Opnun sendiráðs í Peking

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 22:18:25 (7533)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Mér skilst að tveir hv. þm. hafi spurt um afstöðu mína til þessa máls. Því er nokkuð vandsvarað. Það mun vera svona óskráð regla í stjórnarsamstarfi að stjórnarþingmenn flytji ekki tillögur á verksviði ráðherra án samráðs við þá, en af einhverjum ástæðum hefur þannig tiltekist um þessa tillögu að slíkt samráð var ekki haft og ég hef ekki kynnt mér þetta með öðrum hætti en þeim að lesa þetta yfir þegar því var dreift í þingsölum.
    Um afstöðuna er það að segja að hvað svo sem segja má um Kína, þá er þessi tillaga byggð á þeirri forsendu að loka sendiráðum annars staðar vegna þess að ég geri ráð fyrir því að menn virði þá grundvallarreglu í ríkisfjármálum að það standi ekki til að auka útgjöld við starfrækslu sendiráða og þetta verði því aðeins gert að dregið verði úr útgjöldum vegna sendiráða einhvers staðar annars staðar.
    Hér er nefnd sú hugmynd að fækka sendiráðum á Norðurlöndum og hafa aðeins eitt, í Danmörku, þ.e. því eina ríki Norðurlanda sem er í Evrópubandalaginu. Þær hugmyndir hafa verið ræddar, t.d. í ríkisstjórn og a.m.k. í þingflokki Alþb., og þar bera menn við þeim rökum að sendiráð á Norðurlöndum eru í raun og veru sýsluskrifstofur fyrir Íslendinga sem búa á Norðurlöndum og þurfa á að halda þjónustu á Íslandi en Íslendingar búsettir á þessum þríhyrningi, Kaupmannahöfn/Osló/Stokkhólmur eru einhvers staðar á bilinu 15--20 þús. manns. Það þykir því ekki ráðlegt. Sú lausn að opna einhverjar umboðsskrifstofur til þess að sinna þessu með minni tilkostnaði hefur verið könnuð og stenst ekki. Það mundi verða dýrara að hafa sendiráð starfrækt á einum stað og hafa síðan farandsendiherra á ferðalögum á dagpeningum um hinar borgirnar eða svæðin.
    Þá hafa menn hreyft þeirri hugmynd hvort ekki væri rétt að loka sendiráðum í Evrópubandalaginu með þeim rökum að Evrópubandalagið sé að þróast í átt til bandalagsríkis með samþjóðlegu valdi og því ætti að nægja að hafa sendiráð í Brussel sem þýddi þá að loka núverandi sendiráðum í London, París og Bonn og síðar meir kannski Berlín. Um þetta er mikill ágreiningur. Reyndar fælist í þessu líka að loka sendiráðinu í Kaupmannahöfn því að Danmörk er að sjálfsögðu Evrópubandalagsríki.
    Það sem mælir með þessu að því er varðar viðskiptalega þáttinn er það að íslenskt viðskiptalíf þarf ekki á sérstakri fyrirgreiðslu sendiráða að halda í næstu stórborgum. Þar eru viðskiptatengsl með þeim hætti að þeim má þjóna á annan veg. Hins vegar er þetta á þeirri forsendu að þetta byggir á þeirri framtíðarskipan að Evrópubandalagið væri orðið að einu sambandsríki. Það er ekki orðið að því enn þá þannig að það mun varla gerast á þessu kjörtímabili trúi ég þannig að að því er þessa tillögu varðar án þess að ræða nokkurn skapaðan hlut um Kína, þá sýnist mér í fljótu bragði að það skorti samstöðu um forsendurnar, þ.e. hvar á að loka.
    Öllum sem þetta hafa skoðað ber saman um að síst geti Ísland út frá eigin hagsmunum lagt af sendinefndir hjá fjölþjóðlegum samtökum þar sem hiti og þungi dagsins í utanríkisþjónustunni er, þ.e. í sendiráðunum í Brussel, hjá Evrópubandalaginu og Atlantshafsbandalaginu, EFTA-sendinefndinni í Genf og fastanefndinni hjá Sameinuðu þjóðunum í New York.
    Það hefur verið vikið að þeirri tillögu sem hér var flutt og afgreidd að því er varðar viðskiptatengsl við Austurlönd fjær, þ.e. tillögunni um sendiráð í Tókíó. Það mál er þaulrætt við helstu útflutningsaðila á þeim mörkuðum og skiptir nú reyndar í tvö horn um skoðanir á því. Hin stóru sölusamtök sem þar hafa haslað sér völl hafa opnað viðskiptaskrifstofu og telja að þau geti þjónað hagsmunum okkar best sjálf og eru ekki fylgjandi opnun sendiráðs þeirra hluta vegna. Kannaðar voru hugmyndir um samstarf við viðskiptaskrifstofur annarra Norðurlanda, a.m.k. sem fyrsta skref og sumum þótti það álitlegur kostur til að byrja með, en í raun og veru varð niðurstaðan sú hin sama og ég vék að í upphafi að ef menn vilja halda kostnaði við utanríkisþjónustu innan þeirra marka sem nú er, þá verður ekki efnt til nýrrar sendiráðsstarfsemi á fjarlægum slóðum nema með því að draga saman seglin einhvers staðar annars staðar. Um Tókíó er að vísu það að segja að starfræksla sendiráða þar er margfalt dýrari en nokkurs staðar annars staðar. Meira að segja er hún svo dýr að þegar ýmsar hinar efnaminni þjóðir tóku að loka sendiráðum sínum og flytja þau brott vegna þess að þau höfðu ekki fjárhagslegt bolmagn til að halda þeim uppi, gripu Japanir til þess ráðs að fara að niðurgreiða sendiráðsþjónustu erlendra ríkja með því að bjóða þeim niðurgreidda húsaleigu í fjölbýlishúsi í Tókíó. En jafnvel sú niðurgreidda húsaleiga mundi verða ofviða íslenska ríkinu að óbreyttu.