Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 20:39:01 (7517)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Eins og allir vita höfum við Íslendingar eitt og annað að greiða og það hefur ekki verið afgangur á fjárlögum Íslands, en engu að síður erum við í vaxandi mæli þátttakendur í ýmsum kostnaði úti í Evrópu. Ég minnist þess að við erum þátttakendur í banka sem við stofnuðum þar, hlutafélagsbanka, og mér er það minnisstætt hversu hressir margir þingmenn voru með það að greiða atkvæði með því á sínum tíma og allir vita nú hvernig hagað er fjármunum þess banka og hvernig þau mál standa. Það hefur ekki verið gerð nein grein fyrir arði til íslenska ríkisins af þeirri bankastofnun og ég á ekki von á því að svo verði.
    Hér erum við að taka á okkur fjárhagslegar skuldbindingar vegna þess að Íslendingar hafa ákveðið að gerast aðilar, aukaaðilar að vísu, að Vestur-Evrópusambandinu. Það er með þetta eins og fleira, ríkisstjórnin tekur sínar ákvarðanir og svo er komið með hlutina til þingsins eins og um orðinn hlut sé að ræða.
    Ég held að það sé óhjákvæmilegt að fara örlítið yfir sögu Evrópu frá því að heimsstyrjöldinni síðari lauk. Það vill svo til að heimsstyrjöldin síðari hafði meiri áhrif til þess að breyta Evrópu og heiminum reyndar öllum en nokkur önnur styrjöld sem háð hefur verið. Ríkin tvö sem þá biðu ósigur, Þýskaland og Japan, gengust undir skuldbindingar um að verja ekki fjármunum til hernaðar. Í Þýskalandi er það stjórnarskrárbundið að þýskur her má ekki fara út fyrir Þýskaland til þess að berjast. Þessi lönd tvö, Þýskaland og Japan, hafa haft rýmri fjárráð en önnur iðnríki heimsins til þess að byggja upp sitt efnahagslíf og

í dag standa þessi tvö ríki upp úr hvort í sínum heimshluta, þ.e. Þýskaland sem algjör efnahagslegur sigurvegari í Evrópu og Japan sem algjör efnahagslegur sigurvegari í Asíu. Staða Japans er nú reyndar það sterk að það má orða það svo að þeir séu efnahagslegur sigurvegari í heiminum.
    Í Evrópu standa málin þannig að Bretar, sem voru leiðtogar í stóru heimsveldi, hafa nú fjárhagslegt bolmagn nánast til þess eins að geispa og minnast hinna gömlu góðu daga. Ekki er nú meira risið á breska ljóninu en það að seinustu vígaferlin tengdust Falklandseyjum og satt best að segja hygg ég að fæstir Íslendingar hafi vitað af þeim eyjaklasa út af strönd Argentínu áður en til þeirrar styrjaldar kom. Hins vegar hafa Bretar að einu leyti sérstöðu. Þeir eru með meiri reynslu í stjórnunarhæfni en nokkur önnur þjóð í heiminum og að því leyti kemur það oft fram að yfirburðir Breta í mannlegum samskiptum hvað slíkt snertir eru staðreynd sem ekki er hægt að ganga fram hjá.
    Bretar hafa lagt á það höfuðáherslu allt frá því að heimsstyrjöldinni síðari lauk að efla eitt afl í vestrænni samvinnu í varnarmálum, þ.e. Atlantshafsbandalagið. Frakkar hafa aftur á móti haft þá skoðun alla tíð að það sé niðurlægjandi fyrir Evrópu að þurfa að hafa Bandaríkin með í Atlantshafsbandalaginu. Mér hefur stundum fundist að fyrir Frökkum hafi farist á nákvæmlega sama veg og fyrir Þorgeiri nokkrum Hávarssyni þegar hann hafði lent í þeirri lífsreynslu að hann átti líf sitt Þormóði að þakka. Það gat hann aldrei fyrirgefið honum að hann skyldi hafa bjargað lífi sínu og undi því illa að hafa á þann hátt, að honum sjálfum fannst, komist í þá stöðu að vera minni maður en Þormóður. Frakkar hafa aldrei getað fyrirgefið Bandaríkjamönnum það að hafa bjargað þeim undan Þjóðverjum. Það er slík niðurlæging sögulega séð, að Frakkar sjálfir skyldu ekki vera menn til þess að losna við þýska herinn, að þeir hafa reynt mjög að ala á þeirri sögulegu blekkingu að það hafi verið Útlendingahersveit Frakka sem hafi dugað það vel að það sé henni að þakka að Frakkland endurheimti sitt sjálfstæði á nýjan leik. Átökin voru svo hörð að á sínum tíma átti að hafa París sem höfuðstöðvar fyrir Atlantshafsbandalagið, en vegna sérhyggju hershöfðingjans gamla, de Gaulle, þá sprakk allt í loft upp á milli þessara aðila og höfuðstöðvarnar voru fluttar til Brussel.
