Ráðherraábyrgð

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 23:29:01 (7547)

     Björn Bjarnason :
    Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga er varðar ráðherraábyrgð og fjallar um það að bæta inn í lögin grein þar sem mælt er fyrir um að það sé á ábyrgð ráðherra, að hann gerist brotlegur við lögin ef hann gefi Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða við meðferð máls á Alþingi leynir upplýsingum er hafa verulega þýðingu.
    Í grg. með þessu frv. er sagt að það sé verið að taka í íslensk lög alfarið ákvæði úr dönskum lögum og í framsöguræðu sagði hv. flm. að lögin frá 1963, ráðherraábyrgðarlögin, séu mjög sniðin eftir dönsku lögunum um ráðherraábyrgð og í flestum greinum samhljóða þeim. Og hann fjallar einnig um það hér að hann vilji ekki ætla þeim sem stóðu að þessari lagasetningu 1963 að þeir hafi viljað gera eitthvað minni kröfur en Danir í þessu efni.
    Ég verð nú að segja það, herra forseti, að lesa þetta bæði í greinargerðinni og í ræðu hv. flm. um lög sem varða það að refsa beri mönnum ef þeir fara með rangt mál á Alþingi, að mér blöskraði þegar ég fór að kynna mér málið því að það kemur í ljós að 1962 og 1963 þegar þessu lög voru sett sem um var að ræða, um ráðherraábyrgð á Íslandi, þá voru engin lög um þetta í Danmörku eins og hv. síðasti ræðumaður hefur vakið máls á þannig að þessi meginforsenda í málflutningi hv. flm. er röng. Það voru engin lög í Danmörku þannig að það gat ekki verið vangá hjá íslenskum ráðamönnum á þessum tíma að sníða ekki íslensku lögin eftir dönskum lögum.
    Í öðru lagi er það líka rangt hjá hv. flm. að hann sé að taka og mælast til þess að það verði sett í íslensk lög það sem stendur í dönsku lögunum um ráðherraábyrgð. Í dönsku lögunum um ráðherraábyrgð kemur fram að það sé unnt að refsa ráðherra fyrir það sem þar segir og ég ætla ekki að deila í sjálfu sér um þýðinguna á þessum c-lið sem hér er sagt: ,,Ef hann gefur Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða við meðferð máls á Alþingi leynir upplýsingum er hafa verulega þýðingu.`` Þetta tel ég að sé sæmilega góð þýðing á þessu ákvæði í 5. gr. dönsku laganna um ráðherraábyrgð sem voru sett 1964 og þá ári síðar en þau lög sem hv. flm. taldi að hann væri að vísa til eða íslenskir ráðamenn hefðu notað sér til fyrirmyndar þegar þeir settu þessi lög. En það ákvæði er í dönsku lögunum um ráðherraábyrgð að það megi aðeins refsa ráðherra ef hann hefur framið brot af ásetningi eða það sé hægt að saka hann um stórkostlegt gáleysi í máli og við meðferð máls á þinginu. Ekkert slíkt er í íslensku lögunum og yrði þetta tekið upp eins og hér segir, þá værum við að gera langtum strangari kröfur en gerðar eru í Danmörku þar sem krafan er sú að ráðherra hafi gefið rangar upplýsingar af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Ef það er ætlan flm. að sníða þetta að dönskum lögum eins og hann gefur til kynna að sé ætlan sín í greinargerð með frv. þá verður hann að breyta þessu ákvæði og laga það að dönsku lögunum og taka fram að það eigi að koma inn í íslensku lögin ákvæði um gáleysi eða stórkostlegt gáleysi og ásetning. Ég tel að fyrir utan það sem ég nú sagði í máli mínu þegar þetta mál var hér áður til umræðu að það væri mikill misskilningur á ferðinni hjá hv. flm., þegar maður fer að kynna sér það nánar, þá er beinlínis byggt á röngum forsendum, bæði þegar hv. flm. heldur því fram að hann sé að fylla upp í eitthvað af því að Ólafi Jóhannessyni hafi láðst á sínum tíma að taka úr dönsku löggjöfinni. Hún var ekki til, hún lá ekki fyrir þannig að Ólafur Jóhannesson hafði ekki við hana að styðjast. Og í öðru lagi þegar hv. flm. tekur upp úr dönsku löggjöfinni, þá gerir hann það með þeim hætti að það vantar alveg grundvallarþátt í málið þannig að hvort tveggja er rangt og er náttúrlega mjög alvarlegt, finnst mér, að standa þannig að málum þegar hann er í hinu orðinu að segja að hann sé að flytja það til þess að koma í veg fyrir að ráðherrar gangi hér fram og hafi rangt mál í frammi við þingheim og hefði nú verið sérstök ástæða til þess við undirbúning að þessu mikilvæga máli að standa þannig að því að það væri ekki hægt að bera á hv. flm. það að hann hafi --- vonandi hefur hann ekki gert þetta af ásetningi. Við verðum að vona að hér sé um stórkostlegt gáleysi að ræða í málinu hjá honum og athugunarleysi við allan málatilbúnað þegar þannig er að verki staðið.
