Sjávarútvegsstefna

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 13:35:27 (7552)


     Flm. (Jóhann Ársælsson) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 831 flytur þingflokkur Alþb. svohljóðandi till. til þál. um sjávarútvegsstefnu:
    ,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsnefnd Alþingis að sjá um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, sbr. ákvæði til bráðabirgða nr. VII í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Einnig leggi nefndin drög að mótun heildstæðrar sjávarútvegsstefnu.
    Sjávarútvegsnefnd vinni að þessu verkefni í samráði við sjávarútvegsráðuneyti og Fiskistofu sem og hagsmunaaðila útvegsmanna, sjómanna, verkafólks og sveitarfélaga. Sjútvrn. og Fiskistofa aðstoði nefndina og leggi henni til upplýsingar og starfsfólk eftir þörfum. Þá skal sjútvn. heimilt að ráða sér starfsmann meðan á þessu máli stendur og skipa starfshópa á sínum vegum og greiðist allur kostnaður af Alþingi.
    Sjútvn. skili áfangaskýrslu og tillögum um framtíðartilhögun við stjórn fiskveiða í frumvarpsformi til ríkisstjórnarinnar eigi síðar en 15. sept. nk. Þá stefni nefndin að því að ljúka störfum og skila endanlegum tillögum um heildstæða sjávarútvegsstefnu fyrir árslok 1993.``
    Í greinargerð með tillögunni kemur m.a. fram að þingflokkur Alþb. telur ófært að lengur verði látið dragast að hefjast handa um starf sem hefur það að markmiði að koma á sátt í þjóðfélaginu um nýtingu þeirrar auðlindar sem þjóðin byggir lífsgrundvöll sinn á og leggur þess vegna fram þessa þáltill. sem felur í sér að Alþingi sjálft og sjútvn. taki forustu í starfi og stefnumótun á þessu sviði.
    Með þáltill. er fskj., drög að frv. til laga um stjórn fiskveiða sem ég hef haft frumkvæði um að semja í samráði við fulltrúa úr sjávarútvegsmálaráði Alþb. Tilgangurinn með því er að kynna tillögur um breytta fiskveiðistjórnun og stuðla að því að umræða geti hafist um þær.
    Það hefur lengi verið á því mikil nauðsyn að fram kæmi til umræðu heildstæð tillaga um stjórn fiskveiða sem byggð er á þeim markmiðum sem lýst er í meðfylgjandi frv. Alþb. er reiðubúið að ræða í þaula meðfylgjandi frv. með það að markmiði að víðtæk samstaða geti myndast um nýskipan á stjórn fiskveiða. Við umfjöllun málsins þarf að leggja sérstaka áherslu á að aðilum í sjávarútvegi verði gefið svigrúm til að aðlagast nýjum stjórnarháttum þannig að ákvarðanir sem einstök fyrirtæki hafa tekið til hagræðingar á grundvelli núgildandi kvótakerfis nýtist viðkomandi fyrirtæki eðlilega þrátt fyrir að annar háttur verði upp tekinn við stjórn veiðanna.
    Það er enginn kostur á því hér við þessa umræðu að lýsa þessum hugmyndum nánar og á það verður að treysta að til þess gefist tími síðar. Ég hef sent þessar tillögur til útgerða og áhafna á skipum um allt land og ég hef fengið viðbrögð við þeim sem eru ótrúlega jákvæð. Ég hvet menn til þess að lesa þessar tillögur og gera sér grein fyrir því hvernig þær eru hugsaðar.
    Hæstv. forseti. Fyrir undarlega tilviljun náðist samkomulag í ríkisstjórn um svokallað þróunargjald

og í framhaldi af því voru tillögur tvíhöfða nefndar lagðar fram og kynntar ásamt frv. um þróunarsjóð sjávarútvegsins einum eða tveimur dögum eftir að við lögðum fram þessa þáltill. Í framhaldi af því hófu forráðamenn tvíhöfða nefndarinnar krossferð á kostnað sjútvrn. til að kynna tillögur sínar. Hér gefst ekki tími til þess að ræða um tillögurnar nema að litlu leyti en viðbrögð sjómannasamtakanna og viðtökur á fundum tvíhöfða nefndarinnar segja sína sögu um að það getur aldrei orðið sátt um þessar tillögur með þjóðinni. Og hverjar eru þessar tillögur? Í aðalatriðum eru þær eftirfarandi:
    Aflamarkskerfið ásamt frelsi til að braska með veiðiheimildir verði fest í sessi. Þetta er auðvitað aðaltillagan og allar hinar eru í raun meira og minna til að viðurkenna eða flýta þeirri þróun sem þessi óheilbrigðu viðskipti með veiðiheimildir hafa verið að leiða yfir okkur. Til þess að staðfesta þessa afstöðu og undirstrika ánauðarstefnuna skulu allar bátsskeljar á kvóta og allir fiskstofnar sem nytjaðir eru eða nytjaðir verða við landið, öll kvikindi sem verða dregin úr sjó við Ísland, vera fyrir fram í eigu veiðiréttareigenda. Þess vegna skyldi auðvitað setja kvóta á smábáta. Þess vegna skyldi afnema tvöföldun á línunni. Þess vegna verður að koma eignarhaldi á keiluna, lönguna, lúðuna, steinbítinn og blálönguna. Það gengur auðvitað ekki að þessi kvikindi séu að synda munaðarlaus um fiskimiðin. Það verður einhver að hafa eignarhald á þeim líka.