    Ég held að það fari ekki á milli mála að það sem er að gerast í dag er að þessir aðilar hafa með sínum ákvörðunum reynt að finna leið fram hjá því sem þeir sömdu um í friðarskilmálunum á sínum tíma við Þjóðverja, þ.e. að það eru Bretar og Frakkar sem með þessu móti eru að stuðla að því, og þó sérstaklega eru það Frakkar, að þýskt fjármagn verði notað til þess að koma upp Evrópuher.
    Ég fer ekki dult með það að mér stendur veruleg ógn af þessari sérhyggju og það fer ekki á milli mála að þetta hefur verið gert í fullri andstöðu við Bandaríkjamenn jafnvel þó að þeir á yfirborðinu láti kyrrt liggja. Ég hygg að þetta verði til þess að Bandaríkjamenn muni í vaxandi mæli á næstu árum draga sig alveg burt frá Evrópu og segi sem svo: Við munum ekki skipta okkur meir af innbyrðis deilum Evrópuþjóða. Við höfum tvisvar þurft að fara með her yfir Atlantshafið til þess að skakka þar leikinn og við hefðum sennilega þó betur gert það í hvorugt skiptið, ef niðurstaðan er sú að þessar þjóðir vilja í reynd einn Evrópuher.
    Ég held nefnilega að það gleymist oft, bæði á Íslandi og í Evrópu, að í Bandaríkjunum líta menn svo á að þeir hafi virkilega fært fórnir í tveimur heimsstyrjöldum. Þeir æskumenn sem féllu á vígvöllum Evrópu voru að sjálfsögðu fórnin sem þeir færðu. Og í dag spyr ég sjálfan mig: Hvaða nauðir eru það sem reka í reynd ríki Atlantshafsbandalagsins til þess að mynda nú tvær fylkingar í varnarmálum? Hvaða nauðir eru það? Svarið er ósköp einfalt: Ástæðan er sú að Evrópa vill ekki una því að búa aðeins við það að hafa heimildir til þess að beita sínum her ef á hana er ráðist. Evrópa vill koma sér upp her til þess að skakka leikinn eins og hún telur að hún hefði gert t.d. í fyrrverandi lýðveldum Júgóslavíu ef þessi Evrópuher hefði verið til staðar.
    Ég er aftur á móti ekki búinn að sjá það að vandamál heimsins verði leyst, hvorki á Balkanskaganum né á öðrum jaðarsvæðum Evrópu og Asíu með því að Evrópuher skerist þar í leikinn. Ég er sannfærður um það að hernaðaraðgerðir sem ekki hljóta blessun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna munu ekki verða af hinu góða fyrir mannkyninð. Þær munu tvímælalaust verða til þess að auka hernaðarandann í heiminum og þá hugsun að sá sterki eigi að hafa rétt til þess að láta vopnin tala og taka sér í hendur lögreglueftirlit á hinum ýmsu svæðum jarðarinnar án þess að Sameinuðu þjóðirnar hafi samþykkt það.
    Ég vil minna á það að á sama tíma og Íslendingar hafa verið mjög örir á það að samþykkja fullveldi landa án þess að ganga eftir þeirri eðlilegu kvöð að það liggi fyrir að ríkisstjórnir viðurkenni mannréttindi í þeim löndum sem eru að verða fullvalda, þá höfum við með þeirri ákvarðanatöku að sækja þarna um aukaaðild í reynd skipað okkur í þá fylkingu að hálfu leyti að færa okkur nær hernaðarumsvifum Evrópu en við höfum áður gert.
    Það er eitt sameiginlegt með Bandaríkjamönnum og Íslendingum. Báðar þessar þjóðir lifðu við erlenda áþján um aldaskeið. Aftur á móti er það sérkenni Evrópu og þeirra sem munu stjórna þeim Evrópuher sem hér er verið að byggja upp, að forfeður þeirra voru nýlenduherrar heimsins og hafa engu gleymt í þeim efnum. Ég er ekki trúaður á það að Evrópa sem slík vinni neina hernaðarsigra, ég er ekki trúaður á það. Evrópa er landfræðilega séð tengd Asíu og ef horft er á það út frá mannafla, þá blasir það við að Asía er svo margfalt stærri að það mætti heldur betur vera tæknilegur munur á milli þessara þjóða ef Evrópa ætti að koma betur út í styrjöld ef hún færi í stríð við Asíu. Hins vegar blasir sú hætta við og þýðir ekki að blekkja sig í þeim efnum.