    Það kemur einnig fram eins og hv. síðasti ræðumaður, hv. 9. þm. Reykv. sagði réttilega að þegar maður les umræður sem urðu hér á þinginu þar sem þeir töluðu sem báðir voru á sínum tíma eins og við vitum prófessorar í stjórnlagafræði, Bjarni Benediktsson og Ólafur Jóhannesson, um þetta mál, þá kemur fram hjá báðum að þeir efast mjög um nauðsyn þess að setja þessa löggjöf en segja sem svo að vegna ákvæða í íslensku stjórnarskránni sé ekki annarra kosta völ. Það sé skylda samkvæmt íslensku stjórnarskránni að hafa lög um ráðherraábyrgð og þess vegna séu lögin sett og þess vegna hafi Ólafur Jóhannesson tekið að sér að endursemja lögin og fara yfir þau af því að það er verið að breyta lögunum um landsdóm. Og það er greinilega það sem fyrir vakti á þessum tíma og mér skilst ef ég man þetta rétt, að þetta

sé gert samkvæmt áskorun Alþingis um endurskoðun á lögunum um landsdóm og í tengslum við það er farið út í það að skoða þetta varðandi ráðherraábyrgðina. Eða eins og Bjarni Benediktsson sagði í framsöguræðu um málið, með leyfi herra forseta: ,,Það má auðvitað nokkuð deila um hver þörf sé á sérstökum lögum um ráðherraábyrgð, jafnvel þó að raunhæft yrði að koma lögformlegri ábyrgð, refsiábyrgð, fram á hendur ráðherra, því að sýnt er að ef sérstök löggjöf gildir ekki, þá er ráðherrann þó undirseldur hin almennu hegningarlögum, einnig um sínar embættisathafnir.`` Og síðan kemur: ,,Í Danmörku, sem hefur verið fyrirmynd okkar í þessum efnum, er þrálátur ágreiningur um þörfina á sérstökum lögum um ráðherraábyrgð.`` Síðan er þetta rætt ítarlega og síðan kemur fram eins og hv. 9. þm. Reykv. gat um að Alfreð Gíslason hv. þm. er þeirrar skoðunar og segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Ég veit ekki hversu margir eru hér á landi sömu skoðunar, en svo virðist sem í nokkrum þingræðislöndum séu menn almennt á því máli að ekki sé þörf slíkra laga og kann ég þar að nefna Danmörku, þar sem ekki hefur fengist meiri hluti fyrir því að setja slík lög. Nú verða lög um ráðherraábyrgð að vera til hér á landi. Það heimtar stjórnarskráin, en það er ekki þar með sagt að það sé það heppilegasta,`` segir Alfreð Gíslason og snerist gegn málinu. Og það er nú kannski kaldhæðnislegt að sá sem beitti sér fyrir því og ég vona að þannig fari nú ekki fyrir hv. 1. þm. Norðurl. v., að sá sem beitti sér fyrir því á danska þinginu, ef ég man rétt, að þetta var leitt í lög þar, var einmitt Erik Ninn-Hansen sem verður líklega sá næsti á eftir Alberti, sem var Íslandsráðherra á sínum tíma, til þess að vera stefnt fyrir landsdóm og fyrir brot á ráðherraábyrgðarlögunum. Ég vona, þó að málatilbúnaðurinn í þessu máli gefi kannski til kynna að hv. þm. kunni að lenda í vandræðum vegna framgöngu sinnar og málafylgju hér á þinginu, að hann sitji ekki í ráðherrastól og þurfi að una því að menn kalli hann til ábyrgðar á grundvelli þessa frv. sem hann er hér með. En mér finnst nú miðað við það sem ég hef áður sagt að