Sjávarútvegsstefna

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 14:11:28 (7555)

     Stefán Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Hér hefur verið efnt til umræðu um eitt af okkar allra stærstu málum, þ.e. fyrirkomulag um stjónun fiskveiða. Alþb. hefur lagt fram hugmyndir að breyttu kerfi. Þeir vilja að ráðherra og Fiskistofu verði færð stóraukin völd. Þeir vilja taka upp veiðistýringu í stað sóknarmarks. Alþb. vill að þau skip ein fái leyfi til veiða í atvinnuskyni sem hafa haft þá möguleika áður. Og þar rísa þeir hæst í hugmyndum sínum alþýðubandalagsmenn að leggja til að veiðileyfagjald verði tekið upp. Þetta er kjarninn í tillögum Alþb. Þegar við ræðum um hugmyndir að nýrri og breyttri sjávarútvegsstefnu hljótum við að spyrja okkur hvort það kerfi sem nú er starfað eftir í sjávarútvegi hafi brugðist í veigamiklum þáttum. Hefur aflamarkskerfið sem slíkt ekki skilað því sem vænst var? Á fundi sjútvn. sl. mánudag spurði ég fulltrúa veiða og vinnslu hvort þeir teldu að sjávarútvegurinn hefði haft ávinning af aflamarkskerfinu. Þeir svöruðu því að aflamarkskerfið hefði reynst vel og skilað greininni verulegum ávinningi í þeirri þröngu stöðu sem sókn til hafsins leyfir í dag. Aflamarkskerfið hefur tvímælalaust fært okkur nær því marki sem sett er um leyfilegt aflamagn.
    Með núgildandi lögum hefur tekist að draga verulega úr útflutningi á ferskum fiski, bæði þorski og ýsu sem nemur mörgum tugum prósenta. Þetta hefur m.a. orðið til þess að styrkja verulega vinnslu í landi og er einmitt það sem stefnt hefur verið að, að efla landvinnsluna þannig að við njótum sjálf margfeldisáhrifa vinnslunnar hér heima. En það er ekki óeðlilegt að menn spyrji hvort það sé rétt sem haldið hefur verið fram að núverandi kerfi hafi valdið verulegri röskun milli landshluta í vinnslu afla. Ef við lítum aðeins yfir það og skoðum hvað hefur gerst frá árinu 1983, t.d. við Reykjanesið, þá var hlutur Reykjaness aðeins um 18% en árið 1991 var hann kominn upp í 20,9%. Ef við lítum til Vesturlands var hlutur þess árið 1983 um 11,7% en árið 1991 var hluturinn orðinn 11,4%. Hann hafði sem sagt aðeins fallið þar. En ef við skoðum Vestfirðina þá kemur það í ljós að 1983 var hlutur Vestfjarða í vinnslunni 13,7% en 1991 var hann orðinn 15,4%.
    Við gætum spurt áfram ( SJS: Það vantar sjófrystinguna inn í þetta.) hvort þessi stjórnun hafi fært togurum stóraukinn rétt. Er það rétt? Ef við lítum yfir það sem hefur gerst þá er það svo að þorskafli skipa yfir 10 tonnum var árið 1984 rúmlega 370 þús. tonn. Hann hefur verið nú um 157 þús. tonn, hann hefur sem sagt dregist saman um hvorki meira né minna en rétt um 214 þús. tonn. Þorskafli báta undir 10 tonnum var árið 1984 rétt um 12.400 tonn, en hann er nú 38.500 tonn. Hann hefur sem sagt aukist um hvorki meira né minna en tæp 26.000 tonn. Þess ber þó að geta og það er skylt að taka það fram að á þessu tímabili fjölgaði smábátum hvorki meira né minna en um 827. Og það voru því miður þingmenn Alþb. og Alþfl. sem komu í veg fyrir það á sínum tíma að takmarkanir yrðu settar á fjölgun smábáta. Það voru þingmenn Alþb. og Alþfl. þá. Það var vissulega óhappaverk sem þar var unnið.
    Umræðan í þjóðfélaginu snýst einnig um það að núverandi kerfi stuðli að því að aflarétturinn falli til svokallaðra stórútgerðarmanna. Ef við skoðum það einnig kemur í ljós að 15 af 20 stærstu kvótahöfunum hefur hver um sig innan við 2% af veiðiheimildunum, innan við 2%. Sú útgerðin sem mestan aflaréttinn hefur á Íslandi í dag er með um 3,7%.
    Mér er það ljóst að núverandi kerfi er ekki fullkomið enda byggt á vissri sáttagjörð þeirra sem við eiga að búa. Því tel ég að við núverandi aðstæður sé skynsamlegt að bæta gildandi kerfi fremur en að umbylta því. Auðvitað er það svo ef af sanngirni er skoðað þá er það ekki sjálf fiskveiðistjórnunin sem vandanum veldur. Það er fyrst og fremst minnkandi afli og alveg afleit rekstrarskilyrði. Tillögur Alþb. munu þar engu um breyta, þær munu fremur auka á þann vanda sem fyrir er. Alþb. hefur með þessum tillögum tekið sér stöðu með Alþfl. og Sjálfstfl. að koma á veiðileyfagjaldi og auðlindaskatti. Þeir leggja til að innheimt verði af sjómönnum um 2.000 kr. aukaskattur af hverju veiddu tonni. Þessir flokkar vilja skattleggja þá enn frekar sem róa og draga að mestu það hráefni sem þjóðarkakan verður til af. Tillögur Alþb.