    Ég veit að menn hafa alfarið sumir hverjir hafnað því að nokkrar stórkostlegar styrjaldir eigi eftir að verða á þessari jörð. Auðvitað vill enginn að slík styrjöld ætti sér stað, auðvitað vona allir að hún verði ekki. En ef menn skoða mannkynssöguna og meta það kalt og rólega út frá líkindum, þá er mjög margt sem bendir til þess að hinn mikli þéttleiki í mannfjölda sem er í Asíu geti orðið til þess að þeir leiti eftir meira landi sem hvergi er að finna nema annars vegar í Síberíu og hins vegar í Ameríku og því er styrjaldarhætta raunveruleg. Þetta segi ég hér vegna þess að valdayfirráð á þessum hnetti hafa í gegnum tímabilin færst frá einu svæði til annars. Það sem ég óttast með tilkomu þessa nýja bandalags sem hér hefur verið stofnað er að það sé ekki hægt að treysta því jafn vel og innan Atlantshafsbandalagsins að menn láti sér nægja að standa að landvörnum.
    Heilar þjóðir fá á sig ímynd eftir ýmsum leiðum. Bretar hafa t.d. haft það sem orðatiltæki um Frakka að þeir væru lagnari að komast í stríð en að standast þau og það sem mér finnst í þeirri stöðu sem nú blasir við er það að Frakkar munu óneitanlega verða mjög sterkur áhrifaaðili í ákvarðanatöku innan þessa nýja sambands. Ef einhver þjóð er þar dálítið til hliðar í hinni nýju Evrópu af þessum þremur þjóðum sem þar hafa haft mest völd, þá fer ekki milli mála að það eru Bretarnir. Þeir eru til hliðar. Frakkar munu leggja höfuðkapp á það að standa fast við hlið Þjóðverja og þeir munu leggja höfuðkapp á það líka að frönsk áhrif í hinum nýja Evrópuher verði tryggð.
    Ég hef ekki trú á því að Þjóðverjar muni leggja kapp á það að hafa þar forustu. Sögulega séð er það kannski svo að Þjóðverjar eru eina þjóðin sem vildi gjarnan að þeir mættu tefla upp á nýtt viss tímabil á þessari öld. Ég tel þess vegna að með þýsku fjármagni og franskri fljótfærni stafi Evrópu meiri hætta af þessum nýja her sem menn hafa verið að koma upp heldur en flestu öðru sem þeir hafa verið að dunda við að undanförnu og það er engin tilviljun að með þessu líta Frakkarnir svo á að þeir séu raunverulega búnir að endurheimta fullt sjálfstæði Evrópu á ný eftir seinni heimsstyrjöldina.
    Menn hafa sumir hverjir viljað hafa horn síðu Atlantshafsbandalagsins og þó sérstaklega Bandaríkjamanna. Persónulega er ég þeirrar skoðunar að engin þjóð hafi unnið meir að því að efla lýðræðið í heiminum en Bandaríkjamenn og kannski er það ekkert skrýtið því að sá skilningur Stalíns þegar heimsstyrjöldinni síðari lauk, að þessi heimsstyrjöld væri að því leyti sérstæðari en aðrar að sigurvegararnir mundu yfirfæra sitt stjórnunarkerfi til þeirra ríkja sem þeir hefðu brotið á bak aftur, reyndist sögulega rétt og það var það sem raunverulega gerðist.
