Tekjuskattur og eignarskattur

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 23:05:18 (7544)

     Flm. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Hér er um að ræða tvenns konar breytingar. Í fyrsta lagi breytingar á lögum nr. 111/1992, um breytingar í skattamálum, og í öðru lagi er um að ræða breytingu á lögum nr. 36/1991, bráðabirgðaákvæði þeirra laga.
    Varðandi þá breytingu sem hér er lögð til vegna nýsamþykktra laga um breytingar í skattamálum, þá eru í frv. tvær breytingar. Í 1. gr. frv. er tekið á máli sem skolaðist til í meðförum efh.- og viðskn. á frv. til laga um skattamál en þá var fyrir slysni sett inn að einungis væri heimilt að gjaldfæra stofnkostnað, svo sem kostnað við skráningu fyrirtækis og öflun atvinnurekstrarleyfa á fimm árum í stað þess að þetta var heimilt á einu ári. Það er verið að breyta þessu til baka.
    Í öðru lagi var við afgreiðslu skattalaganna fyrir jólin tekið á deilumáli sem hefur verið um hvernig ætti að fara með skattlagningu á fullvirðisrétti í landbúnaði. Nefndin tók ákveðna afstöðu í því máli þannig að stofnkostnað við kaup á framleiðslurétti megi færa niður með jöfnum fjárhæðum á fimm árum. Þessi ákvæði skv. lögunum eins og þau voru samþykkt áttu að gilda vegna álagningar á árinu 1994 vegna tekna á árinu 1993 og eigna í lok þess árs, en það hafa komið fram óskir frá samtökum bænda um það að þessi breyting geti gilt aftur fyrir sig þannig að það megi hefja gjaldfærslu vegna álagningar tekjuskatts eða eignarskatts á árinu 1993 vegna viðskipta á árinu 1992. Það má færa fyrir því rök að þessi afturvirkni gæti orðið íþyngjandi vegna þess að það eru deilumál um þessi atriði fyrir dómstólum og það gæti verið niðurstaða dómstólanna að það mætti gjaldfæra slík kaup á einu ári en þess vegna er það tekið fram í greininni að ef skattaðili kjósi að gjaldfæra á árinu 1993 vegna viðskipta á árinu 1992, þá geri hann ekki kröfur á hendur ríkissjóði vegna hugsanlegrar íþyngjandi afturvirkni ákvæðanna.
    Síðan er í 3. gr. frv. bætt inn í ákvæði til bráðabirgða í 7. gr. laga nr. 36/1991, en þar er tekið á söluhagnaði við sölu til ríkissjóðs af fullvirðisrétti í sauðfjárrækt. Í frv. er þetta ákvæði framlengt þannig að það sé alveg ótvírætt að þetta gildi um þvingaða niðurfærslu sem átti sér stað haustið 1992 og reyndar ef slík niðurfærsla yrði með einhverjum hætti samþykkt allt fram til 31. des. 1993 til öryggis. Síðan er bætt inn að það gildi það sama um þvingaða niðurfærslu í mjólkurframleiðslu á þessu tímabili.
    Þetta eru efnisatriði frv. Það hafa verið og voru í gangi í efh.- og viðskn. umræður um þessi mál við fulltrúa fjmrn. Það stóð til á tímabili að fjmrh. flytti þetta frv. eða frv. sem væri samhljóða þessu efni en þegar kom að 1. apríl og fresturinn til þess að leggja fram frv. var útrunninn, þá var ljóst að ekki mundi takast að koma því fram og þess vegna var það í samráði við fjmrn. að þetta frv. var flutt. Um öll þessi atriði hygg ég að meðnefndarmenn mínir í efh.- og viðskn. geti verið sammála, enda hafa þessi mál flest eða öll verið rædd þar á milli manna á nefndarfundum og ég vona þess vegna að þetta geti gengið hratt og örugglega fyrir sig í nefndinni og í hinu háa Alþingi.