Opnun sendiráðs í Peking

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 22:10:17 (7532)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég sá að hæstv. utanrrh. var hér að fylgjast með umræðu og ég vænti þess að hann sé að því enn því ég tel rétt að inna hann dálítið eftir stefnu íslenskra stjórnvalda í þeim málum sem tillagan lýtur að. Ég vil segja um efnisatriði tillögunnar að það er auðvitað af hinu góðu og ekki nema gott um það að segja að menn vilji gera átak til þess að auka útflutning frá okkur til annarra ríkja og er sjálfsagt að taka við slíkri tillögu með opnum huga. En þar sem ég tel að í þessari tillögu séu atriði sem að nokkru leyti stangast á við skýrslu utanrrh. um utanríkismál sem nýlega var hér til umræðu, þá þykir mér rétt að inna ráðherrann eftir afstöðu hans til þessarar tillögu eða hvort hér sé um að ræða stefnubreytingu.
    Ég vil fyrst segja um ályktunina um að opna sendiráð í Peking og viðskiptaskrifstofu í Suður-Kína að að þessu er vikið, samskiptum við Kína, í skýrslu utanrrh. á bls. 25, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Með hliðsjón af þeirri jákvæðu þróun, sem átt hefur sér stað í Kína á undanförnum árum, er eðlilegt að hugað verði að eflingu samskipta Íslands og Kína en að jafnframt að lögð verði áhersla á úrbætur í mannréttindamálum.``
    Það er tengt saman í þessari skýrslu og mér þykir því rétt að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort búið sé að falla frá því atriði, hinu síðara, þ.e. að leggja áherslu á úrbætur í mannréttindamálum í Kína samhliða eflingu samskipta. En þáltill. aftengir þetta mál.
    Annað atriðið sem ég hnýt aðeins um í tillögunni er að í ályktunargreininni segir að utanrrh. undirbúi sameiningu sendiráða í Evrópu sem nemur fækkun sendiráða um 2--3 augljóslega í þeim tilgangi að

draga þar úr starfsemi til mótvægis við aukninguna fyrir austan þannig að ekki sé verið að stofna til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Mér finnst það ekki ríma við stefnu ríkisstjórnarinnar um EES. Ég hef skilið mál manna sem því máli fylgja á þann veg að menn ætluðu þvert á móti að leggja aukna áheslu á að vinna markaði í Evrópu og mér finnst það trauðla vera leiðin til þess að draga úr starfsemi sendiráða þar og fækka þeim jafnvel um 2--3. Mér þykir því rétt, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. ráðherra utanríkismála að því hvort hann sé sammála þessari ályktunargrein að það sé rétt að sameina sendiráð í Evrópu og fækka þeim um 2--3 og hvort það sé í takt við þau markmið sem menn hafa sett sér með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Þriðja atriðið sem mig langaði til að nefna, virðulegi forseti, er það sem fram kemur í grg. með ályktunartill. um sendiráð í Japan og að það hafi verið gerð könnun á því og niðurstaðan hafi verið sú að aðilar í einkarekstri og viðskiptum hefðu málin á sinni könnu án tilkomu sendiráðs. Ég efa ekki að hér sé rétt frá greint þó að ég hafi ekki séð þetta fyrr, en ég bendi á það að í skýrslu utanrrh. sem ég vitnaði til fyrr, kemur fram að Japan er eitt af mikilvægustu markaðssvæðum Íslendinga. Í skýrslunni er helstu mörkuðum Íslendinga skipt í sex svæði og eitt af þeim sex er Japan. Og mér þykir það merkilegt ef það er niðurstaða utanrrn. eða opinberra aðila að það sé ekki ástæða til að opna sendiráð þar til þess m.a. að stuðla að auknum viðskiptum og útflutningi þangað. Það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra mundi vilja upplýsa um þetta mál og ég get getið þess til upplýsinga að á síðasta ári var verðmæti vöruútflutnings til Japans 7,5% af okkar útflutningi þannig að þetta er ekkert lítið markaðssvæði í þeim skilningi og rétt að leggja nokkuð á sig til þess að vinna þar aukinn hlut fyrst menn hafa náð þarna nokkurri fótfestu.
    Þá vildi ég líka minna á eitt atriði sem mér finnst satt að segja dálítið neyðarlegt ef mál standa eins og ég held að þau séu að íslenska utanríkisþjónustan sé þannig skipulögð að sendiherra Íslands í Japan hefur aðsetur í Moskvu, sinnir bæði Rússlandi og Japan og áður Sovétríkjunum og Japan. Nú má vera að sögukunnátta mín sé ekki alveg fullkomin en ég veit ekki betur en milli þessara tveggja ríkja sé enn þá stríð. Þessi tvö ríki, Japan og Sovétríkin, hafa aldrei samið frið eftir síðari heimsstyrjöldina og miðað við þær upplýsingar sem ég hef úr þessum málaflokki, þá þykir þetta hið neyðarlegasta mál fyrir íslensku utanríkisþjónustuna að vera þannig skipulögð að sinna Japan með sendiherra sem situr í Moskvu. Ég vildi spyrja hæstv. utanrrh. hvort það standi ekki til að fara að breyta þessu, hvort það væri ekki skynsamlegt að breyta þessu þannig að sendiherra Íslendinga í Japan sitji ekki í Moskvu heldur þá a.m.k. í öðru ríki sem býr við frið gagnvart Japönum.
    Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til, virðulegi forseti, að fjalla frekar um þessa þáltill. og ítreka bara það sem ég sagði í upphafi að ég tel það af hinu góða ef menn sameinast um það að vinna nýja markaði hvar svo sem þeir eru, hvort sem þeir eru undir rauðum fána eða einhverjum öðrum, en auðvitað að tilskildu því að menn gleymi ekki því sem menn settu sér sem skilyrði í öðrum löndum og hér í skýrslunni, að gleyma ekki mannréttindamálunum.