hann sé í verulegri hættu að þessu leyti að kunna að lenda í því ef þetta yrði samþykkt að verða þá kallaður fyrir og beðinn um að standa fyrir máli sínu á grundvelli þessarar lagasmíðar. Það var sagt á sínum tíma að það hefði verið kaldhæðnislegt að Alberti hefði beitt sér fyrir endurbótum á dönskum fangels um og síðan lent í því að verða dæmdur til setu í þeim eftir að þær endurbætur höfðu verið gerðar og svo lendir Erik Ninn-Hansen í því eftir að hafa flutt frv. um ráðherraábyrgð í danska þinginu að verða væntanlega stefnt fyrir landsdóm. Að vísu er það mál ekki komið á það stig þótt það sé vilji í danska þinginu að kæra hann. Þegar maður kynnir sér þær umræður sem urðu á þinginu 1962 um þetta mál, þá verð ég að segja að ég fyllist enn meiri efasemdum um það að frv. eigi rétt á sér, sérstaklega þetta ákvæði um rangar upplýsingar eða ósannindi hér í þingsalnum af hálfu ráðherra. Ég held að það sé einmitt það sem menn verði helst að deila um og takast á um á hinum pólitíska vettvangi og hér í þessum sal sé sá vettvangur og þingmenn eigi ekki að skjóta því máli til annarra.
    En ég get tekið undir það með hv. 9. þm. Reykv. að ef það er vilji til þess að líta á þessa löggjöf og skoða hana og ég hlakka til að sjá þá skýrslu sem hann gat um, ég hef ekki séð hana og væri fróðlegt að lesa það og íhuga, þá finnst mér miklu nær að nálgast málið með þeim hætti að leggja öll lögin undir en fara að bæta inn í þau ákvæði eins og þessu og raunar trúi ég ekki að það vaki fyrir hv. flm. ef hann ætlar að fara að dönsku lögunum, að hann ætli að sleppa þessu varðandi ásetninginn og hið grófa gáleysi. Mér finnst nú æskilegra að menn setjist yfir þetta og velti þessu fyrir sér, skoði þetta betur, undirbúi málið betur og ræði það þá á grundvelli þeirrar skýrslu sem verið er að þýða fyrir þingmenn og líta á þetta og þetta sé þannig mál eins og að því var staðið í upphafi 7. áratugarins þegar þingmönnum og prófessor úr stjórnarandstöðu á þeim tíma var falið að semja þessi lög og gera það, þá standi menn að því þannig að ekki verði um það stórkostlega pólitískar deilur. Ég verð að segja það einnig um þetta frv. að mér finnst málið þess eðlis að það hafi ekki verið til þess að greiða fyrir framgangi þess á þinginu hvernig hv. flm. hefur notað það svona sérstaklega til árása á hæstv. utanrrh. sem honum virðist vera sérstaklega kært að sníða að og hann hefur sagt að það væri flutt af því ákveðna tilefni sem hann hefur tiltekið og ég ætla ekki að fara að endurtaka hér. Mér finnst það ekki heldur vera til þess fallið að ná um þetta þeirri víðtæku samstöðu sem þarf að vera um mál af þessu tagi þar sem stjórn og stjórnarandstaða þurfa að koma að og skoða þannig að ég endurtek það sem ég sagði áður að ég er andvígur þessu frv. Ég tel að það sé illa ígrundað og ég tel að það hafi komið fram og ég hafi sýnt fram á að það hafi beinlínis verið farið með rangt mál þegar það var kynnt hér fyrir okkur þingmönnum.