Tekjuskattur og eignarskattur

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 23:00:14 (7542)


     Flm. (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil nú þakka hv. þm. Páli Péturssyni fyrir þann óskilyrta stuðning við þetta frv. sem ég hef lagt fram. Það er rétt að það komi fram vegna ummæla hv. þm. að mér er hin mesta alvara með því að leggja fram þetta frv. og ég veit að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður hv. efh.- og viðskn., er jafnaðarmaður í hjarta sínu og vill öllum vel. Það hefur margsinnis komið fram í umræðum hér í þinginu og þess vegna tek ég undir með hv. þm. Páli Péturssyni þegar hann segir að hann sé þess fullviss að Vilhjálmur Egilsson muni ekki bara veita þessu máli atbeina sinn heldur veita því forgang innan sinnar nefndar. Og ég vil þakka honum fyrir það.
    En til mín, virðulegi forseti, var beint fyrirspurn um þann stuðning sem ég hefði aflað við þetta frv. Frá því er fyrst að segja að ég hef nú þegar fengið stuðning hv. þm. Páls Péturssonar og sá stuðningur er nú allmikils virði hér í þessum þingsölum eins og ég hef margsinnis orðið var við. Ég treysti því og trúi að þegar hv. þm. Páll Pétursson lýsir því yfir að ekki muni skorta liðsinni stjórnarandstöðunnar, þá sé það tryggt. En hitt er ljóst að innan stjórnarandstöðunnar nýtur þetta frv. nokkurs fylgis en jafnframt líka a.m.k. innan annars stjórnarflokksins. Það er auðvitað ljóst að nokkrir félagar mínir í Alþfl. munu styðja þetta frv.
    Ég fékk hins vegar til mín spurningu frá hv. þm. Páli Péturssyni um hvaða væntingar ég gerði mér um atbeina fjmrh. Frá því er skemmst að segja, virðulegi forseti, að í krafti þeirrar eindrægni sem við höfum reynt að treysta milli stjórnarflokkanna þá vitaskuld sinnti ég þeirri tilkynningarskyldu að láta fjmrh. vita að ég hyggðist flytja þetta frv. Ég verð hins vegar að upplýsa það að hann veitti mér fullkomlega ærlegt svar. Hann taldi ekki tímabært að leggja þetta frv. fram og gat þess jafnframt að hann vildi ekkert um það segja hvort hann styddi frv. En ég skildi orð hans svo að hann legðist ekki gegn því að ég flytti frv., tek hins vegar fram, virðulegi forseti, að hann veitti mér engar væntingar um það að hann mundi styðja það. Ég tel hins vegar, virðulegi forseti, að það skipti ekki öllu máli. Málið er gott. Það er flutt til þess að bæta úr ranglæti og það er skylda þingmanna að gera það sem þeir geta til þess að styðja slík mál. Mér er fullkomin alvara með því að reyna að fá þetta mál samþykkt hér á þessu þingi og ég veit að málið nýtur stuðnings í mörgum þingflokknum og væntanlega ekki bara hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, heldur einhverra annarra góðra manna í Sjálfstfl. ( Gripið fram í: Eru þeir margir?)