    Mér er ljóst að Björn Bjarnason, sem er ungur maður, telur sig hafa unnið nokkuð stóra sigra í utanríkismálum með því að hafa þar um meira að segja en aðrir ungir menn sem hafa komið inn á Alþingi Íslendinga á undanförnum árum. Samt er það svo að ég gruna hann um það að hafa gleymt þeirri gömlu setningu í landafræðinni sem hann mun hafa lært þegar hann var í skóla og hljóðaði eitthvað á þá leið að Balkanskaginn væri púðurtunna Evrópu. Og óneitanlga fer það ekki á milli mála að núv. utanrrh. þessarar þjóðar hefur farið allóvarlega með eldfærin í nágrenni við þá púðurtunnu og blóðbaðið sem á sér stað í Júgóslavíu er á ábyrgð vestrænna þjóða sem töldu að það væri hægt að komast að þeirri niðurstöðu að samþykkja að viss landssvæði innan Júgóslavíu yrðu gerð að sjálfstæðum ríkjum án þess að til blóðbaðs kæmi. Þeir samþykktu þetta og svarið var blóðbað. Þess vegna hlýtur maður að spyrja: Hvernig yrði því tekið í Kanada ef einhver þjóð tæki sig til fyrir utan Kanada og samþykkti það að Quebéc yrði sjálfstætt ríki? Yrði það samþykkt af Kanada? Mundi það ganga fyrir sig með friði eða yrði það til þess að vopnum kanadíska hersins yrði beint að Quebéc og þeir sem þar væru innan veggja yrðu teknir af lífi ef þeir sýndu mótspyrnu? Ég held nefnilega að Íslendingar hafi stundað mjög glannalega utanríkispólitík og vestrænar þjóðir líka og þó að lávarðurinn hóti nú hörðu eftir að hafa verið dreginn á asnaeyrunum alllengi í friðarviðræðunum varðandi Júgóslavíu, þá hefur það ekkert að segja, það hefur ekki stöðvað neitt blóðbað. Vestur-Evrópusambandið sem hér er verið að tala um að setja á stofn, hefur haft þá trú að þeir geti tekið að sér lögregluhlutverk.
    Hér er látið að því liggja í þessari tillögu að þeir geri ráð fyrir því að það verði fyrst og fremst í umboði Sameinuðu þjóðanna sem þeir starfi. Það þarf ekkert sameiginlega yfirstjórn yfir herafla Evrópu til þess að þeir geti starfað í umboði Sameinuðu þjóðanna. Það er alger blekking að halda því fram. Það er alveg nóg undir þeim kringumstæðum að hver þjóð leggi fram hermenn inn á þessi svæði. Hitt er alger blekking. Þess vegna er hér verið að tína fram hluti sem eru hreinar lygar og eru raunverulega til þess eins að draga fjöður yfir það sem verið er að gera. Auðvitað munu allar þjóðir heims sem eru innan Sameinuðu þjóðanna undir vissum kringumstæðum leggja til friðargæsluliðsmenn inn á svæði þar sem órói er ef þessar þjóðir á annað borð hafa her. Það þarf enga yfirstjórn til þess. Málið er einfalt. Það er fyrst og fremst verið að gera það kleift með þessum aðgerðum að tryggja það að hægt sé að setja þýskt fjármagn í hernaðaruppbyggingu í Evrópu og þetta veit hv. formaður utanrmn., Björn Bjarnason, mætavel.
    Það er nú svo komið að hv. formaður þingflokks Alþfl., 17. þm. Reykv., er nú kominn hér í salinn og verður það nú að teljast til tíðinda. ( ÖS: Það er rangt.) Ég býð hann að sjálfsögðu velkominn í salinn, en ég ég áttaði mig ekki á því hvað veldur að hann vill heiðra þingsalinn með nærveru sinni þessa stundina.
    En burt séð frá því þó að menn haldi fram hlutum eins og þeim að það eigi að stofna þennan her til þess að fara að vinna fyrir Sameinuðu þjóðirnar sem allir vita að er alrangt, þá blasir það við að Evrópa er í dag að ráðgera miklar refsiaðgerðir gegn Serbum á sama tíma og Króatarnir eru að vinna sams

konar verk, nákvæmlega eins verk en að vísu í minna mæli. Og þá vaknar ein spurningin: Ef matvæli verða af skornum skammti í Svartfjallalandi og Serbíu, hverjir munu fyrstir falla úr hungri? Verða það hermennirnir sem nauðguðu múslimakonunum sem falla fyrstir? Eða verða það konur og börn á þessu svæði? Meti það nú hver fyrir sig hvaða líkur séu á því að það verði hermennirnir sem falli fyrstir. Ég hef ekki trú á því. Ég hef trú á því að barnadauði muni stóraukast á svæðinu. Ég hef trú á því að gamalmenni muni falla. Ég hef trú á því að konur muni miklu fremur falla úr vosbúð og hungri en karlmennirnir á þessu sviði. Sannleikurinn er nefnilega sá að Evrópa er búin að setja af stað þann eld á þessu svæði sem hún þorir ekki að slökkva. Svo einfalt er það mál. Frakkar þora ekki að senda herlið inn til Júgóslavíu einfaldlega vegna þess að þeir minnast þess að Serbarnir voru það harðir bardagamenn á sínum tíma að þeir gáfust aldrei upp fyrir nasistunum. Þeir vilja ekki fórna sínum mönnum. Bretar vilja það ekki heldur. Og þó var það svo að fyrrv. forsrh. Bretlands, Thatcher, hélt því fram að vestrænar þjóðir gætu ekki annað en farið inn með her. Og auðvitað væri sú aðgerð það eina sem mundi stöðva þessa slátrun, stöðva slátrunina á þeim sem ekki bera á henni ábyrgð, en hinir sem standa með vopnin reidd yrðu að sjálfsögðu að verjast og lúta ofurefli.