og tvíhöfða nefndarinnar eru óásættanlegar í þeirri mynd sem þær liggja nú fyrir ásamt og með þróunarsjóðnum. Það sem mestum áhyggjum veldur í sjávarútveginum og á því er því miður ekki tekið í tillögum Alþb. og ekkert að finna um slíkt í tillögum tvíhöfða nefndarinnar eru tillögur um bætt starfsskilyrði í sjávarútveginum.
    Þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar fór frá völdum var hagnaður í sjávarútvegi og hafði afkoman ekki verið mjög góð í mjög langan tíma. Sjávarútvegurinn gerði þá meira en borga af lánum sínum, hann gat lagt að auki milljarða í sjóði sem núv. ráðherrar kölluðu þá aumingjasjóði. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók því við góðu búi. Hagnaði í sjávarútvegi, verðbólgustigi hliðstæðu því sem var í viðskiptalöndum okkar, og þjóðarsátt í kjaramálum. Öllu þessu og miklu fleiru hefur ríkisstjórninni tekist að klúðra og hefur hún þó aðeins starfað í rétt um tvö ár.
    Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar var að leggja yfir milljarð í nýjum álögum á sjávarútveginn og tæma þá sjóði er greinin sjálf hafði aflað til. Núv. ríkisstjórn virðist gjörsamlega vanmáttug að fást við þessi mál. Tapið í sjávarútveginum nemur nú milljörðum kr. og fjöldi fyrirtækja í þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar riðar nú til falls. Forsrh. segir hins vegar að það sé stílbrot á stefnu sinni að grípa til aðgerða, það er stílbrot á stefnu þessarar ríkisstjórnar að grípa til aðgerða.
    Ríkisstjórn sem svo gjörsamlega virðist slitin úr tengslum við umhverfi sitt og þjóðlíf á vonandi aðeins eftir stutta vegferð á göngu sinni. Sú gífurlega eignatilfærsla sem blasir við vegna rangrar stjórnarstefnu er ekki þolandi. Menn verða að hafa það hugfast að samkeppnisstaða gjaldeyrisaflandi atvinnugreina verður að vera sambærileg við það sem gerist í nágranna- og samkeppnislöndum okkar. Það er grundvallarmál að menn átti sig á því.
    Hugmyndum um auðlindaskatt í sjávarútvegi er hér afdráttarlaust hafnað. Sjávarútvegurinn á eins og önnur atvinnustarfsemi að hafa viðunandi rekstrargrundvöll og ber þá að sjálfsögðu að borga skatta af starfsemi sinni. Sjávarútveginn á ekki að meðhöndla á annan hátt en aðra atvinnustarfsemi í landinu.
    Virðulegi forseti. Það er grundvallarmál að rekstrarumhverfið í sjávarútveginum og sá rammi sem greininni er ætlað að starfa innan sé skýr. Greinin býr nú við mikla óvissu hvað þetta varðar. Því ástandi verður tafarlaust að létta af, virðulegi forseti.