    Þá er lagt til að það megi skrá aflaheimildir á fiskvinnslustöðvar sem er, ef það er skoðað í samhengi við hinar tillögurnar, staðfesting á þeirri þróun sem að er stefnt. Nefndin er að leggja til að þeim sem ekki eru í útgerð verði auðveldað að taka þátt í braskinu með veiðiheimildirnar. Í þessu sambandi er rétt að minna á þann rökstuðning sem notaður var þegar verið var að koma kvótakerfinu á, þ.e. að það væru einungis menn sem hefðu verið í útgerð sem ættu að hafa réttinn til að veiða fisk.
    Þá er rétt einmitt í þessu samhengi að nefna þá tillögu nefndarinnar að útlendingum skuli gert kleift að eiga a.m.k. óbeint í íslenskum útgerðarfyrirtækjum. Hver er svo sú framtíð sem þessar leikreglur munu færa okkur ef þær verða staðfestar? Það verður auðvitað ekki sagt með fullri vissu en þróunin að undanförnu og þær tillögur sem hér hafa litið dagsins ljós frá tvíhöfða nefndinni gefa mjög ákveðnar vísbendingar um við hverju við megum búast. Veiðiréttareigendur hafa nú þegar byrjað í stórum stíl að notfæra sér veiðiheimildir sínar til að þvinga fram lægra fiskverð. Það fer gjarnan þannig fram að kvótaeigandinn lætur fiska fyrir sig á því fiskverði sem hann ákveður og leggur fram eitt tonn í veiðiheimild á móti einu tonni frá viðkomandi bát. Þannig fær kvótaeigandinn helmingi meiri fisk en hans kvóti gefur tilefni til og fiskinn á allt að 30% lægra verði en gengur í öðrum viðskiptum. Þetta kalla tvíhöfðarnir hagræðingu og á þeim er að skilja að einmitt þessi viðskipti séu besti rökstuðningurinn fyrir því að festa kerfið í sessi. Þeir hafa reyndar sagt það skýrt og greinilega að kvótakerfið sé ekki fiskverndarkerfi heldur fyrst og fremst til að tryggja hagkvæmni. Skyldu ekki einhverjir sem hafa verið stuðningsmenn þessa kerfis hrökkva við vegna þess að þeim var talin trú um það að þetta væri bráðabirgðalausn sem ætti að gilda í 3--4 ár og væri eina leiðin til að bjarga þorskstofninum?
    En hvernig verður þessi viðskiptalega hagræðing sem nú virðist vera orðin veigamesta röksemdin fyrir kvótakerfinu til? Var einhvers staðar hagrætt vegna þessara viðskipta? Var einhvers staðar sparað? Nei. Tilkostnaðurinn var þvert á móti aukinn því að fiskinum var ekið á vörubílum t.d. frá Snæfellsnesi, Akranesi og Reykjavík til Sauðárkróks og Skagastrandar og stundum suður yfir Holtavörðuheiðina líka. Og þannig mætast þorskarnir gjarnan á heiðinni og gömul öfugmælavísa er það ekki lengur:
        Fiskurinn hefur fögur hljóð,
        finnst hann oft á heiðum.
        Ærnar renna eina slóð
        eftir sjónum breiðum
--- innan skamms í hagræðingarskyni að hætti tvíhöfðanna. Þetta er hagræðing og gróði og þetta eykur örugglega hagvöxtinn. Og hvernig stendur á því og hverjir gera það mögulegt? Það eru sjómenn og kvótalitlar útgerðir sem eru í ánauð hjá veiðiréttareigendum og það verða þeir sem standa undir kvótakaupum útgerðarfyrirtækja framtíðarinnar ef þessi óskapnaður fær að halda áfram.
