Tekjuskattur og eignarskattur

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 22:57:11 (7541)


     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Bara örfá orð um þetta litla frv. til að lýsa stuðningi mínum við það. Ég held að hér sé um réttlætismál að ræða og ég heiti nú á hv. efh.- og viðskn. að afgreiða þetta mál fljótt og vel þannig að það megi verða að lögum þegar á þessu þingi. Það mun að sjálfsögðu vera ósk hv. flm. og ég geri ráð fyrir því að hann hafi tryggt frv. mikinn stuðning. Mér kæmi það mjög á óvart ef stjórnarandstaðan legðist gegn þessu máli og þar af leiðandi tel ég að við þurfum ekki að hafa langar signingar yfir því. Við getum afgreitt þetta mál og nú vill svo vel til að hér er formaður efh.- og viðskn. í salnum og veit ég að hann heyrir mál mitt og í hjarta sínu að sjálfsögðu réttlátur maður og vís til þess að drífa málið áfram.
    Ég verð nú að spyrja hv. flm. út af orðum sem féllu hér við umræður um síðasta dagskrármál þegar ráðherra tók upp nokkra þykkju við flm. Árna Johnsen. Hæstv. utanrrh. var með hnútur til flm. tillögunnar um sendiráð í Japan og taldi það óskráða reglu að stjórnarþingmenn bæru mál undir viðkomandi ráðherra, þá vil ég spyrja hvort hv. 17. þm. Reykv. hafi ekki tryggt sér stuðning hæstv. fjmrh. við þetta mál. Ef svo er ekki, þá verðum við að bera hæstv. fjmrh. ofurliði í þessu máli. Ég geri því ekki skóna að hv. 17. þm. Reykv. hafi verið að fara af stað með þetta mál í neinni sýndarmennsku. Ég tel að honum hljóti að vera alvara og trúi því að honum sé alvara og ég er sem sagt kominn, herra forseti, hér í ræðustólinn til að lýsa stuðningi mínum við málið og ég skal veita þann atbeina sem ég má til þess að þetta mál verði að lögum þegar á þessu þingi.