist hefur með stjórnarandstöðunni um að hafna þessari tillögu um aðild að Vestur-Evrópusambandinu eða aukaaðild, ég tel það að mörgu leyti mikilsvert og talsvert merkileg tímamót að slík samstaða hefur hér tekist að hafna því með öllu. Ég er alveg sannfærður um það að þessi afstaða stjórnarandstöðunnar á mikinn hljómgrunn úti í þjóðfélaginu. Ég þyrði óhikað að leggja það í dóm þjóðarinnar við núverandi aðstæður hvort við Íslendingar ættum að koma nálægt þessu eða ekki og auðvitað ætti að gera það ef allt væri með felldu hér. Þetta er auðvitað stórkostlega afdrifarík ákvörðun að mínu mati og hefur allt of litla athygli hlotið sem slík að þarna er verið að þvæla Íslandi inn í hernaðarbandalag sem enginn veit hvað kann að hafa í för með sér í fyllingu tímans, enginn veit hvernig kann að þróast og inn í hvaða skuldbindingar eða hluti við drögumst eða tengjumst með því að fara að taka þátt í þessu starfi sem þarna fer fram.
    Ef til vill dagar þetta uppi og ef til vill koðnar þetta niður eins og að mörgu leyti margt bendir til að hugmyndir sameiningarsinna á meginlandi Evrópu, þeirra sem lengst vilja ganga þar, séu að gera þessa mánuðina, þ.e. að snúast að sumu leyti upp í andhverfu sína, a.m.k. sé að stöðvast sú hraða samrunaþróun sem ýmsir töldu að væri þar á fullri ferð og yrði ekki aftur snúið með. Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan Danir leystu Evrópu úr álögum og mönnuðu sig upp í að fella Maastricht-samkomulagið í frægri atkvæðagreiðslu fyrir tæpu ári síðan og flestir mundu viðurkenna að margt horfi öðruvísi um samrunaferlið í Evrópu og samstarf Evrópuþjóða heldur en þá var talið. Það mun að sjálfsögðu geta haft mikil áhrif á lífdaga og störf Vestur-Evrópusambandsins hvernig þeir hlutir þróast og e.t.v. á þetta bandalag eftir að leggjast í dvala aftur á nýjan leik eins og það lengst af hefur reyndar haldið sig, alveg frá því að það var stofnað 1948, eða hvenær það nú var. Og færi betur að það sofnaði og helst náttúrlega svefninum langa eins og önnur slík sambærileg fyrirbæri, hernaðarbandalög, sem eru auðvitað sorglegar leifar hugsunarháttar sem er orðinn gjaldþrota í heiminum og hefur átakanlega sannað skipbrot sitt, hugsunarháttur vígbúnaðarins og vígbúnaðarkapphlaupsins og vígvæðingarinnar og fælingarinnar sem skilur ekkert eftir sig nema óleysanleg vandamál þar sem vígbúnaður hefur hlaðist upp á einstökum landsvæðum og nægir að horfa til Júgóslavíu um dæmin hvað af því getur hlotist þar sem illa tekst til.
    Ég tek þess vegna sérstaklega undir þá setningu sem hér er í nál. minni hlutans að stærsta ógnunin við öryggi Íslendinga er auðvitað þessi arfleifð kalda stríðsins sem liggur í gífurlegum vopnabirgðum og kjarnorkuvæðingu heimsins og ekki síst heimshafanna. Það er nú eins og kunnugt er angi af stefnu þessara bandalaga bæði Vestur-Evrópusambandsins og NATO að ekki aðeins áskilja sér rétt til þess að halda kjarnorkuvopn, gera með þau tilraunir og beita þeim að fyrra bragði ef á þau yrði ráðist, heldur einnig að játa hvorki né neita tilvist þeirra á einhverjum einstökum stað, í skipi eða flugvél, og áskilja sér rétt til að ferðast með slík tól um heimshöfin allt upp að 12 mílum án nokkurra takmarkana eða möguleika þjóða til að takmarka síka umferð.
    Þetta er auðvitað gjörsamlega óviðunandi réttarstaða fyrir strandríki og eyþjóðir eins og Íslendinga eins og þessi mál standa í dag að hernaðarveldin skuli í krafti stærðar sinnar og neitunarvalds á alþjóðavettvangi hafna öllum hugmyndum um að hægt sé að setja einhverjar reglur um umferð og meðferð slíkra hluta á höfunum. En eins og kunnugt er þá beita herveldin því fyrir sig að í skjóli ákvæða um frjálsa för skipa á heimshöfunum og loftfara um loftrúmið sé þeim frjálst að ferðast að vild með kjarnorkuvopn eða á kjarnorkuknúnum farartækjum um öll heimsins höf upp að 12 mílna landhelgi og lofthelgi þjóða. Það

væri nær að einbeita kröftunum að því að ná fram útbótum í slíkum efnum heldur en fara að ráðstafa mannafla og fjármunum í að dandalast á einhverja fundi sem aukaaðilar að þessu Vestur-Evrópusambandi. Það verða satt best að segja ekki mjög rismikil ferðalög að mínu mati eða uppbyggileg þátttaka af okkar hálfu á fundum af því tagi hverjir sem sendimennirnir nú verða.
    Herra forseti. Ég vildi ekki láta hjá líða að nota þetta tækifæri þar sem ég hef ekki tekið mikinn þátt í fyrri umræðum um þetta mál að lýsa yfir algerri andstöðu minni við þessi áform og lýsa því yfir að ég mun áskilja mér allan rétt til að berjast gegn því á komandi árum, fari svo hrapallega að okkur verði flækt inn í þetta nú, að við slítum okkur þá út úr því samstarfi.