    Ég er sannfærður um það að undir mörgum kringumstæðum þarf að skakka leikinn í þessum heimi á næstu árum. Það blasir við að það verður víða óróleiki. En sú stefna sem Evrópa hefur markað að við leysum úr vandamálum á milli þjóðarbrota með því að veita ákveðnum löndum sjálfstæði, sú stefna er skipulögð aðgerð til borgarastyrjalda ef hún er framkvæmd á þann hátt sem gert var í Júgóslavíu. Ef við látum mannréttindin vera nr. 2 en þjóðrembinginn nr. 1, þá fer illa fyrir mannkyninu. Það eru mannréttindin og aftur mannréttindin sem skipta öllu máli á þessum svæðum. Sambandslýðveldi sem hefði virt mannréttindi þegnanna í Júgóslavíu var miklu líklegra til þess að geta leyst þessi vandamál heldur en sú hugsun að hluta landið í sundur. Ég get ekki varist þeirri hugsun að þarna á bak við hafi legið viss hefnd vegna þess að þetta land hafi lotið stjórn kommúnista á undanförnum árum.
    Auðvitað er það svo að Maastricht-samkomulagið stefnir að því að gera Evrópu að einu ríki, einu ríki sem talar fjölmörg tungumál. Og Evrópuher gæti líka verið notaður til að halda því ríki saman. Mér er spurn: Trúum við því að eitt fjarskiptanet sé svo mikils virði að á þeirri forsendu eigum við að vera þarna með? Trúum við því í alvöru að Ísland eigi einhverja samleið með þessum þjóðum ef þær taka ákvarðanir um hernaðarleg átök? Ég segi nei. Ég hef stutt aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Ég hef gert það út frá því sjónarmiði að ég hef trúað því að vera Bandaríkjamanna í Atlantshafsbandalaginu tryggði það að þeir mundu ekki fara með her á hendur öðrum þjóðum í Evrópu þó að innanlandsátök yrðu á ákveðnum svæðum. Það yrði ekki gripið til vopna nema á bandalagið yrði ráðist. Og við höfum horft á átök í Tékkóslóvakíu. Við horfðum á átök í Ungverjalandi og Atlantshafsbandalagið hreyfði sig ekki. Menn mega deila um hvort þetta sé rétt eða rangt. Ég tel að það hafi verið rétt að hreyfa sig ekki.     Mér finnst það skjóta dálítið skökku við svo ekki sé meira sagt þegar Austur-Evrópa hefur látið af því að hafa hernaðarbandalag og þegar viðurkennt er að stjórnarhættir á því svæði öllu þokist í þá átt að verða sambærilegir við það sem er á Vesturlöndum, að undir þeim kringumstæðum detti mönnum í hug að það sé brýnasta málið sem vestræn stjórnvöld hafi við að glíma, það sé að stofna Evrópuher, það sé brýnasta málið á sama tíma og atvinnuleysi sækir á um alla Evrópu, á sama tíma og kreppa er um Evrópu, þá sé brýnasta málið að stofna Evrópuher. Ég veit ekki hvort formaður utanrmn. Íslands, hv. þm. Björn Bjarnason, er þeirrar skoðunar að svo sé.
    Vissulega hafa menn notað her í Evrópu í tvennum tilgangi, annars vegar til þess að ráðast á aðrar þjóðir, hins vegar til þess að aga eigin þjóðir. Og vissulega hefur Ísland átt stjórnmálaleiðtoga sem mat það svo að Bismarck væri einhver mesti hæfileikamaður sem Evrópa hefði haft sem stjórnmálamann og vissulega skal það viðurkennt að Bismarck var mikilhæfur. En hann var ekki kallaður járnkanslarinn eða kenndur við járn út í bláinn.
    Núna er það svo að Evrópa mun trúlega vera með um 20% af sínum þegnum í lok þessarar aldar 67 ára og eldri. Ekkert svæði heimsins er jafngamalt. Ég held að sú staðreynd ætti að duga til þess að minna þá á það að það sem Evrópa þarfnast mest í dag, er ekki að byggja upp Evrópuher.