    En svo eru aðrar aðferðir. Hjá sumum útgerðum er kostnaðurinn við kvótakaup dreginn frá skiptaverðinu til sjómanna án þess svo mikið sem nefna það við áhöfnina. Ein nýjasta aðferðin gefur mestan arð. Hún opnar okkur nýja framtíðarsýn. Nú eru sumir kvótaeigendur hættir að leigja kvótann og þeir eru líka hættir að selja hann. Þeir láta kvótalitlar útgerðir fiska fyrir sig fyrir einhverjar 50--60 kr. en ekki til að vinna fiskinn sjálfir. Nei, þeir selja fiskinn síðan á markaði eða í beinum viðskiptum fyrir miklu hærra verð. Það er notalegt að sitja í landi og hirða stórfé fyrir að gera ekki eitt, nóg til að geta komist yfir enn meiri kvóta. Veiðirétturinn hefur öðlast sjálfstætt gildi. Þeir sem eiga hann munu krefjast þess endurgjalds sem markaðsaðstæður gefa möguleika á á hverjum tíma. Og það verða sjómennirnir og kvótalitlar útgerðir sem greiða auðlindaskattinn til sægreifa framtíðarinnar sem munu að sjálfsögðu hvorki leggja fyrir sig sjómennsku né útgerð. Og kvótaverðið verður áfram hátt vegna þess að með þessum fínu aðferðum borga sjómennirnir og kvótalitlu útgerðaraðilarnir meiri og meiri kvóta fyrir hina nýju óðalsbændur sem tvíhöfða nefnd ríkisstjórnarinnar leggur til að fái endanlega blessun Alþingis. En samtök sjómanna sjá auðvitað hvert stefnir og eru búin að lýsa yfir stríði gegn óheftu framsali veiðiheimilda. Það eru mikil tíðindi því að það velkist varla nokkur maður í vafa um það að stjórnkerfi í fiskveiðum sem samtök sjómanna lýsa sig algerlega andvíg getur ekki staðist stundinni lengur ef þau samtök beita afli sínu til að knýja fram vilja sinn.

    Ætla stjórnarflokkarnir virkilega að láta yfirlýsingar sjómannasamtakanna sem vind um eyru þjóta? Kvótaverðið hefur verið það hátt á undanförnum árum að enginn fræðilegur möguleiki hefur verið á því að stofna til nýrrar útgerðar. Samanlagt verð á skipum og aflaheimildum er 30--40% of hátt til að dæmið gæti gengið upp nema einhver aðili, t.d. bæjarfélagið á viðkomandi stað sé tilbúið að leggja fram verulega fjármuni sem það fær aldrei aftur. Tími sægreifa, stórfyrirtækja og bæjarútgerða er að renna upp. Endurskoðun fiskveiðistefnunnar sem ekki tekur á verstu göllum kvótakerfisins sem eru byggðaröskun, kjaraskerðing sjómanna og fiskverkafólks og óeðlilegir viðskiptahættir er engin endurskoðun.
    Þróunarsjóðurinn er uppfinning ríkisstjórnarinnar til að láta þá sem eftir lifa í útgerð borga það sem hinir töpuðu. Það mætti spyrja hvort ekki ætti að stofna svona sjóð í öllum atvinnugreinum til að bjarga bönkunum frá því tapi sem þeir hafa stofnað til með misheppnuðum útlánum. En þarna er líka gert ráð fyrir því að útgerðin borgi offjárfestinguna í fiskvinnslunni og það er með eindæmum ósvífin tillaga.
    Það er nú orðið deginum ljósara að öll endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða er sýndarmennska sem átti frá upphafi aldrei að bera annan árangur en þann að festa núgildandi kerfi í sessi. Þetta má sjá af samsetningu tvíhöfða nefndarinnar þar sem í hana voru eingöngu valdir yfirlýstir kvótamenn. Þetta má sjá á vinnubrögðum nefndarinnar sem passaði sig á því alveg sérstaklega að ræða þessi mál ekki við nokkurn af þeim aðilum sem með lögum var þó áskilið að gert væri. Þetta má sjá af því að nefndin skilaði ekki af sér tillögum fyrr en það var lítið eftir af þingtímanum, það lítið að enginn raunhæfur möguleiki var á að skoða aðrar leiðir til að leysa þessi mál fyrir lok þingsins.
    Ýmsir stjórnarliðar hafa lýst sig algerlega andvíga því að setja kvóta á krókabáta og það er vel. En mér finnst tækifærismennskan ná hámarki hjá þeim sem mér finnst ætla að reyna að slá sig til riddara í augum smábátaeigenda og í þeim byggðarlögum sem mest eiga undir þeirri útgerð með þessari afstöðu en eru síðan tilbúnir að staðfesta þá óhugnanlegu tillögu ríkisstjórnarinnar að festa kvótakerfið með frjálsu framsali í sessi og veita kvótaeigendum víðtækt frelsi til að hagnast á kostnað sjávarútvegsbyggðanna, sjómanna og fiskverkafólks og veita útlendingum möguleika til þess að eignast hlut í auðlindinni.
    Hæstv. forseti. Tillaga þingflokks Alþb. felur það í sér að hér verði tekið í taumana, að málið verði sett í þann farveg sem Alþingi var búið að ákveða með lögunum um stjórn fiskveiða, að menn taki sér tíma til þess að vinna þetta verk almennilega.
    Ég legg til að að þessari umræðu lokinni verði tillögunni vísað til síðari umræðu og sjútvn.